Áðan rakst ég líka á forrit sem heitir Remember the milk og þar er hægt að búa til mismunandi lista (t.d. fyrir vinnu og heimili) og til að kóróna snilldina þá var hægt að samræma listana við Google dagatalið og þá er maður með þetta allt á sama stað. Mjög sniðugt fyrir fólk með "listamaníu". Ég fæ samt visst kikk út úr því að handskrifa listana - og strika yfir verkefni sem búið er að ljúka - svo það er spurning hvort ég muni nokkuð færa mig yfir í rafræna lista. Jamm og jæja, eitthvað verður maður að gera við tímann þegar maður er andvaka. Ég hefði reyndar getað fært bókhald en viss leti kom í veg fyrir það. Plús að ég var hrædd um að fara bara að gera vitleysur á þessum tíma sólarhrings.
Mamma og Ásgrímur ætla að koma norður og sjá um hús og ketti á meðan við verðum úti, eða amk. hluta af tímanum. Það er mjög gott því ég fæ alltaf samviskubit yfir því að skilja kettina eftir ein, þó svo að mjög svo hjálpfúsir nágrannar komi og gefi þeim að borða og spjalli aðeins við þá. Þessir síamskettir eru nefnilega svo félagslyndir og þurfa á miklu samneyti við okkur að halda og leggjast bara í þunglyndi þegar við erum ekki heima.
Við erum boðin í fimmtugsafmæli á morgun og ég fór á fullt að spá í það í hvaða fötum ég ætti nú að fara. Langaði að vera sumarleg og sæt og á engin þannig spariföt. Fann buxur í Benetton á 50% afslætti og einhverskonar síða jakkapeysu í Centro sem ég ætlaði að nota yfir hlýrabol. Var bara nokkuð ánægð með mig, alveg þar til það rifjaðist upp fyrir mér að veislan verður haldin í tjaldi og þar af leiðandi er flíspeysa líklega hentugri klæðnaður... Þarf sem sagt að hugsa þetta aðeins betur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli