mánudagur, 18. janúar 2010

Ekki beint sú duglegasta að blogga þessa dagana

Engin sérstök ástæða fyrir því nema almenn leti og "hef ekki frá neinu að segja" vandamálið. Ekki að það hafi svo sem alltaf háð mér á þessum vettvangi, maður lætur nú venjulega bara vaða þó ekkert sé frásagnarefnið. Akkúrat núna eru helstu fréttirnar þær að ég er að drepast úr höfuðverk. Kenni þar um stífum vöðvum í hálsi og hnakka eftir prjónaskap á föstudagskvöldið. Þá fór ég til vinkonu minnar með prjónana og við sátum og spjölluðum við eldhúsborðið fram eftir kvöldi. Einungis var gert hlé á prjónaskapnum til að klóra hundinum, henni Emmu, annað slagið ofan á hryggnum. Það finnst henni mikil lúxusmeðferð og er farin að rétta að mér afturhlutann þegar ég kem, svo að ég klóri nú örugglega á réttum stað, rétt þar sem rófan byrjar. Eru hundar annars ekki með rófu? Eru þeir með skott? Ja, nú er mér heldur betur farið að förlast. En það er nú svo sem ekkert nýtt... Minnið er ekki alltaf uppá sitt besta, enda er einn af fylgikvillum vefjagigtarinnar svokölluð "heilaþoka" og þegar hún er yfir manni er ekki von á góðu. Þá man ég oft ekki einföldustu orð. Um daginn var ég að vinna í Excel og gat ekki munað einföldustu atriði - en það gekk nú reyndar fljótt yfir með aðstoð kaffibolla og súkkulaðis.
En já, svo ég haldi nú áfram að skrifa um ekki neitt, þá er ég sem sagt að fara að vinna á eftir. Er seinni partinn í dag. Áður en ég fer í vinnuna þyrfti ég að kíkja í Ellingsen. Við Valur fórum nefnilega þangað á útsölu á laugardaginn, að undirlagi hans, því honum datt í hug að þar gæti ég fengið hlýja skó. Það var smá vandamál í kuldanum um daginn að mér var alltaf svo hræðilega kalt á fótunum þegar við vorum að taka myndir. Þannig að ég fann skó - en þegar ég mátaði þá hér heima fannst mér þeir kannski helst til litlir. Að minnsta kosti þegar ég var komin í tvenna sokka.
Svo þyrfti ég líka að brjóta saman þvott og laga aðeins til í þvottahúsinu en ég er ekki viss um að ég nenni því akkúrat núna. Er samt búin að græja eldhúsið þannig að sá partur er búinn. Jæja, ég er hætt þessu bulli í bili, hafið það gott öll sömul :-)

Engin ummæli: