laugardagur, 31. júlí 2010

Við Aldeyjarfoss



Við Aldeyjarfoss, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já við eiginmaður minn til bráðum 20 ára höldum áfram að sinna áhugamálinu. Í gær lá leiðin að Aldeyjarfossi til að taka ljósmyndir. Við lögðum nú frekar seint af stað þar sem ég hafði verið andvaka nóttina áður og sofnaði ekki fyrr en milli sex og sjö um morguninn. En ég var vöknuð kl. 12 og við vorum lögð af stað um hálf tvö leytið. Ísak var eftir heima, dauðfeginn að vera laus við okkur úr húsinu í smá stund, eða þannig :)

Þetta var hin fínasta ferð. Við klifruðum alveg niður að fossinum (þar sem Valur er neðst í vinstra horninu á myndinni) og vorum þar niðri í hátt í tvo tíma held ég bara. Sólin boraði smá gat í gegnum skýjahuluna sem verið hafði og þetta var bara alveg yndislegt. Við vorum með nesti með okkur og borðuðum það svo niðri við fallega bergvatnsá að myndatökunni lokinni. Þar var líka fullt af vel þroskuðum bláberjum og aldeilis gott að fá smá berjasmakk. Hefði náttúrulega bara þurft að fara að komast í berjamó.

Þegar við komum heim eldaði Valur þessa dásemdar fiskisúpu og við fengum okkur glas af hvítvíni með. Ísak hafði verið búinn að fá sér brauðstangir frá Jóni Spretti, því við komum jú ekki heim fyrr en um hálf átta leytið. Svo var bara sjónvarpsgláp og rólegheit um kvöldið.

Ég steinsvaf sem betur fer í alla nótt, eða ca. frá miðnætti til ellefu í morgun, geri aðrir betur. Nú sit ég hér enn á náttfötunum og klukkan að verða eitt. Húsið er allt í drasli, eða það finnst mér að minnsta kosti. Mér finnst líka, án þess að vita hvort það er rétt, að ég hafi aldrei verið jafn ógurlega löt í sumarfríi áður. Ég nenni ekki einu sinni í sund og nenni alls ekki að laga til í húsinu. Dagarnir líða bara í alls herjar afslöppun.

Hins vegar neyðist ég til að klára að mála handriðið fyrir aftan hús þar sem ég er nú einu sinni byrjuð á því. Og ég neyðist líka til að fara að byrja á bókhaldinu eina sanna. Ætli ég byrji ekki bara á eftir að raða öllum fylgiskjölunum í rétta röð, þá verður það að minnsta kosti komið.

Annars er ég bara í nokkuð góðum gír í dag og aldrei að vita nema ég skreppi í smá hjóltúr. Svo þykist nú Valur ætla með mig í enn eina ljósmyndaferðina á morgun. Við eigum nú t.d. alltaf eftir að fara að Þeistareykjum, því við villtumst jú þegar við ætluðum þangað með Önnu og Kjell-Einari...

fimmtudagur, 29. júlí 2010

Punktablogg...

- Sumarfríið mitt styttist snarlega í annan endann og víst ekkert við því að gera. Andlega séð er ég samt eiginlega komin með annan fótinn í vinnuna því ég þarf að færa bókhald fyrir virðisaukaskattskil 5. ágúst og er eins og venjulega á síðasta snúningi með það allt saman.
- Ókey, smá sjálfsvorkunn í gangi hérna, sem er ástæðulaust.
- Kosturinn er sá að búðin er lokuð á mánudaginn og þá get ég unnið allan daginn í bókhaldinu ef því er að skipta.
- Ég byrjaði að grunna handriðið fyrir aftan hús og verð víst að halda áfram og mála það líka.
- Húsið er allt í drasli en hver nennir að nota sumarfríið sitt í að laga til?
- Andri er að fara á þjóðhátíð í Eyjum og er voða spenntur. Vonandi gengur allt vel hjá honum.
- Kettirnir lifa ljúfu lífi og hafa engar áhyggjur. Heppin þau.
- Hrefna er í Bergen í Noregi, að vinna sem hjúkka í heimahjúkrun í einn mánuð. Það er flott hjá henni og gaman vonandi líka.
- Við höfum ekki fengið neina fleiri gesti og ekki er von á neinum.
- Ísak er búinn í vinnuskólanum, og er afskaplega ánægður með það.
- Ætli við skreppum ekki eitthvert á morgun í ljósmyndaferð.
- Ég er í hálf undarlegu skapi í dag, eins og sést kannski, en engin sérstök ástæða liggur að baki. 
Og nú ætla ég að klippa á mér neglurnar og fara svo í málningargallann.

miðvikudagur, 28. júlí 2010

Sumarfílingur



Sumarfílingur, originally uploaded by Guðný Pálína.
Við Valur höfum að mestu leyti fengið gott veður í sumarfríinu og notið þess eins og vera ber. Eitt af því sem við reynum að gera, er að borða sem oftast úti þegar veður leyfir. Síðasta laugardag byrjuðum við daginn á að fara út að hjóla í góða veðrinu og tókum góðan hring út í Naustahverfi. Eftir hjóltúrinn var ég svo spræk að ég bjó til rabbarbarapæ og lagði á borð úti á palli. Datt í hug að klippa rósir og setti í gamla könnu sem ég nota nú yfirleitt sem vökvunarkönnu. Og tók svo auðvitað mynd af öllu fíneríinu :)

fimmtudagur, 22. júlí 2010

Smá ferðalag

Við Valur drifum okkur í fyrradag af stað og ókum sem leið lá í Skagafjörð. Með smá viðkomu á Glerártorgi reyndar, þar sem frúin keypti sér "ferðabuxur". Mig hefur nefnilega lengi vantað þægilegar buxur fyrir ferðalög, finnst óþægilegt að vera í gallabuxum í bíl. Var svo heppin að detta niður á buxur sem eru reyndar aðeins í rýmri kantinum en með belti eru þær í lagi.

Við höfðum pantað mat og gistingu í Lónkoti og fórum beinustu leið þangað enda orðin glorhungruð. Við vissum að mikið ætti að vera lagt í matseldina í Lónkoti og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Fengum fjórréttaða máltíð og hver rétturinn var öðrum betri. Mikil áhersla er lögð á að nýta það hráefni sem náttúran í firðinum hefur uppá að bjóða. Í forrétt var karrý-kókossúpa með rækjum, í millirétt var lundi, í aðalrétt var steiktur þorskur og heimagerður fjóluís og súkkulaðikaka í eftirrétt.

Eftir matinn fórum við út og gengum um fjöruna fyrir neðan bæinn og tókum aðeins myndir, en skilyrði til myndatöku voru afar slæm þar sem það var þoka og frekar dimmt.

Daginn eftir beið okkar dásemdar morgunmatur. Hvort okkar fékk einn disk hlaðinn ávöxtum, súrmjólk með múslí og brauði og osti. Rabbarbarasaft fylgdi með. Að morgunmat loknum fórum við á Hofsós og syntum aðeins í nýju sundlauginni í sól og rjómablíðu. Versluðum okkur brauð og álegg í nesti og ókum af stað til Siglufjarðar. Stoppuðum reyndar fljótlega niðri við sjó og borðuðum smá nesti.

Næsta stopp var svo í Haganesvík í Fljótum en þangað hefur mig lengi langað að koma en alltaf keyrt framhjá þegar ég hef verið á þessum slóðum. Mér finnst alveg ofboðslega fallegt í Haganesvík og þar var mikið fuglalíf, þá aðallega kríuvarp. Við tókum nokkrar myndir og héldum svo áfram til Siglufjarðar.

Þar ætluðum við að fá okkur gott kaffi á nýjum veitingastað bæjarins, Hannes Boy, sem hlýtur að vera nefndur eftir einhverjum gömlum heimamanni. En þetta er víst bara matsölustaður, þeir eru ekki með kaffi og kökur þar. Í næsta húsi var reyndar hægt að fá vöfflur og kaffi en ekki te... Við keyptum okkur nú samt vöfflur því við vorum svo svöng. Svo tókum við góðan göngutúr um bæinn í góða veðrinu. Ég sá mikinn mun frá því fyrir ca. 10 árum hvað bærinn er orðinn miklu skemmtilegri. Búið að gera mörg gömul hús upp og allt er í betra standi einhvern veginn fannst mér. Á Siglufirði er eiginlega nauðsynlegt að kíkja á Síldarminjasafnið og það gerðum við. Þetta er afskaplega merk heimild um síldarævintýra-tímabilið í sögu þjóðarinnar og gaman að skoða safnið.

Þegar hér var komið sögu ætluðum við að fara aftur á nýja veitingastaðinn og fá okkur að borða - en viti menn - þá var hætt að selja hádegismat og ekki hægt að kaupa mat aftur fyrr en kl. 18. Við urðum hálf hvumsa við þetta en lausnin varð sú að borða nesti á bryggjunni og var það ekki amalegt. Að því loknu ætluðum við í smá bíltúr en enduðum á að keyra upp að skíðasvæðinu.

Þá var hægt um vik að halda áfram upp Siglufjarðarskarð og það gerðum við. Það sem þessi vegalagning og margar fleiri hafa verið mikið þrekvirki á sínum tíma. Við ókum í hægðum okkar yfir skarðið og stoppuðum nokkrum sinnum til að taka myndir og njóta náttúrufegurðarinnar. Við mættum engum bílum á leiðinni en einum hjólreiðamanni hins vegar. Meiri harkan í þessum hjólreiðamönnum! Þegar hér var komið sögu var degi farið að halla og við lögðum í hann heim.

Þetta var bara virkilega góð ferð og ekki spillti veðrið fyrir :)
Bæti við myndum síðar.

mánudagur, 19. júlí 2010

Í sól og sumaryl



Sunny day, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já kettirnir bókstaflega elska að sóla sig :) Og blómin fylgja með svona til gamans.

sunnudagur, 18. júlí 2010

Húsið málað

Ég sé að það hefði verið alveg sama hve margar litaprufur ég hefði sett á húsið, útkoman hefði örugglega alltaf verið smá sjokk. Það er að segja, þegar maður setur pínu litla prufu á svona einn þúsundasta af húsinu, þá er alveg ljóst að það segir manni ekki mikið um það hvernig endanleg útkoma verður.

Hvað um það, á endanum var valinn litur sem er hlýlegur og ætti að koma vel út, bæði við grænt gras og hvítan snjó. Eða það vona ég að minnsta kosti ;) Og ég fékk auðvitað vægt áfall þegar ég sá litinn kominn á heilt hús... Það er samt ekkert nýtt þegar ég á í hlut. Þetta gerist í hvert einasta skipti sem við málum eitthvað! En ég sé það samt að ég mun koma til að kunna ágætlega við þennan lit. Það á náttúrulega eftir að fara aðra umferð og þá dökknar liturinn + að það á eftir að mála í kringum gluggana og þá verður aðeins meiri kontrast milli þessa gulbrúna og hvíta.

En sem sagt, hér koma nokkrar myndir til gamans. Það er hægt að stækka myndirnar með því að smella á þær. Já og svo gleymdi ég alveg að segja frá því að strákarnir hafa að sjálfsögðu báðir tekið þátt í málningarvinnunni - og Kiddi kom líka í gær og í dag og hjálpar til. Margar hendur vinna létt verk!




miðvikudagur, 14. júlí 2010

Reyni að standa mig betur...

Hér kemur svokallað punktablogg:
  • Það styttist í 2ja vikna sumarfríið mitt - sem er jákvætt :O)
  • Það er mikið að gera í vinnunni þessa dagana - sem er bara gaman
  • Við erum að fara að mála húsið - eða Valur og synir eru að fara að mála húsið
  • Liturinn er nánast ákveðinn...
  • Það er sól í augnablikinu
  • Ég fór í klippingu og litun í dag og er voða sæt, hehe ;)
  • Ég er að fara að borða Holtselsís, nammi namm
  • Við Valur og Ísak förum til Toronto þann 20. ágúst og verðum í viku
  • Ég hef tekið nokkuð af myndum að undanförnu og fer nú bara svolítið fram
  • Kettirnir hafa dregið stórlega í land með að merkja húsið - húsfreyjunni til mikillar gleði
  • Það er búið að vera óskaplega gaman að hafa ættingjana alla í heimsókn
  • Og nú man ég ekki eftir fleiru í bili

mánudagur, 12. júlí 2010

Lifandis ósköp lélegur bloggari sem ég er...

Það verður víst ekki annað sagt. Spurning hvort það tekur því að halda úti svona síðu þegar maður stendur engan veginn undir nafni sem bloggari. Það er bara eitthvað svo mikið um að vera þessa dagana og lítill tími aflögu - eða það er að minnsta kosti sú afsökun sem ég kem með núna. Nóg að gera í vinnunni og svo hafa jú verið gestir hér heima síðustu vikur, sem er bara dásamlegt. Á morgun fara Anna og fjölskylda og þá verður víst fátt um fína gestadrætti á næstunni. Tja ekki nema einhverjir stingi óvænt inn nefinu, það væri nú gaman.

Annars finnst mér lífið eitthvað svo skrýtið þessa dagana. Eða öllu heldur er ég eitthvað svo skrýtin - án þess þó að ég geti sett fingurinn á það hvað það er. Og nú veit ég ekki hvor það er norska að segja þetta með fingurinn... eða enska. Hljómar að minnsta kosti afar ó-íslenskulega. En það er nú svo fyndið að eftir bara tvo daga með norskum gestum er ég farin að hugsa á norsku. Svona er þetta ríkt í manni ennþá, eftir 15 ára fjarveru frá Noregi. Undarlegur þessi heili minn.

Í gær fórum við með Önnu og Kjell-Einari í Mývatnssveit. Ætlunin var að fara að Þeistareykjum fyrst en við villtumst og enduðum í Gjástykki. Fórum þar í ágætis gönguferð í hrauninu og nutum náttúrunnar. Svo fórum við reyndar í Mývatnssveitina og fengum okkur að borða í Dimmuborgum. Þá var komin úrhellisrigning svo ekkert varð úr göngu uppá Hverfjall eins og áætlað hafði verið.

Í dag fórum við í bíltúr fram í fjörð. Skoðuðum Smámunasafnið og Saurbæjarkirkju og fórum svo í Holtssel og fengum okkur ís. Valur eldaði svo tandoori kjúkling i kvöldmatinn.
Ég gat sem sagt ekki sofnað í kvöld, eins og svo oft áður, og sit þess vegna hér í tölvu inni í stofu. Þetta er nú meiri vitleysan að eiga svona erfitt með að sofa þegar maður á og þarf að sofa. Einhverjir erfiðleikar hjá frúnni með að slaka á, það er nokkuð ljóst.

En já, ætli ég segi þetta ekki gott í bili og hlífi mínum fáu lesendum við birtingu myndar í þetta sinn. Ef einhver hefur þeim mun meiri áhuga er hægt að skoða myndir í "slideshow" hér

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Hestamynd fyrir mömmu



For my mom, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já eða þannig ... Ætli henni finnist nú mikið til þessara hesta koma. Ekki sérlega reisulegir á myndinni að minnsta kosti. En þeir voru óskaplega fallegir í kvöldbirtunni þarna á bökkum Eyjafjarðarár í gærkvöldi og ég stóðst ekki að taka mynd af þeim.

Palli bróðir stoppaði hér á landi í eina viku og var gaman að hafa hann, þó svo auðvitað hafi hann mest verið á flakki út um hvippinn og hvappinn að heimsækja vini og kunningja. (Vá, þetta var löng setning). Svo eru Anna systir og hennar fjölskylda komin til landsins og eru væntanleg til okkar á föstudagskvöldið. Það verður gaman að hitta þau líka. Já og Hrefna var jú hér í tvær vikur í tengslum við stúdentsveisluna hans Andra, svo við erum bara að hitta óvenju mikið af ættingjum þessa dagana. Sem er virkilega notalegt.

Það styttist líka í sumarfrí hjá okkur Val. Hann vinnur síðast föstudaginn 16. júlí og fer svo í 4ra vikna frí, en ég vinn þá helgi og fer svo í 2ja vikna frí. Þetta er aðeins öðruvísi þegar maður er með fyrirtæki sjálfur, í stað þess að vinna hjá öðrum. Og júlí og ágúst eru annasamir mánuðir í búðinni, svo ekki dugar að taka sér margra vikna frí akkúrat á þeim tíma.

Nú er búið að rigna alveg gríðarlega hjá okkur hér Norðanlands í heila viku, eftir fádæma veðurblíðu allan júnímánuð. Fólki finnst vera nóg komið en áfram er spáð rigningu, enda ráðum við mannfólkið víst litlu um veður og vinda. Ég er í fríi í dag og ætlaði aðallega að nota tímann innanhúss, svo ég er svo sem ekkert ógurlega ósátt við rigninguna í dag. En ég er eitthvað að drepast í maganum og svaf lítið í nótt þess vegna, sem aftur gerir það að verkum að ég nenni litlu af þessum inniverkum sem ég ætlaði að vinna. Er bara löt í dag. Þarf samt nauðsynlega að skreppa í búð og skila buxum sem ég keypti í júní og ætlaði alltaf að skila. Verð að drífa mig áður en það byrjar útsala í búðinni. Það er nú meira hvað þessar útsölur eru farnar að byrja snemma, einu sinni var það ekki fyrr en eftir verslunarmannahelgi.

Og já já, þetta var nú bara svona tilgangslaust bullublogg - en blogg samt ;)

fimmtudagur, 1. júlí 2010

Sumar við sjóinn



A different perspective, originally uploaded by Guðný Pálína.
Enn og aftur liggur leiðin á Gáseyri þar sem ég tók þessa mynd. Lá á maganum í sandinum og reyndi að ná nýju sjónarhorni á umhverfið. Ég fór út á Gáseyri með myndavélina til að reyna að slappa aðeins af og anda að mér sjávarloftinu. Það gekk bærilega, aðeins kríurnar sem trufluðu mig. Þær héldu víst að ég væri þarna í öðrum og verri erindagjörðum og töldu sig þurfa að verja afkvæmin fyrir þessari hættulegu manneskju. Engin þeirra goggaði nú samt í höfuðið á mér.

Ekki löngu síðar var reyndar friðurinn úti en þá hringdi Andri og bað mig að fara upp í háskóla með einkunnablað sem átti að vera búið að skila. Þannig að ég brunaði af stað í bæinn aftur. Skilaði blaðinu og nokkrum dögum síðar fékk hann skilaboð um að hann væri kominn með skólavist við Auðlindadeild HA. Það er nú reyndar spurning hvort hann hefur áhuga á að læra eitthvað þar - er alveg óráðinn í því hvað hann langar að læra.

Lengra verður víst bloggið ekki að sinni. Ég þarf að skutla Ísaki til vinar síns.