fimmtudagur, 9. febrúar 2012

Úff

Allt þetta félagslíf að undanförnu er farið að segja til sín. Það var jú veisla á föstudagskvöldið síðasta, afmælisheimsókn til vinkonu og fundur í ljósmyndaklúbbnum á mánudaginn og svo vinkonuhittingur í Hofi í gær. Ég held bara að ég sé búin að slá nýtt met. Ekki er allt búið enn því það er kvennaklúbbur á föstudaginn og svo erum við Valur að fara í matarboð á laugardagskvöldið. Veit ekki alveg hvernig ég á að fara að þessu öllu... Var alveg ótrúlega þreytt eitthvað í morgun, en leyfði mér að sofa til hálf níu, svo það var nú gott. Hins vegar hafði ég ekki áttað mig á því að bíllinn hafði gleymst úti á bílastæði í gær og ég þurfti að skafa glerharðan ís af framrúðunni í morgun. Það var bara ótrúlega erfitt eitthvað. Svo tókst mér að gleyma leikfimisfötunum heima, en markmiðið var að fara í leikfimi strax eftir vinnu, eða kl. tvö en þá er tími hjá vefjagigtarhópnum. En já nú er best að hætta þessu masi og fara að þurrka ryk af hillum sem ég átti að gera í gær en var ekki í stuði til að gera þá.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í commentinu frá mér þ. 7.febr. átti auðvitað að standa að tenglarnir hefðu verið hæ. megin á gömlu síðunni. Sé reyndar að þeir eru komnir þangað aftur.Finnst nú í góðu lagi að það séu prófuð ný form, bara eins og þér finnst skemmtilegt.Bara til gamans að skrifa hvernig ég fann síðuna þína. Var einu sinni sem oftar að skoða íslensk prjónablogg og þar var tengill á síðuna hjá Hörpu Jónsd. í Vík, sem ég fór að skoða. Hjá henni var síðan tengill á þína síðu, sem ég ákvað að líta á vegna þess að mér fannst nafnið á henni skemmtilegt. Svona geta tilviljanir - eða ekki tilviljanir - verið. Bestu kveðjur, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Já, ég áttaði mig alveg á þessu með tenglana, það var nú ekki hættulegt mismæli ;) En já mér fannst hálf ómögulegt að hafa enga tengla, og eins að það þyrfti að smella á færsluna til að sjá hana alla. Fannst þetta "dynamic" útlit samt pínu flott en geymi það í bili.

Já, það getur verið skrítið hvernig maður dettur niður á ný blogg og fer að fylgjast með lífi fólks sem maður þekkir ekki í raun. Það var þannig með mig þegar ég byrjaði að blogga sjálf. Þá datt ég líka niður á hana Hörpu sem þá bjó fyrir vestan, Hugskot, Betu baun, Fríðu og fleiri bloggara. Hef einu sinni hitt Betu í eigin persónu og síðar kynntist ég Fríðu en hún býr líka hér á Akureyri. Gaman að þessu :)