föstudagur, 22. janúar 2010

Beðið eftir Fjölsmiðjufólki

Já, fjörið heldur áfram. Nú ætlar Valur að innrétta "útigeymslu" í kjallaranum, sem er hið besta mál þannig lagað séð. Fjörið tengist því að það þarf að tæma geymsluna og er nú sitt af hverju þar inni. Eða var. Sumt tóku þeir Ísak um daginn og settu inni í bílskúr og meiningin er að Fjölsmiðjan komi og sæki það dót. Ég var búin að hringja og biðja þau að koma um eittleytið en þar sem það er ansi teygjanlegt, þá er ég búin að bíða frá því tíu mínútur fyrir eitt, þar til núna, tíu mínútur yfir eitt. Þurfti nú reyndar að byrja á því að leita dauðaleit að skrúfum í kojuna og fann þær fyrir rest. Þær voru ekki í kassanum með hinum skrúfunum og þá er voðinn vís þegar hlutirnir eru ekki á vísum stað. Við vorum svo óskaplega dugleg einu sinni við að setja allar svona skrúfur í poka og merkja. En já, ætli liðið sé ekki bara komið núna? Neibb, þetta var bara hávaðinn sem heyrðist þegar gömlu skíðin hennar Hrefnu duttu um koll þarna úti við bílskúrinn.
Annars er bara gott eitt um það að segja að þurfa að tæma svona geymslur, þvílíkt ógrynni af dóti sem maður safnar að sér og engin þörf er á að eiga. Ég á samt í mestum vandræðum með gömul leikföng, finnst eitthvað svo erfitt að láta þau frá mér. Ef maður fengi nú barnabörn og svona... Nú, svo eru meira að segja gamlar dúkkur úti í geymslu frá því við Anna vorum litlar. Já og eldgömul skólataska með bókum í, sennilega barnaskólabókum - og ekki getur maður nú hent svoleiðis dýrgripum. Þá þarf að finna pláss hér innandyra og ætli líklegast til árangurs í þeim efnum sé ekki að raða betur í geymsluna niðri og fá fleiri og betri hillur þar inn. Taka gamla smíðabekkinn og setja hillur þar. Jafnvel rúmfatageymsluna líka. Já, við búum svo vel að eiga hér tvær rúmfatageymslur. Ein er sem stendur í útigeymslunni og gott ef Anna systir notaði hana ekki í sínu herbergi. Hin er niðri í innigeymslu og er enn eldri held ég.

En æi, ég er hætt þessu rausi. Fer og hringi í Fjölsmiðjuna...

Engin ummæli: