laugardagur, 4. febrúar 2012

Ég er að reyna að halda aftur af mér

Það er eitt alveg stórmerkilegt sem gerist stundum (oft) þegar ég er í þreytukasti. Þá fæ ég yfirgnæfandi löngun til að fara að hamast eitthvað, s.s. að laga til í húsinu. Það er eins og líkamlega tiltektin eigi að bæta fyrir andlegu niðurlæginguna sem fylgir því að vera svona þreytt. Þetta er hins vegar ekki sérlega gáfulegt og minn ágæti eiginmaður er oft búinn að skamma mig þegar hann sér í hvað stefnir hjá mér. Því þetta leiðir jú bara til þess að ég er enn lengur að jafna mig. Þannig að í dag þegar ég fann í hvað stefndi, þá ákvað ég að nú skyldi ég ekki falla í þessa framkvæmdagryfju og bara sitja aðgerðalaus. Tja, eða þannig.

Við vorum í sextugsafmæli í gær sem haldið var í Golfskálanum, og mér tókst að sitja þar í rúma þrjá tíma. Sem er vel af sér vikið, því hátalarakerfið var alltof hátt stillt og þar af leiðandi voru allar ræður og sum skemmtiatriðin alveg ærandi hávær. Það lýsir því best hvað ég var orðin þreytt í höfðinu, að þegar ég fór að sofa þá gat ég ekki hugsað mér að setja róandi slökunar talið/tónlistina í eyrun á mér, heldur stakk eyrnatöppum í eyrun til að hafa sem allra mest hljóð. En svo þetta hljómi nú ekki bara sem eitthvað kvart og kvein, þá verður að segjast að fyrir ári síðan hefði ég átt mun erfiðara með að fara í þessa veislu.

Þetta með að spá í hvernig ástandið var fyrir ári síðan, kom upp í einu viðtalinu á Kristnesi í vikunni. Held að það hafi verið hjúkrunarfræðingurinn frekar en iðjuþjálfinn sem kom með þennan punkt. Ég var nú orðin svo steikt í höfðinu eftir öll þessi viðtöl að þetta fór allt í einn graut og eftirá mundi ég ekki einu sinni nafnið á iðjuþjálfanum, þó ég hefði haft það á blaði.

En já sem sagt, í framhaldinu fórum við Valur að tala um það hvernig ég hefði verið fyrir ári síðan. Ég nefnilega hef verið svo miður mín yfir því að hafa dottið aftur í þreytu-pyttinn eftir jólavertíðina, að ég átti erfitt með að sjá hvað þó hefði áunnist. En já Valur rifjaði upp þegar ég kom í heimsókn til hans í Tromsö, hvað ég hefði verið ónýt þá, og núna áðan las ég bloggfærslur frá því í febrúar, og það er nokkuð ljóst að þrátt fyrir allt þá er ég töluvert mikið hressari í ár. Þreytuköstin eru ekki jafn yfirgengileg, ég á betri klukkustundir og jafnvel heila daga, inn á milli. Meltingartruflanir heyra nánast sögunni til eftir að ég breytti um mataræðið, og hið sama má segja um stíflurnar í nef- og kinnholum sem voru að plaga mig árið um kring. Í heildina séð er ég líka betri í skrokknum, þ.e. ekki með jafn mikla vefjagigtarverki, þó þeir séu alveg ennþá til staðar.

Annars kom til mín kona í veislunni, gömul skólasystir mín, og fór að hrósa mér fyrir ljósmyndirnar mínar (sem hún sér af því við erum vinir á facebook). Hún sagðist oft fara inn á síðuna mína og skoða myndirnar. Það er alltaf gaman að fá jákvæð viðbrögð á það sem maður er að gera,  sama hvað það er.  Og af því tilefni þá kemur hér mynd sem ég tók seinnipartinn í fyrradag, niðri við ósa Glerár. Ég var búin að birta aðra á flickr síðunni minni, sem er mjög svipuð, en hér er ekki sami forgrunnur heldur fær sjórinn meira að njóta sín. Endilega smellið á myndina þá stækkar hún og sést betur ;)

Engin ummæli: