föstudagur, 14. desember 2012

Ertu bara alveg hætt að mæta í sund

eftir að þú misstir gluggann og Krúsa?
- Ha?
- Ertu bara alveg hætt að mæta í sund eftir að þú misstir gluggann og Krúsa?
- Ha? ....... U ....... Hvað áttu við?
- Hm, er ég að taka feil? Varst þú ekki alltaf í sundi einu sinni?
- U.. jú ... en hvaða glugga ertu að tala um?
- Já, voruð þið ekki alltaf að hanga í glugganum og tala við Krúsa?
........................ ( ég að hugsa ............... ) ..................
- Ó, þú meinar .. já nú skil ég hvað þú átt við, hehe ;-) Jú jú, alveg rétt hjá þér, við vorum stundum í glugganum. .......... En annars er ég ekkert hætt að fara í sund, var síðast í sundi í morgun.
- Já OK, ég fer alltaf á kvöldin, þess vegna hélt ég að þú værir hætt að mæta.
- Nei, nei, hef aldrei hætt því, tja nema meðan ég bjó í Noregi. Breytti bara um tímasetningu, finnst frábært að byrja daginn á því að fara í sund :-)
------------------------------------------------------------------------------------------

Ég átti nánast þessar orðréttu samræður við mann sem kom í Potta og prik fyrir ekki svo löngu síðan. Vá hvað ég var ekki fyrst að fatta hvað hann átti við með gluggann og Krúsa ...

En svo ég útskýri málið, þá var það þannig, að þegar ég var unglingur þá var ég sem sagt alltaf í sundi. Á tímabili æfði ég sund en það var nú ekki lengi, í mesta lagi tvo vetur held ég. Þegar ég hætti að æfa hélt ég áfram að mæta í laugina að kvöldi til. Á þeim tíma var sundlaugin hálfgerð félagsmiðstöð og þá voru jú engar tölvur og bara ríkissjónvarpið, svo afþreying var af skornum skammti, miðað við nú á dögum. Í sundið mætti ákveðinn kjarni unglinga sem héngu í heita pottinum, spjölluðu, hlustuðu á Lög unga fólksins, döðruðu pínu pons, já og bara nutu þess að hittast á hlutlausum stað og njóta samvista hvert við annað.

Þegar ég var svona ca. 13 ára þá var það þannig að eldri krakkarnir, þessi sem voru svona 15-17 ára, voru stundum að "hanga" inni hjá sundlaugarvörðunum. Aðstaðan sem þeir höfðu á þeim tíma var frekar bágborin, og eftirlitið fór fram í litlu herbergi með stórum glugga, þar sem útsýni yfir laugina var gott, og einnig var utangengt. Það þótti talsvert sport að fá að "hanga" í þessu litla herbergi og spjalla við sundlaugarverðina. Mér fannst dálítið eftirsóknarvert að komast þarna inn, því þannig sæu allir að ég væri "maður með mönnum".  Þegar ég varð eldri fór ég því að "laumast" inn í herbergi sundlaugarvarðanna, því þar var jú "aðal fólkið". Þar var jafnvel hægt að fá að sitja í gluggakistunni ef ég man rétt og horfa út í laugina og heita pottinn, og þá sáu náttúrulega allir sem í lauginni voru (og horfðu yfirhöfuð í rétta átt) að þessi stelpa var nógu mikið í náðinni til að fá að vera í glugganum.

Já ég veit, frekar fyndið svona í endurminningunni, en á þessum tíma var þetta fúlasta alvara. Sundlaugin var sá staður þar sem ég var á heimavelli, öfugt við t.d. skólann og Dynheima (þar sem böllin voru), en þar leið mér eins og belju á svelli.

OK þetta er sem sagt skýringin á glugganum og Krúsi var jú einn sundlaugarvarðanna á þessum tíma, en er löngu hættur að vinna í sundlauginni. Við hittumst nú reyndar enn þann dag í dag stundum í lauginni. Ég að synda og hann að fylgja drengjum í sund, en hann vinnur núna sem húsvörður í skóla og er greinilega stundum fenginn til að fylgja strákum sem þurfa liðveislu.

En já mér fannst ótrúlega fyndið að maðurinn sem kom í búðina til mín skyldi hafa munað eftir mér í glugganum, því í minningunni þá var það nú ekki svo oft sem ég sat þar. En eins og allir vita getur minnið svikið besta fólk :O)

----------------------------------------------------------------------------------------------
Eftirfarandi mynd fann ég inni á facebook síðu sem heitir "Brekkan fyrr og nú" en fólk hefur sett alls kyns myndir þar inn. Þessi hér virðist hafa verið skönnuð úr bók sem heitir "Akureyri: Blómlegur bær í norðri". Bókin er eftir Tómas Inga Olrich og myndirnar tók Max Schmidt. Myndin sýnir sundlaugina nákvæmlega eins og hún var þegar ég var krakki. Í dag er búið að bæta við hana og breyta heilmiklu. En glugginn "frægi" er sem sagt þessi stóri þarna á neðri hæðinni, lengst til vinstri.



3 ummæli:

Fríða sagði...

Þetta hljómar pínu eins og hann hafi kannski öfundað Krúsa pínulítið :)

Anna Sæm sagði...

Frábært! Þetta hefur líka alltaf verið sundlaug sundlauganna :-)

Guðný Pálína sagði...

Já Fríða þú meinar .... hehe, nei ætli það, en skemmtileg tilgáta samt ;)

Ójá Anna, þetta er svo sannarlega sundlaug sundlauganna :-)