miðvikudagur, 12. apríl 2006

Loks búin með Alt for damerne og komin upp úr sófanum

- eða þannig... Ég er nú yfirleitt alltof fljót að lesa tímarit og þess vegna var ég mjög ánægð þegar bókasafnið fór að bjóða upp á fjölbreytta flóru tímarita til útláns. Slepp þá við samviskubitið sem myndast þegar ég kaupi mér (rán)dýrt tímarit og er búin að lesa það á innan við hálftíma. En ég hef sem sagt afar gaman af því að lesa hin ýmsu tímarit. Alt for damerne er þó í ákveðnu uppáhaldi vegna þess að þar eru oft viðtöl við fólk (oftar en ekki konur) sem hefur breytt um atvinnu eða farveg í lífinu og blómstrar í því sem það er að gera.

Einu sinni var t.d. viðtal við konu sem alla tíð hafði unnið í fiskvinnslu en þurfti að hætta því þegar hún fékk ofnæmi fyrir fiski. Hún hafði alltaf haft gaman af því að taka myndir og ákvað að drífa sig í nám í ljósmyndun. Gekk svona rosalega vel í náminu, fékk verðlaun við útskriftina og er komin á fullt í tískuljósmyndun í dag.

Í öðru blaði var viðtal við konu sem hafði verið í mjög spennandi starfi hjá útgáfufyrirtæki en fékk svo háan blóðþrýsting sem engin skýring fannst á. Eftir ótal rannsóknir töldu læknar að streita hlyti að liggja að baki og ráðlögðu henni að fara í sjúkraleyfi. Í leyfinu byrjaði hún að skrifa barnabækur og lifir af því í dag.

Í blaðinu sem ég var að lesa s.l. föstudag var viðtal við hjón sem höfðu átt þrjár líkamsræktarstöðvar en selt þær þegar þau fengu tilboð frá bandarískri líkamsræktarkeðju sem var of gott til að hafna. Þau seldu sem sagt stöðvarnar fyrir rúmar 50 milljónir danskra króna og ætluðu bara að hafa það náðugt það sem eftir væri. Keyptu sér stórt einbýlishús við sjóinn og íbúð í Cannes en þeim hundleiddist og þjáðust af þunglyndi. Þegar þeim bauðst skömmu síðar að kaupa þrjá veitingastaði í Kaupmannahöfn slógu þau til og hafa ekki séð eftir því. Það skrautlegasta við þessa sögu var að hvorugt þeirra æfði líkamsrækt meðan þau áttu líkamsræktarstöðvarnar og þegar þau keyptu veitingastaðina höfðu þau ekki hundsvit á góðum mat því þau höfðu lifað á skyndibitafæði í 17 ár!

Nóg um það, páskarnir eru víst framundan. Það eina sem er skipulagt á þessum bæ er að skreppa suður í fermingarveislu hjá bróðursyni Vals. Meiningin er að fara af stað seinni part páskadags og koma heim á þriðjudegi. Hins vegar er Ísak orðinn veikur og spurning hvernig þetta fer hjá okkur. Hann er rayndar búinn að sofa meira og minna í heilan sólarhring núna og hitinn hafði greinilega minnkað þegar hann vaknaði í morgun svo það er aldrei að vita nema pestin sé eitthvað að brá af honum.

Og nú er ég búin að skrifa þvílíka langloku að lesendur dauðsjá örugglega eftir því að hafa reynt að vekja mig til bloggskrifa á ný ;-)

Engin ummæli: