föstudagur, 7. apríl 2006

Ég hef alltaf lúmskt gaman af stjörnuspám

þó ég taki þeim líka alltaf með hæfilegum fyrirvara. En einhvern tímann skráði ég mig á lista hjá astrology.com og fæ síðan alltaf senda stjörnuspá dagsins í tölvupósti. Oft finnst mér hún passa ótrúlega vel við það sem ég er að hugsa og hafa t.d. komið nokkuð margar undanfarið í tengslum við atvinnumál eða breytingu á högum mínum - sem hittir jú vel í mark þessa dagana.

Þegar ég vaknaði í morgun var ég svo þreytt að mig langaði mest að senda strákana í skólann og halda áfram að sofa. Sem ég hefði vel getað gert þar sem ég var ekki með kennslu í dag (stærsti kosturinnn við núverandi starf er það hvað ég ræð tíma mínum mikið sjálf) en ég lufsaðist á fætur og í sund þar sem ég nennti ekki að synda nema tuttugu ferðir í stað þrjátíu. Kom heim um hádegið og keyrði Andra upp í KA heimili en hann var að fara í keppnisferðalag í handbolta til Reykjavíkur. Átti að mæta á fund eftir hádegið en honum var frestað og síðan hef ég ekki gert neitt af viti, bara hengslast um húsið og fundist ég eiga að gera eitthvað gáfulegt en ekki orðið neitt úr verki.

Áðan fékk ég svo stjörnuspá dagsins senda og hún hljóðar svo: "Your body wants to relax, but your brain wants to stay busy. What to do? Listen to your body. Slow down just long enough to really recuperate. After all, what's the point of all that work if you get sick from it?"

Nú er ég komin með fullgilda afsökun fyrir því að henda mér upp í sófa með Alt for damerne!

Engin ummæli: