miðvikudagur, 23. júlí 2008

Áfram nóg að gera - og enginn tími til að blogga né lesa blogg

Sem sést best á því að ég var fyrst núna að taka eftir öllum athugasemdunum við færsluna mína síðan á laugardaginn. En við fórum sem sagt í glæsilega afmælisveislu hér fyrir handan (í Vaðlaheiði) á laugardagskvöldið og Valur fékk þá tækifæri til að klæðast lopapeysunni sinni góðu sem móðir hans lét prjóna á hann fyrir margt löngu. Í veislunni hittum við margt fólk eins og vera ber og borðuðum góðan mat. Sunnudagurinn fór að mestu í afslöppun og dagarnir síðan (og kvöldin) hafa að mestu farið í vinnu. Þó afrekaði ég að fara á "skátafund" í gærkvöldi en við hittumst nokkrar gamlar skátasystur í tilefni landsmóts skáta sem haldið er að Hömrum þessa dagana. Já, og í tilefni þess að Rósa vinkona mín var stödd fyrir norðan. Hún gistir reyndar hér í kjallaranum en er hálfgerður "laumugestur" því hún hefur eigin lykil og kemur og fer eins og hentar. Í þokkabót er hún læst niðri í kjallara... en það er nú tilkomið vegna kattanna. Það þarf að læsa hurðinni niður svo Máni geti ekki opnað og þau farið niður. Við erum nefnilega hætt að leyfa þeim að vera í kjallaranum því þeim gæti dottið í hug að merkja sér svæðið.
Talandi um gesti þá streyma þeir hingað í Vinaminni þessa síðustu daga fyrir brottför okkar í sumarfríið. Í kvöld kemur maður sem er að fara að veiða með Vali næstu daga, já og sonur mannsins líka og þeir ætla að gista í nótt. Í fyrramálið koma svo Edda mágkona Vals og Óli Valur sonur hennar - þau eru líka að fara að veiða með Vali. Svo koma þau aftur á laugardagskvöldið og gista þá aðfaranótt sunnudags. Á laugardaginn koma líka mamma og Ásgrímur en þau ætla að vera hér og gæta bús og katta á meðan við erum að skemmta okkur í útlandinu. Já það er annað hvort í ökkla eða eyra... ;-) Og nú er best að hætta þessu blaðri og fara að gera klárt fyrir næturgestina. Svo bíður bókhaldið og "þarf að gera" listinn en á honum er m.a. að bóka hótel í Köben fyrir okkur Val en Andri og Ísak gista hjá systur sinni.

laugardagur, 19. júlí 2008

Ef ég væri orðin lítil fluga...

Ein mynd enn ... aldrei friður!

Birta í skugga


Birta í skugga, originally uploaded by Guðný Pálína.

Eins og ég hef örugglega sagt þúsund sinnum áður þá elska kettirnir að vera úti í góða veðrinu. Samt er líka voða gott að setjast í skugga að hluta til og bara lygna augunum aftur og njóta þess að vera til :-)

Óþægur heili heldur fyrir mér vöku

Já mikið sem það væri nú gott að hafa stundum takka til að slökkva á heilastarfseminni svo maður nái að sofna á kvöldin en liggi ekki bara og hugsi um allt sem maður á ógert. Nú er Sunna komin aftur úr fríinu og ég fer í frí eftir eina viku og við eigum eftir að græja ýmislegt áður en ég fer og ég er búin að búa til langan lista yfir það allt. Svo er ég líka búin að gera lista yfir hluti sem ég persónulega þarf að gera áður en við förum... nóg af listum á þessum bæ :-)

Áðan rakst ég líka á forrit sem heitir Remember the milk og þar er hægt að búa til mismunandi lista (t.d. fyrir vinnu og heimili) og til að kóróna snilldina þá var hægt að samræma listana við Google dagatalið og þá er maður með þetta allt á sama stað. Mjög sniðugt fyrir fólk með "listamaníu". Ég fæ samt visst kikk út úr því að handskrifa listana - og strika yfir verkefni sem búið er að ljúka - svo það er spurning hvort ég muni nokkuð færa mig yfir í rafræna lista. Jamm og jæja, eitthvað verður maður að gera við tímann þegar maður er andvaka. Ég hefði reyndar getað fært bókhald en viss leti kom í veg fyrir það. Plús að ég var hrædd um að fara bara að gera vitleysur á þessum tíma sólarhrings.

Mamma og Ásgrímur ætla að koma norður og sjá um hús og ketti á meðan við verðum úti, eða amk. hluta af tímanum. Það er mjög gott því ég fæ alltaf samviskubit yfir því að skilja kettina eftir ein, þó svo að mjög svo hjálpfúsir nágrannar komi og gefi þeim að borða og spjalli aðeins við þá. Þessir síamskettir eru nefnilega svo félagslyndir og þurfa á miklu samneyti við okkur að halda og leggjast bara í þunglyndi þegar við erum ekki heima.

Við erum boðin í fimmtugsafmæli á morgun og ég fór á fullt að spá í það í hvaða fötum ég ætti nú að fara. Langaði að vera sumarleg og sæt og á engin þannig spariföt. Fann buxur í Benetton á 50% afslætti og einhverskonar síða jakkapeysu í Centro sem ég ætlaði að nota yfir hlýrabol. Var bara nokkuð ánægð með mig, alveg þar til það rifjaðist upp fyrir mér að veislan verður haldin í tjaldi og þar af leiðandi er flíspeysa líklega hentugri klæðnaður... Þarf sem sagt að hugsa þetta aðeins betur.

föstudagur, 18. júlí 2008

Innpökkunaræði

hefur gripið um sig hjá viðskiptavinum Potta og prika, þ.e. sífellt fleiri spyrja hvort við getum ekki pakkað inn vörum sem ætlaðar eru til gjafa. Við verðum að sjálfsögðu við þeirri bón en hins vegar verður seint um mig sagt að ég sé nokkur innpökkunarsnillingur. Eins og með svo margt annað smá segja að æfingin skapi meistarann, svo ætli þetta komi ekki fyrir rest... Um daginn kom kona og vildi láta pakka inn í sellófan og þegar hún gerði sig líklega til að aðstoða mig spurði ég hana hvort hún væri vön. Jú jú hún gat ekki neitað því og endaði á því að pakka inn sjálf en ég horfði á hana og reyndi að leggja handtökin á minnið. Ætli ég þyrfti ekki bara að komast á námskeið í innpökkun ;-) Kannski ég ætti að kíkja á bækurnar frá henni systur minni en hún er búin að þýða margar bækur í bókaflokknum "Hugmyndabanki heimilanna" sem bókaútgáfan Edda gefur út. Kannski einhver þeirra fjalli um innpökkun.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Er loks búin að bóka gistingu í Feneyjum

Þannig að þá er einu verkefni færra á "þarf að gera" listanum mínum. Ég gat ekki sofnað því ég var eitthvað svo undirlögð í skrokknum og hvað er þá betra en nota tímann í gáfulega hluti eins og að bóka gistingu. Annars væri líklega enn gáfulegra að reyna aftur að sofna, ég verð ekki beint sú ferskasta ef ég missi svefn.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Í hálfgerðu limbói

Ég var nánast í fríi frá vinnunni í gær, skrapp bara í tvo tíma og kláraði eina pöntun og græjaði eitthvað fleira sem ég man ekki. Jú og fór á fund í gærkvöldi sem haldinn var með nýjum aðilum á Glerártorgi. Annars eyddi ég deginum í að strika út hluti af "þarf að gera" listanum mínum og gekk það bara nokkuð vel. Fór með Ísak til að endurnýja vegabréfið hans og keypti á hann sandala sem reyndar voru heldur stórir. Svo skrapp ég á útsölu í einni fatabúð en endaði á því að kaupa tvö pör af skóm (og ég sem er ekki einu sinni neinn sérstakur skófíkill). Ég skilaði líka bókum á bókasafnið, fór á pósthúsið, keypti kattamat, pantaði klippingu og litun, þvoði þvott og ... man ekki fleira í bili.

Í dag er svo annar frídagur hjá mér (í boði Önnu sem fannst ég þurfa á því að halda) og ég svaf til að verða hálf ellefu, hvorki meira né minna. Hef nánast ekkert gert af viti síðan ég vaknaði. Óspennandi veður úti gæti haft eitthvað með málið að gera en nú neyðist ég bráðum til að hætta þessari leti. Þarf að skreppa í vinnuna og greiða reikninga ofl. Svo þarf ég að þvo meiri þvott, laga til í húsinu og panta hótel í Feneyjum. Svo hefði ég auðvitað rosalega gott af því að fara út að ganga...

sunnudagur, 13. júlí 2008

Einn kemur þá annar fer (eða öfugt)

Já Valur kom heim í gærkvöldi og svo fóru Hrefna og Erlingur aftur til Köben í dag. Það var ekki að sökum að spyrja, við fengum frábæran kjúklingarétt að hætti húsbóndans í kvöldmatinn og ljóst að kokkurinn hefur greinilega ekki beðið varanlegan skaða af mývarginum í Rússlandi.

Ég sit núna og á að vera að panta vörur, þ.e. ég er að panta vörur en svo afvegaleiddist ég út í eitt stk. blogg. Einn helsti birgirinn (mér finnst birgir alltaf jafn skrítið orð, heildsali er alla vega eitthvað sem allir skilja) okkar er að fara í sumarfrí í 3 vikur og því þarf að panta góðan slatta af vörum svo við verðum ekki uppiskroppa meðan hann er í fríi. Þá vantar nú viðskiptafélagann, hana Sunnu, til að ráðgast við. Ég verð því bara að taka sjálfstæðar ákvarðanir og óttast það annað hvort að sitja uppi með alltof lítið af vörum eða alltof mikið. Miðað við stuðið sem ég er í núna er það síðarnefnda líklegra ;-)

Annars var voða ljúft að eiga frí í dag eftir 13 daga vinnutörn. Eiginlega hefði ég átt að vera að vinna á morgun en Anna var búin að bjóða mér að vinna svo ég hringdi í hana í kvöld og þakkaði gott boð. Ég fer reyndar í vinnuna til að redda auglýsingu fyrir næstu viku en annars verð ég heima og í útréttingum. Er komin með langan lista yfir hluti sem ég þarf að gera og það verður gott að geta strokað eitthvað af því út. Ég þvoði nú reyndar 4 vélar af þvotti í dag og verð að segja að mér leið mun betur á eftir.

En af því Sunna var eitthvað að segjast fá heimþrá við síðustu myndir sem ég birti þá kemur hér ein mynd sérstaklega fyrir hana...

föstudagur, 11. júlí 2008

2 lambalærissneiðar og hálfur poki af Sambó kúlusúkki

Þetta var kvöldmaturinn hjá mér. Eftir 9 tíma vinnudag var ekki beint hægt að segja að andinn væri yfir mér og það eina sem mér datt í hug að elda voru grillaðar pylsur. Hins vegar finnast mér pylsur ekki góðar og ekki fara þær heldur vel í magann á mér þannig að ég greip einn pakka af marineruðum lambasneiðum á hraðferð minni í gegnum Nettó. Þegar heim var komið kveikti ég á grillinu og tókst að grilla bæði pylsur og lamb án þess að eyðileggja hráefnið. Það fannst mér bara nokkuð vel af sér vikið hjá mér því ég hef aldrei grillað kjöt áður (pylsur já en ekki kjöt). Hins vegar kemur kokkur hússins heim annað kvöld (eða það sem er eftir af honum) þannig að heimilisfólk sér fram á betri tíð með blóm í haga.

Í gærkvöldi var himininn svo fallegur að ég gekk út á klöpp og tók nokkrar myndir.

Þessi efri er nú aðeins færð í stílinn hjá mér. Ég dekkti hana aðeins til að ná betur fram mynstrinu í skýjunum.

Þessi neðri sýnir skuggamynd mína bera við grenitréð, við hliðina á húsinu sem Hjördís og Sighvatur áttu heima í (eru flutt suður eins og svo margir aðrir...) Ég sakna hennar alltaf þegar ég geng þarna framhjá.


Á heimleiðinni var ég stoppuð og beðin að taka mynd af furðufiski sem rekið hafði á fjörur tveggja veiðimanna í fjöru nálægt Kópaskeri ef ég man rétt. Og þessi blessaður fiskur heitir Vogamær, hvorki meira né minna.

mánudagur, 7. júlí 2008

Fýluferð á flugvöllinn


Ísak og Sigurður, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þegar þessi mynd var tekin af þeim frændum vorum við á leið á flugvöllinn en Sigurður átti pantað flug til Reykjavíkur í kvöld og svo til Noregs á morgun. Þegar við komum á völlinn var okkur tilkynnt að það væri seinkun og við skruppum smá rúnt og komum svo aftur. Þá var tilkynnt að vélin hefði reynt að lenda en hætt við og átti að gera aðra tilraun. Það tók óratíma en loks heyrði ég flugvélina nálgast - og fljúga yfir... Ekki sérlega gaman. Þannig að við fórum aftur heim og næst á að athuga með flug klukkan 06.30 í fyrramálið. Úff, ekki mín sterka hlið að vakna snemma þessa dagana. En verði flogið þá verður það fyrst kl. 8.40 en standist það þá ætti Sigurður að ná vélinni til Oslóar kl. 12.10.

laugardagur, 5. júlí 2008

Þá er ég búin að sofa í sófanum í klukkutíma

og klukkan bara hálftíu. Það er ekki beinlínis hægt að segja að ég sé fersk þetta laugardagskvöldið. Úti er fínasta veður og eiginlega hefði ég frekar átt að vera úti að taka myndir eða bara njóta veðursins - en var svo örmagna að ég steinrotaðist á sófanum. Aðalmarkmiðið með því að leggjast í sófann var nú samt að hvíla bakið, ekki að sofa. En kvöldið er ungt, kannski ég skelli mér bara út núna.

Ísak er að elda

Það er nú gott að hann tekur við keflinu af pabba sínum, svona þegar sá síðarnefndi er ekki heima til að sjá um matseldina. Ég hef áður minnst á það hvernig ég er orðin algjörlega ónýt til nokkurra verka í eldhúsinu og man aðeins óljóst hvernig tilfinning það var að elda mat. Andri hefur ekki ennþá leyft okkur að njóta góðs af öllum matreiðsluáföngunum sem hann tók í 8-10 bekk en mér sýnist Ísak ætla að koma sterkur inn. Nú svo er auðvitað aldrei að vita nema Andri taki sig til og sýni hvað í honum býr :-)

föstudagur, 4. júlí 2008

Súld við sjóinn


Súld við sjóinn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Veðrið á Akureyri kvöldið 4. júlí. Séð yfir Pollinn.

Tja

Finnst ég svo sem ekki hafa margt að segja.

Er í vinnunni mest allan daginn um þessar mundir og er svolítið lúin. En klukkan er nú líka að verða tíu að kvöldi til... Það var annars pínu skrýtinn dagur í vinnunni í dag. Við vorum að taka upp vörur og það fer dágóður tími í það enda þarf að tékka á verðinu á hverju einasta snitti til að sjá hvort það hafi breyst. Gengisfall íslensku krónunnar sér til þess að yfirleitt er einhver hækkun milli sendinga og maður verður voða glaður þegar vörur eru áfram á sama verði og síðast. Framan af degi var lítil traffík í búðina enda yndislegt veður úti en þegar norðanáttin fór að blása seinni partinn þá fór fólk að streyma að. Fæstir voru þó að kaupa eitthvað, fólk virtist meira vera bara á röltinu - að drepa tímann.

Yfirhöfuð er þó margfalt meiri traffík á Glerártorgi en var í Strandgötunni og lítið hægt að nota tímann í búðinni til að panta vörur, vinna í bókhaldi og annarri pappírsvinnu. Sem þýðir að líklega þurfum við að fara að mæta fyrr í vinnuna svo við fáum extra klukkutíma til að sinna svona hlutum. Svo þarf maður líka að venjast því að gera stærri pantanir því salan er jú meiri :-) Og við þurfum að ráða fleira fólk í haust svo maður verði ekki alveg brjálaður á allri þessari helgarvinnu og nái að safna kröftum annað slagið.

Já, það er ýmislegt sem breytist í tengslum við flutningana á Glerártorg. Eitt af því er kvöldmatartími fjölskyldunnar. Við höfum yfirleitt verið að borða uppúr sex og finnst það voða gott því það lengir kvöldið einhvern veginn. En nú er ég sjaldnast komin heim fyrr en milli hálf sjö og sjö, svo kvöldmaturinn er núorðið á sama tíma hjá okkur eins og öðrum Íslendingum. Sem minnir mig á það þegar við vorum nýflutt til Noregs hérna í den og Hrefna var að leika við krakka úti þá hurfu alltaf allir klukkan fimm og við skildum ekki neitt í neinu. Þá var kvöldmatur hjá þeim! Það fannst okkur á þeim tíma afar undarlegt og héldum okkar síðbúna kvöldmatartíma framan af. Færðum hann svo smátt og smátt framar - en ég held samt að við höfum aldrei borðað klukkan fimm.

Og svo ég haldi þessari maraþonfærslu minni áfram þá er Valur sem sagt farinn af stað áleiðis til Rússlands, Andri er hjá Sunnevu að elda kjúklingapasta (hm, að vísu líklega löngu búinn að elda og borða núna), Hrefna og Erlingur borðuðu úti í Vestursíðu hjá foreldrum Erlings (enda matfaðirinn farinn í veiði eins og áður sagði), Ísak og Sigurður eru inni í herbergi að horfa á mynd og ég ligg í sófanum eina sanna ásamt Mána og með tölvuna í fanginu. Fór reyndar aðeins út áðan og afrekaði að kaupa bók um ljósmyndun sem ég hlakka til að fara með í rúmið á eftir.

Á morgun er ég að vinna frá 12-17 og þyrfti svo helst að elda einhvern ætan kvöldmat. Á sunnudaginn er ég bara að vinna frá 13-15 og þá langar mig til að skreppa eitthvert með strákana eftir vinnu, t.d. til Dalvíkur eða Hríseyjar - en það er ekki þar með sagt að þá langi til þess...

Og þá held ég að blaðurskjóðan hafi ekki meira að segja í bili.