þriðjudagur, 11. desember 2012

Fröken eirðarlaus

Það er eitt stórfurðulegt sem gerist þegar ég er á ákveðnu stigi í þreytukasti. Ég verð svo óskaplega eirðarlaus og hálf pirruð. Eins og t.d. núna. Þarf ekki að fara að vinna fyrr en kl. 14 (tja eða byrja á því að fara rúnt og sækja vörur fyrst) og ætti helst að slaka bara aðeins á, en nei nei, þá er mér það lífsins ómögulegt. Þannig að ... ætli ég drífi mig ekki bara út með myndavélina. Geri minnst af mér þannig ;-)

Annars vorum við að tala um það í leikfiminni í gær (vefjagigtarleikfimi hjá Eydísi Valgarðs sjúkraþjálfara) hvað við ættum það til að halda endalaust áfram, þar til við hrynjum, og skella skollaeyrum við öllum þeim einkennum sem segja okkur að stoppa. Og makarnir þurfa að horfa uppá okkur gera sömu mistökin aftur og aftur, enda margir farnir að skipta sér af og láta í sér heyra. "Ertu viss um að þetta sér góð hugmynd?" "Viltu nú ekki bara láta þetta eiga sig?" Heldurðu að þú ættir nokkuð að gera þetta núna?" Hehe, ég segi nú ekki einu sinni hvaða setningar Valur á það til að nota, hann getur verið býsna ákveðinn, svo ekki sé meira sagt.

Annars eru það jólagjafainnkaup sem eru næst á dagskrá. Á morgun er síðasti dagur til að senda til Norðurlandanna, og síðasti séns að græja þetta í dag. Úff, og ég ekki byrjuð...

3 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Guðný mín, jólagjafirnar frá mér koma allavega með seinni skipum í ár. Ekki séns að ég nái þessu áður en fresturinn rennur út.......

Nafnlaus sagði...

Endilega bloggaðu sem oftast,það er langoftast eitthvað athyglisvert og/eða umhugsunarvert í því sem þú skrifar.Bestu kveðjur, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Anna mín, ég veit nú ekki hvort ég næ þessu í póst í dag sko ... er að fara núna af stað og er ekki búin að ákveða hvað ég er að fara að kaupa ;-)

Takk Þórdís, þetta er fallega sagt :-)