laugardagur, 18. september 2010

Akureyri í gær



My hometown, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já það var ekki hægt að kvarta undan veðrinu í gær - og reyndar ekki í dag heldur ef út í það er farið. Eftir sund og morgunmat í gærmorgun fór ég út með myndavélina. Það var svo yndislegt veðrið, en hitinn var nú ekki nemar 4 gráður þegar ég fór út. En það gildir víst að reyna að nota þessa góðviðrisdaga eins og hægt er. Segi ég og horfi á góða veðrið út um gluggann. Ég var að vinna frá tíu til tvö í dag og fór svo í bæinn. Þar settist ég inn í Eymundsson, fékk mér kaffi og fletti tímaritum. Mér finnst voða notalegt að eiga stundum smá "quality time" með sjálfri mér. Svo fór ég og fjárfesti í stærri brjóstahaldara, því stellið framan á manni stækkar náttúrulega í takt við allt hitt. Reyndar var nú eiginlega markmiðið að fara út að hjóla og líklega geri ég það þegar ég er hætt þessu pári.

Valur fór í ljósmyndaferð að Aldeyjarfossi í dag (enn einu sinni, hehe). Hann er nú á heimleið og fær örugglega að klára að elda þegar hann kemur heim. Það er lambahryggur í matinn, mikill uppáhaldsmatur minn, og ég er búin að setja hann í ofninn. En það er best að Valur geri sósuna, hann er algjör sósusnillingur.

Annars er fátt í fréttum. Ég fer á kóræfingu nr. 2 á morgun. Um miðja vikuna fékk ég allt í einu áfall yfir því hvað ég væri nú búin að koma mér út í. Mér óx svo í augum að kunna ekki að lesa nótur, af því í síðasta tíma fór öll orkan í að reyna að fylgjast með á nótnablaðinu, og ég söng voða lítið. Fullkomnunaráráttan aðeins að láta á sér kræla. En já ég kveð hana bara í kútinn og þetta hlýtur að koma smám saman. Svo er ég líka búin að vera alveg gjörsamlega ónýt af gigtinni síðustu tvær vikurnar og fór að hugsa sem svo að ég gæti örugglega ekki verið í þessum kór af því heilsan er svona léleg - en ég blæs nú bara á það líka. Maður getur ekki bara grafið sig lifandi þó þessi gigt sé að gera mér lífið leitt.

Og já nú er ég búin að tæma sarpinn í bili.

4 ummæli:

Fríða sagði...

Það verður spennandi að æfa í Hofi á morgun. Þetta með nóturnar verður ekkert mál, maður fær þetta á diskum og þá er bara að hlusta nógu vel og oft á þá. En eins og Daníel sagði, þá vildi hann ota nótunum að okkur líka. Ég var með diskana í fyrra á æpoddinum og hlustaði á þetta án þess að trufla nokkurn mann. Það gaf góða raun.

Guðný Pálína sagði...

Takk Fríða, þetta verður örugglega í lagi allt saman, bara ef ég hætti að vera svona stressuð yfir þessu ;)

Nafnlaus sagði...

Mikð er bærinn okkar fallegur á þessum árstíma, já og hinar árstíðirnar líka. :-)
kv
Sunna

Guðný Pálína sagði...

Já bærinn okkar er svo sannarlega fallegur, sérstaklega í svona fallegu veðri ;)