laugardagur, 15. apríl 2006

Ísak er aðeins að hressast

enda búinn að vera veikur síðan á mánudag. Hann er samt óttalega slappur og ekki til stórræðanna ennþá. En ég hins vegar vaknaði upp í morgun með höfuðverk og beinverki. Hélt reyndar bara að þetta væru mínir venjulegu stoðkerfisverkir (skemmtilegt orð sem er notað þegar kellingar eins og ég eru með verki í skrokknum en greinast ekki með gigt...), fannst þeir reyndar óvenju slæmir en skrifaði það á reikning skíðanna í gær. Treysti mér engan veginn í fjallið og ekki heldur í sund en lufsaðist út að ganga með eiginmanninum. Verkjaði í skrokkinn í hverju skrefi en þrjóskaðist áfram um stund. Hafði ætlað að ganga út að golfvelli en sá að mér þegar ég fann hvernig þrekið þvarr óðum og við snérum fljótlega við. Hresstist þó aðeins við að fá mér te og brauð. Þurfti svo að keyra Val upp að öskuhaugum (nei ég er ekki að henda honum á haugana ;-) því honum datt í hug að ganga annað hvort á Súlur eða inn á Glerárdal. Fann þá að heilastarfsemin var heldur ekki í lagi, var viðbragðssein og sljó við aksturinn en komst báðar leiðir slysalaust sem betur fer. Þetta er nú meira stuðið! Loks þegar Ísak er að koma til þá er ég orðin eins og slytti. Er samt hvorki með hálsbólgu né hósta, bara svona hrikalega slöpp og með beinverki. Og við sem ætluðum suður á morgun...

Engin ummæli: