fimmtudagur, 30. október 2008

Brr... segir Guðný kuldaskræfa

Það verður að segjast eins og er að það er ekki alveg nógu hlýtt í nýju búðinni okkar. Nokkuð sem skiptir ekki máli fyrir viðskiptavinina sem eru yfirleitt í yfirhöfn þegar kalt er úti - en skiptir máli fyrir starfsfólkið... Það er nefnilega engin upphitun í sjálfri búðinni, okkur var sagt að nægur hiti kæmi frá ljósunum og svo utan af ganginum en það er bara ekki rétt. Þetta var í góðu lagi í sumar og haust en um leið og koma einhverjar mínusgráður þá verður of kalt hérna inni. Þetta er bara spurning um 2 gráður til eða frá - en það munar ótrúlega mikið um þær. Þannig að þá er lausinin að klæða sig vel, vera í ullarflíkum, fá sér heitt að drekka, hreyfa sig og kveikja á hitablástursofni annað slagið.

Í dag ákvað ég að taka með mér orkuhristing í nesti því ég hafði ekki nægan tíma í morgun til að gera salat. Þessi orkushristingur samanstendur af frosnum bláberjum og hindberjum, hrísmjólk, hörfræolíu og mysupróteini. Frosnu berin og mjólkin sjá til þess að hann verður kaldur. Til þess að kóróna þetta geymdi ég hristinginn í stálhitabrúsa (sem heldur köldu)og þegar ég fékk mér svo að borða í hádeginu var hann ennþá ískaldur og mér varð svona líka kalt í kjölfarið. Þrátt fyrir að núna sé tveimur gráðum hlýrra í búðinni en fyrst í morgun er mér alveg ískalt. Þannig að það er best að fara að hreyfa sig, pússa glugga, raða í hillur eða eitthvað.

sunnudagur, 26. október 2008

Vetrarfrí í Lundarskóla á morgun

Sem þýðir að ég þarf ekki að vakna klukkan hálfátta eins og venjulega til að koma Ísaki á fætur. Þá er það stóra spurningin: Skyldi ég engu að síður nenna að vakna snemma og fara í sund? Morgunstund gefur gull í mund eins og allir vita - en á hinn bóginn finnst mér ógurlega gott að sofa, sérstaklega þegar daginn er farið að stytta. Og nú kemur Hrefna, alveg undrandi á því að ég sé að blogga aftur í dag. En þó ekki, hún veit að þetta er mitt týpiska munstur, að blogga ekkert í lengri tíma en síðan jafnvel tvisvar sama daginn. Og nú er ég farin að hengja upp þvott.

Ungt og leikur sér


Ungt og leikur sér, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já Hrefna litla klæddi sig líka í snjófatnað og fór út að leika við bróður sinn. Meðal annars skiptust þau á að hylja hvort annað snjó og eins og sjá má þá er það Ísak sem var "grafinn" niður í þetta skiptið. Svo komu komu þau inn og allt fór á flot í forstofunni, skrýtið!

Meira endalausa magnið af dóti

sem maður sankar að sér í gegnum árin. Það er alveg sama hvað ég reyni að grynnka á þessu, mér finnst þetta aldrei minnka. Í dag ákvað ég að ráðast til atlögu við kassa sem geymir fullt af gömlum myndum í römmum - en vandamálið er bara að ég veit veit ekki hvað ég á að gera við þetta. Rammarnir velflestir komnir á tíma en myndirnar hafa veitt manni ómælda ánægju og ekki stendur til að henda þeim. Það endaði með því að ég tók þær úr römmunum og ætla að henda glerinu en bíða með að taka frekari ákvörðun um myndirnar.

Annars er hér allt á kafi í snjó í dag. Ísak er farinn út í garð með skóflu og ætlar að gera snjóhús, gaman að því.

föstudagur, 24. október 2008

Enn á lífi...

en hef bara ekki verið í neinu bloggstuði undanfarið. Hrefna segir að ég þurfi náttúrulega ekkert að blogga þar sem hún er hér heima... En hér kemur sem sagt bloggtilraun frá frú andlausri. Sem hefur reyndar ekki verið neitt andlaus undanfarið, tja nema í dag og í gær. Í fyrradag var ég rosa dugleg og kláraði allt nema eitt atriði á "þarf að gera" listanum mínum. Enda var ég á þeytingi allan daginn og hef sennilega farið aðeins fram úr sjálfri mér. Þegar við bættist að ég hef sofið frekar illa undarfarnar nætur þá var ég afar drusluleg og þreytt í gær. Fór nú samt í vinnuna og afrekaði meira að segja að heimsækja vinkonu mína seinnipartinn en það er nokkuð sem ég hef ætlað að gera í margar vikur. Ótrúlegt hvað maður er stundum latur að koma sér milli húsa í ekki stærri bæ en Akureyri. Vildi óska að allar vinkonur mínar byggju í 2ja kílómetra radíus frá mér ;-) Í morgun leyfði ég mér þann munað að fara aftur að sofa eftir að Ísak var lagður af stað í skólann og náði að steinsofna svona líka fast. Dreymdi tómt rugl og var eins og vörubíll hefði ekið yfir mig þegar ég vaknaði aftur. Líður reyndar ennþá þannig en verð nú að reyna að taka mig eitthvað saman í andlitinu því ég er að fara í vinnuna eftir 45 mín. Úti er ofboðslega fallegt veður, hvítur snjór yfir öllu og einstaka snjókorn liðast varlega til jarðar. Sólin skín í gegnum skýjahulu og sér til þess að skuggar trjánna teygja sig eftir snjófölinni. Læt ég þessari væmnu veðurfarslýsingu hér með lokið og fer að tygja mig í vinnuna.

sunnudagur, 19. október 2008

Ísak að borða ís :-)

Ég er að fara í gegnum myndasafnið mitt í tölvunni og henda myndum út sem eru misheppnaðar. Rakst á þessa skemmtilegu mynd af Ísaki sem tekin var í Köben í sumar.

Einhver bloggleti að hrjá mig eins og svo oft áður

En að öðru leyti er ég bara hress ;-) Ég er búin að fara í sund í morgun, í ofninum er brauð að bakast, kettirnir liggja hér við hliðina á mér, Andri og kærastan í næsta herbergi, Ísak er hjá Patreki vini sínum og Hrefna og Valur fóru í ræktina. Hvað vill maður hafa það betra? Ég er að herða mig upp í að fara að hreinsa innigarðinn okkar og setja ný fræ í hann. Reyndar ekki mikið vandaverk, stundum bara erfitt að koma sér að verki. Það þarf að henda plöntunum sem í honum eru, þvo hann með klórvatni og setja ný fræhylki, það er nú allt og sumt. Þannig að ætli sé ekki best að hætta þessu blaðri og bretta uppá ermarnar...

fimmtudagur, 16. október 2008

Allt í drasli

Um daginn þegar ég gat varla gengið um geymsluna niðri fyrir dóti, fékk ég þá snilldarhugmynd að fara í gegnum gömul barnaleikföng og henda því sem er ónýtt en setja restina í gegnsæja kassa þannig að hægt væri að sjá hvert innihaldið væri. Svo ég fór í Rúmfó og keypti 6 plastkassa sem eru búnir að standa í forstofunni í nokkra daga núna. Í morgun lét ég svo loks verða af því að byrja á verkinu. Bar marga litla leikfangakassa og einn stóran upp í stofu og byrjaði að sortera. Andinn var samt einhvern veginn ekki yfir mér og mér sóttist verkið seint. Nú þarf ég að fara að taka mig til fyrir vinnuna en stofan er enn full af leikföngum. Ég er líka að vinna í kvöld því það er opið á Glerártorgi til kl. 21 og á morgun og svo er konuklúbbur eftir vinnu, þannig að það er spurning hvort þessi leikfanga- og kassahrúga verði í stofunni til laugardags. Þetta sem sést á myndinni er bara lítill hluti af öllu draslinu...

sunnudagur, 12. október 2008

Þá er ég búin að fá úr því skorið

að mér finnast bókhveitipönnukökur ekki góðar. Mig langaði að prófa að baka svoleiðis því þær eru glútenlausar og ég er jú í 2ja vikna glútenlausu prógrammi. En sem sagt, þetta urðu hálfgerð vonbrigði. Aðallega þá eru þær ótrúlega þurrar á bragðið. Það kom mér reyndar á óvart um daginn hvað glútenlausa brauðið var bragðgott. Reyndar þarf að geyma það í frysti og taka bara út það magn sem maður ætlar að borða því það þornar annars fljótt. Valur var reyndar búinn að vera úti að klippa tré og runna í ca. 3 klt. og hafði því góða lyst á pönnukökunum með sultu og rjóma. Þannig að það var nú ágætt. Líka góð tilbreyting að ég geri eitthvað matarkyns fyrir hann svona einu sinni ;-)

laugardagur, 11. október 2008

Sushi og dömulegir dekurdagar

Það er bara nóg að gera þessa helgina, eins gott að maður er í fríi ;-) Í gærkvöldi hittist starfsfólk og makar hjá Læknastofum Akureyrar og gerði saman sushi. Ég verð þó að viðurkenna að ég horfði bara á hina gera alla handavinnuna ... en gæddi mér hins vegar vel á afurðunum. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrirfram hvernig sushi er búið til og það var gaman að kynnast því. Svo var þetta bara alveg sérlega vel heppnað kvöld og góður félagsskapur.

Í morgun fórum við Sunna svo í dömulegan brunch á Bautanum ásamt fleiri Akureyrardömum. Þetta var einn dagskrárliður dömulegra dekurdaga sem haldnir eru hér í bænum um helgina. Dagskráin er mjög fjölbreytt og má t.d. nefna að á morgun verður bingó á Friðriki V. sem Júlli Júl frá Dalvík stjórnar. Ég var nú samt svo mikill klaufi að mér tókst að gleyma einu dagskráratriði sem ég hafði áhuga að fara á. Það var fyrirlestur hjá Davíð Kristinssyni þar sem hann fjallaði um það hvernig hægt er að minnka allt þetta kolvetnaát.

Já, svo erum við í Pottum og prikum með 20% afslátt af fallegum servíettum sem upplagðar eru í dömuboð vetrarins.


miðvikudagur, 8. október 2008

Allt er gott sem endar vel

Kiddi náði sem sagt að gera við prentarann. Það þurfti að henda út gömlu stillingunum fyrir hann og sækja nýjan driver (að því er mér skilst). Þarna sparaði hann okkur þónokkra þúsundkallana, ekki í fyrsta skipti.

Ef einhver ykkar les matarbloggið hans Ragnars Freys þá langaði mig bara að geta þess að bókin sem hann mælir með í síðasta bloggi "Eldað í hægum takti" fæst í Pottum og prikum ;-)

Einhver slappleiki að hrjá frúna í dag

Er það ekki dæmigert, ég er í fríi í dag en næ ekki að njóta þess því ég er drulluslöpp einhverra hluta vegna. Veit ekki alveg hvað er að hrjá mig. Ekki er það sykurátið því ég er búin að standa mig eins og hetja í nýja mataræðinu. Ég fór hins vegar ekki í sund í morgun eins og ég er vön, heldur á foreldrafund í Lundarskóla, og ég veit fátt verra en byrja daginn á því að sitja eins og klessa í klukkustund þegar ég er nývöknuð. Ég var strax orðin ógurlega þreytt eftir ca. hálftíma. Eftir fundinn gerði ég tilraun til að fara í KA heimilið og sækja jakka sem fylgdi fótbolta-æfingagjöldunum í sumar og Ísak átti alltaf eftir að fá. Ég hitti á framkvæmdastjóra félagsins og bar upp erindið og við fórum niður í kjallara þar sem hann leitaði í dyrum og dyngjum að KA-jökkum en fann enga. Þannig að þetta varð fýluferð hjá mér. Heimkomin ætlaði ég að reyna að detta í eitthvað dugnaðarstuð en var bara ógurlega þreytt og óupplögð eitthvað og endaði uppi í rúmi fyrir rest. Lá nú ekki lengi því ég þurfti að skreppa í vinnuna og sækja prentarann okkar sem gaf upp öndina í morgun. Fór með hann í Tölvulistann þar sem hann var keyptur og hélt að þeir gætu nú kannski bara prófað að setja hann í samband og séð hvort hann væri að virka hjá þeim. En þá hitti ég á einhvern sem ekkert kunni og engu réði og þurfti að bíða eftir að tæknimaðurinn þeirra kæmi úr mat. Þegar þarna var komið sögu var klukkan rúmlega tólf og ég ákvað að rölta um í miðbænum á meðan ég biði. Um hálftvöleytið fór ég aftur í Tölvulistann en þá var tæknimaðurinn enn í mat. Kannski ekki nema von að það sé 4ra daga bið eftir viðgerð ef matar- og kaffitímarnir eru þetta langir... Snilldin er sem sagt sú að það er hægt að fá flýtimeðferð en hún kostar tæpar 5 þús. kr. Svo kostar það kannski annan fimmþúsundkall að láta kíkja á gripinn og þá er kominn 10 þús kall, bara í að sjá hvort hann sé ónýtur eða ekki. Þetta endaði svo með því að Sunna sótti prentarann og ætlaði Kiddi maðurinn hennar að athuga hvort hann gæti tjónkað eitthvað við hann. En nú er ég hætt þessu væli.

þriðjudagur, 7. október 2008

TIl gamans - eða leiðinda

datt mér í hug að birta hér smá brot úr frásögn sem ég skrifaði árið 1992 þegar við bjuggum við í Tromsö. Þá var Hrefna á 9 aldursári og Andri var 2ja ára. Þetta er verulega fært í stílinn hjá mér, best að segja það strax, svo lesendur skulu ekki taka þessar lýsingar af fjölskyldulífinu of alvarlega. En af því okkar börn eru orðin svo stór að við teljumst varla vera barnafjölskylda lengur er gaman að rifja upp hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þegar maður er með lítil börn. Og hefst svo lesningin:

----------------------------------------------------------------------------------------

"Að vinnudegi loknum ferðast eiginmaðurinn heim með almenningsvagni. Reyndar kemst hann varla inn úr dyrunum vegna skófatnaðar, úlpna, vettlinga og ullarsokka sem liggja á víð og dreif út um alla forstofuna. Hann ryður sér leið í gegnum þvöguna og rennur á lyktina og óhljóðin sem berast úr eldhúsinu. Þar stendur þreytuleg eiginkona hans við pottana meðan börnin tvö orga hvort í kapp við annað. Þau hafa nefnilega verið í skóla og hjá dagmömmu allan daginn og þurfa nú á athygli MÖMMU að halda.

Hann andvarpar en brettir síðan upp á ermarnar og hefst handa við uppþvottinn síðan í gær, svo hægt sé að borða af hreinum diskum í þetta skiptið. Kvöldverður er síðan framreiddur og fer fram svona nokkurn veginn stórslysalaust. Að vísu bítur stóra systir litla bróður í kinnina og hann klórar hana, full kanna með ávaxtasafa veltur um koll og eitt glas brotnar en þetta er nú ekki í frásögur færandi.

Eftir matinn eru allir svo örmagna að pabbi og mamma fá óáreitt að horfa á sjónvarpsfréttirnar, með afkvæmin hálf meðvitundarlaus í sófanum við hlið sér. Þetta er þó einungis stundarfriður því nú ákveður stóra systa að rétti tíminn sé runninn upp til að leika við litla bróa. Fara þau í feluleik og á sá stutti að leita, en þar sem talsverður munur er á aldri þeirra systkina finnur hann aldrei systur sína nema þegar henni þóknast og endar leikurinn með því að hann fer að hágráta yfir vanmætti sínum.

Eltingaleikur er næstur á dagskrá og þar stendur sá stutti betur að vígi. Berst leikurinn um allt hús og áður en yfir lýkur hafa öll þau húsgögn sem ekki eru skrúfuð föst við gólfið oltið um koll, allar gólfmottur eru komnar í einn haug og sængurfötin úr hjónarúminu hafa fundið leiðina niður á gólf. Að lokum dettur svo litli kútur í öllu draslinu og rekur upp þvílíkt öskur að ekki hafa önnur eins óhljóð heyrst í blokkinni fyrr en ÍSLENDINGARNIR fluttu inn. Næsti hálftíminn fer svo í að róa drenginn niður og koma honum í háttinn og eftir að hafa fengið lesið fyrir sig fer stelpan sömu leið.

Mesta draslið er týnt saman, tennur eru burstaðar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um lestur námsbóka og innfærslu í heimilisbókhaldið, lokkar rúmið þau til sín og sætur svefninn tekur yfirhöndina. Á morgun er nýr dagur!"

----------------------------------------------------------------------------------------

Jamm og jæja, þannig var nú það. Ég ætlaði sem sagt að fara að vinna í pappírum en fór einhverra hluta vegna að laga til í tölvunni í staðinn (dæmigert fyrir mig). Rakst á þessa örsögu og datt í hug að "leka henni á netið". Spurning hversu þakklátir mér aðrir fjölskyldumeðlimir verða... Þannig að ég ítreka enn og aftur að þetta er afskaplega ýkt frásögn af "eðlilegu" kvöldi í lífi okkar á þessum tíma.

sunnudagur, 5. október 2008

Mývatn



Mývatn, originally uploaded by Guðný Pálína.
Við Valur skruppum í hans ástkæru Mývatnssveit í dag og tókum nokkrar myndir. Það er að segja, hann tók fullt af myndum og prófaði sig áfram með mismunandi ljósop og hraða en ég tók fáar myndir og flestar bara á sjálfvirkum stillingum. Var einhvern veginn ekki í stuði fyrir ljósmyndatilraunir í dag. En þetta var samt góð ferð þó ótrúlega napurt væri úti. Við kíktum m.a. til vinafólks sem er að byggja sumarbústað við vatnið og skoðuðum Fuglasafn Sigurgeirs í Ytri-Neslöndum. Það var ótrúlega gaman að sjá alla fuglana þar og ekki spillti útsýnið út á vatnið fyrir. Tíminn leið hratt og við vorum ekki komin heim fyrr en um fimmleytið. Þá tók við eldamennska hjá bóndanum en ég hélt áfram að lesa bók um hráfæði sem ég keypti í gær. Er nú ekki á leiðinni í þetta mataræði held ég, bara gaman að kynna sér þessa hugmyndafræði. Finn hvað það gerir mér gott að borða meira af ávöxtum og grænmeti. Svo ætla ég að prófa að vera á glútenlausu fæði í 2 vikur og sjá hvað það gerir. Bakaði meira að segja glútenfrítt brauð í gær sem bragðaðist svona líka vel.

Hverfjall í Mývatnssveit

miðvikudagur, 1. október 2008

Kominn tími fyrir vetrar"gírinn"

Einn vinur okkar hefur þann sið að tala alltaf um gír þegar hann er að tala um útbúnað. Einhverra hluta vegna festist þessi enskusletta í höfðinu á mér og birtist nú hér. En sem sagt, með vetrarútbúnaði á ég ekki við vetrardekk á bílinn, heldur vetrarútbúnaðinn í svefnherberginu. Það er farið að vera svo kalt í svefnherberginu á kvöldin að ég er einn frostklumpur þegar ég er lögst upp í rúm. Þannig að nú er kominn tími til að taka fram vetrarsængina (sem er 2.20 á lengd), náttbuxurnar, ullarsokkana og hitapokann. Svo styttist í að nauðsynlegt verði að sækja dagsbirtulampann út í geymslu þannig að skammdegismyrkrið fari ekki eins illa í mig. Þetta er sem sagt vetrargírinn minn. Í framhjáhlaupi má þess geta að bíllinn er reyndar komin á vetrardekkin, ekki veitir af miðað við tíðafarið núna. Verst að vetrardekk hjálpa ekkert uppá tíðafarið í fjármálaheiminum...