Já við eiginmaður minn til bráðum 20 ára höldum áfram að sinna áhugamálinu. Í gær lá leiðin að Aldeyjarfossi til að taka ljósmyndir. Við lögðum nú frekar seint af stað þar sem ég hafði verið andvaka nóttina áður og sofnaði ekki fyrr en milli sex og sjö um morguninn. En ég var vöknuð kl. 12 og við vorum lögð af stað um hálf tvö leytið. Ísak var eftir heima, dauðfeginn að vera laus við okkur úr húsinu í smá stund, eða þannig :)
Þetta var hin fínasta ferð. Við klifruðum alveg niður að fossinum (þar sem Valur er neðst í vinstra horninu á myndinni) og vorum þar niðri í hátt í tvo tíma held ég bara. Sólin boraði smá gat í gegnum skýjahuluna sem verið hafði og þetta var bara alveg yndislegt. Við vorum með nesti með okkur og borðuðum það svo niðri við fallega bergvatnsá að myndatökunni lokinni. Þar var líka fullt af vel þroskuðum bláberjum og aldeilis gott að fá smá berjasmakk. Hefði náttúrulega bara þurft að fara að komast í berjamó.
Þegar við komum heim eldaði Valur þessa dásemdar fiskisúpu og við fengum okkur glas af hvítvíni með. Ísak hafði verið búinn að fá sér brauðstangir frá Jóni Spretti, því við komum jú ekki heim fyrr en um hálf átta leytið. Svo var bara sjónvarpsgláp og rólegheit um kvöldið.
Ég steinsvaf sem betur fer í alla nótt, eða ca. frá miðnætti til ellefu í morgun, geri aðrir betur. Nú sit ég hér enn á náttfötunum og klukkan að verða eitt. Húsið er allt í drasli, eða það finnst mér að minnsta kosti. Mér finnst líka, án þess að vita hvort það er rétt, að ég hafi aldrei verið jafn ógurlega löt í sumarfríi áður. Ég nenni ekki einu sinni í sund og nenni alls ekki að laga til í húsinu. Dagarnir líða bara í alls herjar afslöppun.
Hins vegar neyðist ég til að klára að mála handriðið fyrir aftan hús þar sem ég er nú einu sinni byrjuð á því. Og ég neyðist líka til að fara að byrja á bókhaldinu eina sanna. Ætli ég byrji ekki bara á eftir að raða öllum fylgiskjölunum í rétta röð, þá verður það að minnsta kosti komið.
Annars er ég bara í nokkuð góðum gír í dag og aldrei að vita nema ég skreppi í smá hjóltúr. Svo þykist nú Valur ætla með mig í enn eina ljósmyndaferðina á morgun. Við eigum nú t.d. alltaf eftir að fara að Þeistareykjum, því við villtumst jú þegar við ætluðum þangað með Önnu og Kjell-Einari...