Annars finnst mér lífið eitthvað svo skrýtið þessa dagana. Eða öllu heldur er ég eitthvað svo skrýtin - án þess þó að ég geti sett fingurinn á það hvað það er. Og nú veit ég ekki hvor það er norska að segja þetta með fingurinn... eða enska. Hljómar að minnsta kosti afar ó-íslenskulega. En það er nú svo fyndið að eftir bara tvo daga með norskum gestum er ég farin að hugsa á norsku. Svona er þetta ríkt í manni ennþá, eftir 15 ára fjarveru frá Noregi. Undarlegur þessi heili minn.
Í gær fórum við með Önnu og Kjell-Einari í Mývatnssveit. Ætlunin var að fara að Þeistareykjum fyrst en við villtumst og enduðum í Gjástykki. Fórum þar í ágætis gönguferð í hrauninu og nutum náttúrunnar. Svo fórum við reyndar í Mývatnssveitina og fengum okkur að borða í Dimmuborgum. Þá var komin úrhellisrigning svo ekkert varð úr göngu uppá Hverfjall eins og áætlað hafði verið.
Í dag fórum við í bíltúr fram í fjörð. Skoðuðum Smámunasafnið og Saurbæjarkirkju og fórum svo í Holtssel og fengum okkur ís. Valur eldaði svo tandoori kjúkling i kvöldmatinn.
Ég gat sem sagt ekki sofnað í kvöld, eins og svo oft áður, og sit þess vegna hér í tölvu inni í stofu. Þetta er nú meiri vitleysan að eiga svona erfitt með að sofa þegar maður á og þarf að sofa. Einhverjir erfiðleikar hjá frúnni með að slaka á, það er nokkuð ljóst.
En já, ætli ég segi þetta ekki gott í bili og hlífi mínum fáu lesendum við birtingu myndar í þetta sinn. Ef einhver hefur þeim mun meiri áhuga er hægt að skoða myndir í "slideshow" hér
Engin ummæli:
Skrifa ummæli