miðvikudagur, 20. janúar 2010

Séð frá Fálkafelli í síðustu viku


Magic morning light, originally uploaded by Guðný Pálína :).

Tja, eða á þeim slóðum að minnsta kosti. Held að ég hafi nú verið að nálgast bílinn aftur þegar þessi mynd er tekin. Það er helst þegar maður nálgast öskuhaugana að fulgarnir láta sjá sig, enda nóg af þeim þar. Eiginlega algjör synd að þetta flotta útivistarsvæði skuli vera undirlagt af öskuhaugalykt og fjúkandi rusli. Já, og bílum og öskrandi snjósleðum, sérstaklega um helgar. Það er af sem áður var þegar syngjandi skátar voru nánast þeir einu sem röltu um á þessu svæði. Ástandið við Fálkafell var þannig núna að það var þjóðvegur upp að skálanum (jeppaför) og brekkan bak við skálann var undirlögð í snjósleðaförum.

Ég á frídag í dag og hafði eiginlega hugsað mér að fara út að mynda en veðrið bauð ekki uppá það. Fór nú samt með myndavélina í bílinn og ók út að Krossanesi þar sem ég smellti af nokkrum myndum í brjáluðu roki. Er eiginlega alveg orðin háð því að komast út með myndavélina. Þetta er mitt jóga held ég, því ég næ svo vel að gleyma stað og stund og slappa vel af.

Önnur afrek dagsins eru ekki mörg. Ég vaknaði á löggiltum tíma og sendi Ísak af stað í skólann en fór svo að þrífa baðherbergið þegar ég var búin að borða morgunmatinn. Átti nefnilega von á konu sem var að koma með filmur í baðherbergisgluggann. Það varð nú reyndar smá bið eftir henni en um leið og hún var komin inn og byrjuð að vinna þá stakk ég af. Fór í bankann, þar sem ég ætlaði nú reyndar ekki að komast inn. Dyrnar vildu ekki opnast fyrir mér og verð ég að viðurkenna að mér leið eins og hálfvita þarna fyrir utan. Endaði á því að banka á hurðina og þá hlupu þær til og opnuðu. Það var eitthvað rugl á þessu með sjálfvirku opnunina. Svo skrapp ég til Ástu í Purity Herbs og keypti hjá henni krem og skaust svo aðeins í vinnuna. Þar keypti ég meðal annars glersköfu sem ég ætla að nota til að skafa innanvert glerið í sturtunni. Er nú reyndar ekki komin svo langt ennþá... En já, ég ætlaði líka að þrífa aðeins í stofunni, sem lítur ekki sérlega vel út eftir prófatörn Andra, en er heldur ekki komin svo langt. Það er ótrúlegt hvað dagurinn getur liðið og maður gerir bara ekki neitt... Hah, nú man ég það, ég er búin að þvo tvær þvottavélar, sko mig! Og ég talaði við Hrefnu á Skype til að athuga hvernig henni gekk í verklega prófinu. Sem henni gekk mjög vel í. En nú ætla ég að reyna að hringja í mömmu, það er orðið eitthvað svo langt síðan ég heyrði í henni.

Engin ummæli: