miðvikudagur, 8. október 2008

Einhver slappleiki að hrjá frúna í dag

Er það ekki dæmigert, ég er í fríi í dag en næ ekki að njóta þess því ég er drulluslöpp einhverra hluta vegna. Veit ekki alveg hvað er að hrjá mig. Ekki er það sykurátið því ég er búin að standa mig eins og hetja í nýja mataræðinu. Ég fór hins vegar ekki í sund í morgun eins og ég er vön, heldur á foreldrafund í Lundarskóla, og ég veit fátt verra en byrja daginn á því að sitja eins og klessa í klukkustund þegar ég er nývöknuð. Ég var strax orðin ógurlega þreytt eftir ca. hálftíma. Eftir fundinn gerði ég tilraun til að fara í KA heimilið og sækja jakka sem fylgdi fótbolta-æfingagjöldunum í sumar og Ísak átti alltaf eftir að fá. Ég hitti á framkvæmdastjóra félagsins og bar upp erindið og við fórum niður í kjallara þar sem hann leitaði í dyrum og dyngjum að KA-jökkum en fann enga. Þannig að þetta varð fýluferð hjá mér. Heimkomin ætlaði ég að reyna að detta í eitthvað dugnaðarstuð en var bara ógurlega þreytt og óupplögð eitthvað og endaði uppi í rúmi fyrir rest. Lá nú ekki lengi því ég þurfti að skreppa í vinnuna og sækja prentarann okkar sem gaf upp öndina í morgun. Fór með hann í Tölvulistann þar sem hann var keyptur og hélt að þeir gætu nú kannski bara prófað að setja hann í samband og séð hvort hann væri að virka hjá þeim. En þá hitti ég á einhvern sem ekkert kunni og engu réði og þurfti að bíða eftir að tæknimaðurinn þeirra kæmi úr mat. Þegar þarna var komið sögu var klukkan rúmlega tólf og ég ákvað að rölta um í miðbænum á meðan ég biði. Um hálftvöleytið fór ég aftur í Tölvulistann en þá var tæknimaðurinn enn í mat. Kannski ekki nema von að það sé 4ra daga bið eftir viðgerð ef matar- og kaffitímarnir eru þetta langir... Snilldin er sem sagt sú að það er hægt að fá flýtimeðferð en hún kostar tæpar 5 þús. kr. Svo kostar það kannski annan fimmþúsundkall að láta kíkja á gripinn og þá er kominn 10 þús kall, bara í að sjá hvort hann sé ónýtur eða ekki. Þetta endaði svo með því að Sunna sótti prentarann og ætlaði Kiddi maðurinn hennar að athuga hvort hann gæti tjónkað eitthvað við hann. En nú er ég hætt þessu væli.

Engin ummæli: