miðvikudagur, 5. desember 2012

Það var hörð barátta sem átti sér stað í morgunsárið


Baráttan sú fór fram í hjónarúminu að Stekkjargerði 7. Ekki þó á milli mín og eiginmannsins því hann var farinn í vinnuna. Nei, þetta var innri barátta hjá sjálfri mér og snérist hún um það hvort ég ætti að fara í sund eða ekki. Kominn miðvikudagur og ég ekkert búin að synda síðan ... tja... líklega síðasta föstudag. Á mánudaginn sleppti ég sundi af því ég fór í leikfimi en í gær var ég ógurlega þreytt og fór ekki í sund fyrir vinnu, svona eins og skipulagið mitt segir nú eiginlega til um að ég geri. Þannig að í dag var það að duga eða drepast. En úff, hvað ég var samt ekki að nenna á fætur og í sundið. Það helgaðist nú líka af því að ég svaf afspyrnu illa í nótt og var ennþá svo þreytt þegar ég vaknaði.

Sundið hafði betur, eftir hálftíma innri rökræður, og var ég komin í laugina ca. korter yfir átta. Það voru nú ekki margir að synda en ég hitti samt nokkrar skvísur sem ég þekki. Þó samræðurnar séu hvorki miklar né innihaldsríkar, þá finnst mér svo notalegt að byrja daginn á "kunnuglegu stefi" og fór ánægð heim. Það skyggði samt aðeins á gleðina við sundferðina að ein starfsmanneskjan var býsna höstug og leiðinleg við litlar skólastelpur sem henni fundust ekki klæða sig nógu hratt. Mér finnst alltaf svo óþægilegt að hlusta á fólk rífast og skammast.

Annars er bara mikið fjör í vinnunni þessa dagana og þó maður striki yfir einhver verkefni á "þarf að gera" listanum þá bætast alltaf ný við. Þannig að maður líkist einna helst hamstri í hlaupahjóli ;-) En þetta er líka skemmtilegt og ég er voða þakklát öllu því fólki sem velur að kaupa jólagjafirnar í Pottum og prikum. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur að jólavertíðin komi vel út, eins og alla verslunareigendur.

Svo eru Litlu jól hjá ÁLFkonum í kvöld. Það verður án efa skemmtilegt. Ég á að koma með salat en við komum allar með eitthvað á hlaðborðið. Svo á ég víst eftir að kaupa smá gjöf, oh, hefði þurft að gera það þegar ég var í vinnunni í dag. Og talandi um vinnuna þá var ég í gærdag á leiðinni niður á Flytjanda að sækja vörur, þegar ég sá að birtan (sólsetrið) var svo fallegt í suðri. Aldrei þessu vant var ég með myndavél í töskunni, svo ég stökk út úr bílnum og smellti af einni mynd (tja þær voru reyndar fjórar en þessi var skást ;)

Engin ummæli: