sunnudagur, 24. janúar 2010

Geymslu-rapport

Hér kemur skýrsla yfir stöðu mála í útigeymslunni sem brátt mun breytast í helli Hals. Hann sjálfur fór út um leið og birti í morgun og hélt áfram við að bera út dót. Ég hins vegar er búin að vera hálf lasin síðan gær og gerði ekki neitt. Tók hann góða rispu og svo þegar Ísak var vaknaður og orðinn nægilega vel smurður til að hreyfa sig héldu þeir feðgar áfram verkinu. Nú er svo komið að ekkert er eftir þarna inni nema gamla fótknúna saumavélin mín.

Á unglingsaldri fékk ég til afnota handsnúna saumavél sem amma hafði átt og saumaði mörg dúkku- og barbídúkkufötin á þá vél. Svo gerðist það einhvern tímann í kringum tvítugt að ég fékk áhuga á að sauma föt á sjálfa mig en þá reið mikið saumaæði yfir bæinn. Mamma átti á þeim tíma Rafha saumvavél með mótor. Ekki man ég af hverju ég fékk hana ekki bara lánaða, en að minnsta kosti fór það þannig að mamma keypti þessa fínu fótknúnu vél á markaði Hjálpræðishersins (á kr. 1.500 á gamla genginu minnir mig) og gaf mér. Það tók mig smá tíma að komast uppá lagið við að stíga vélina með réttum hrynjanda en þegar ég hafði náð tökum á því "töfraði ég fram" hinar ýmsustu flíkur. Já alveg rétt, ég fór líka á saumanámskeið. Sem var haldið í Vouge, en þá var sú verslun örugglega þar sem Siemens búðin er núna. Og mikið sem mér fannst nú gaman að sauma. En þolinmæðin var ekki mikil, þannig að ekki voru nú erfiðustu sniðin valin, og fátt vissi ég verra en þurfa að rekja upp. Þegar við Valur vorum farin að búa, haustið 1987, gaf hann mér svo nýja saumavél í afmælisgjöf ef ég man rétt. Það var Singer, klassísk vél, sem ég á enn. Þá fór ég á annað saumanámskeið og lærði að sauma flóknari flíkur, s.s. fóðraða jakka ofl. Næstu árin saumaði ég aðallega jólaföt á krakkana og einstöku öskudagsbúning en svo hætti ég nánast alveg að sauma. Fór þó ein tvö bútasaumsnámskeið þegar við vorum flutt aftur til Íslands en undanfarin ár hafa það einkum verið gardínur og viðgerðir sem vélin hefur annast. Aðallega hefur hún samt staðið inni í skáp.

Hvað gömlu vélina áhrærir, þá get ég ekki hugsað mér að farga henni. Held raunar að hún sé alveg nothæf ennþá, þó hún þurfi kannski smurningu eftir nærri 25 ára hlé. Þannig að nú þarf bara að finna pláss fyrir hana hér innandyra...

Engin ummæli: