mánudagur, 13. febrúar 2012

Fyrsti dagurinn á Kristnesi búinn

Melting by Guðný Pálína
Melting, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
og ég kom gjörsamlega örmagna heim, hehe og ég sem hélt að ég væri að styrkja mig ;-)

Það tók ótrúlega mikið á að vera stödd á nýjum stað með nýju fólki og í hlutverki/kringumstæðum sem ég er ekki vön að vera í. Framan af var ég óttalega villt eitthvað og fann mig engan veginn. Ég var jú líka þreytt og dagskráin hjá mér riðlaðist til vegna veikinda, og satt best að segja langaði mig mest að stinga af heim á tímabili. Ótrúlegt ekki satt? Svo batnaði nú ástandið um allan helming þegar ég rakst á konu sem ég þekki og í ljós kom að við erum báðar í sama "verkjahóp" eins og hópurinn okkar er kallaður.

Ég varð fyrir smá vonbrigðum með tímann hjá sjúkraþjálfaranum. Hélt að það yrði strax byrjað að taka stöðuna á mér (skoða mig) og svoleiðis, en þetta var bara viðtal. Hitt gerist á morgun. Ég spurði hvort væri ekki hægt að komast í þolpróf, svona til að ég sæi svart á hvítu hvernig staðan væri og jú það er hægt. Eitthvað 6 mínútna próf sem ég fer þá í á morgun.
Annars kom verulega á óvart hvað vatnsleikfimin var erfið. Fyrir það fyrsta var ég hálf sjóveik í sundlauginni, með svima og skrítin yfir höfðinu. Svo vorum við nú aðallega að ganga fram og tilbaka með ýmsum tilbrigðum, en já það tók verulega í fætur og mjaðmir.

Dagurinn endaði á slökun og ég steinsofnaði, alveg búin á því, en mikið var það nú samt gott. Svo er ég sem sagt komin heim en flestir í hópnum (þetta eru 6 manns) ætla að gista á Kristnesi. Kannski geri ég það einhvern tímann eina nótt, bara svona til að prófa, en ég þarf jú líka að komast heim til að græja nesti fyrir næsta dag.
Jæja, ég er hætt þessu masi. Varð bara að koma þessu frá mér, hefði helst viljað hafa tölvu eða bók til að skrifa í í morgun, en hafði þá ekki neitt. Tek líklega með mér dagbók frameftir til að hafa þar, það er ágætt að geta losað sig við eitthvað af því sem fer í gang í höfðinu á manni í þessum nýju kringumstæðum.

Engin ummæli: