sunnudagur, 30. desember 2012

Hvert skal halda?


Um áramót staldrar fólk stundum við og veltir fyrir sér fortíð og framtíð. Hvaða leið á að velja á nýju ári o.s.frv. Ég hef nú ekki verið ein af þeim sem hef gert mikið úr áramótum og oftar en ekki bara göslast áfram án þess að velta áramótum mikið fyrir mér. Nú ber hins vegar svo við að ég er að spá og spekúlera í ýmis mál, án þess þó að ég vænti þess að fá nokkra ákveðna niðurstöðu á næstunni.

Vissar breytingar eru þó framundan hjá okkur, en þær felast einkum í því að Valur er búinn að segja upp vinnunni á FSA. Hann var orðinn ofboðslega þreyttur á að vinna vaktavinnu og kominn tími til að gera breytingar. Hugsanlega mun hann þó vinna þar eitthvað áfram en með öðru sniði en hingað til.

Hvað sjálfa mig snertir verð ég að viðurkenna að í kjölfar nýafstaðinnar jólatarnar í vinnunni, velti ég því æ oftar fyrir mér, hvernig ég geti náð að samræma betur vinnu og vefjagigt. Það hugsanaferli fór reyndar af stað þegar ég var á Kristnesi s.l. vor og sér ekki fyrir endann á því, enda engin einföld lausn í sjónmáli. En já já, koma tímar og koma ráð ;-)

Það væri alveg eftir mér að blogga aftur á morgun, en ef ekki þá óska ég bara lesendum þessarar síðu gleðilegs nýs árs og vona að nýja árið verði ykkur gæfuríkt.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár og takk fyrir hugleiðingar þínar sem mér finnst mikið varið í og fallegu myndanna þinna. Bestu kveðjur frá Hrísey.
Kristín Björk Ingólfsdóttir.

Nafnlaus sagði...

Bestu óskir fyrir nýja árið og takk fyrir skrifin á síðasta ári.
Kveðja, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Þakka ykkur kærlega fyrir falleg orð í minn garð, Kristín og Þórdís.