sunnudagur, 13. júlí 2008

Einn kemur þá annar fer (eða öfugt)

Já Valur kom heim í gærkvöldi og svo fóru Hrefna og Erlingur aftur til Köben í dag. Það var ekki að sökum að spyrja, við fengum frábæran kjúklingarétt að hætti húsbóndans í kvöldmatinn og ljóst að kokkurinn hefur greinilega ekki beðið varanlegan skaða af mývarginum í Rússlandi.

Ég sit núna og á að vera að panta vörur, þ.e. ég er að panta vörur en svo afvegaleiddist ég út í eitt stk. blogg. Einn helsti birgirinn (mér finnst birgir alltaf jafn skrítið orð, heildsali er alla vega eitthvað sem allir skilja) okkar er að fara í sumarfrí í 3 vikur og því þarf að panta góðan slatta af vörum svo við verðum ekki uppiskroppa meðan hann er í fríi. Þá vantar nú viðskiptafélagann, hana Sunnu, til að ráðgast við. Ég verð því bara að taka sjálfstæðar ákvarðanir og óttast það annað hvort að sitja uppi með alltof lítið af vörum eða alltof mikið. Miðað við stuðið sem ég er í núna er það síðarnefnda líklegra ;-)

Annars var voða ljúft að eiga frí í dag eftir 13 daga vinnutörn. Eiginlega hefði ég átt að vera að vinna á morgun en Anna var búin að bjóða mér að vinna svo ég hringdi í hana í kvöld og þakkaði gott boð. Ég fer reyndar í vinnuna til að redda auglýsingu fyrir næstu viku en annars verð ég heima og í útréttingum. Er komin með langan lista yfir hluti sem ég þarf að gera og það verður gott að geta strokað eitthvað af því út. Ég þvoði nú reyndar 4 vélar af þvotti í dag og verð að segja að mér leið mun betur á eftir.

En af því Sunna var eitthvað að segjast fá heimþrá við síðustu myndir sem ég birti þá kemur hér ein mynd sérstaklega fyrir hana...

Engin ummæli: