sunnudagur, 12. febrúar 2012

Smá stress í gangi hjá minni

Ég er að fara á Kristnes á morgun, og ég veit ekki af hverju en mér finnst það eitthvað svo stressandi tilhugsun. Það er ekki eins og ég búist við því að fólk verði eitthvað óalmennilegt og ég get ekki beint sett fingurinn á það hvað nákvæmlega er svona fyrirkvíðanlegt. Líklega bara það að þurfa að takast á við nýja hluti og fara út fyrir þægindarammann. Ég fékk dagskrá fyrir þessar tvær vikur og á morgun er dagskráin þannig að fyrst er tími hjá sjúkraþjálfara, svo er tími hjá félagsráðgjafa. Það er eitthvað sem allir þurfa að fara í, óháð því hvort manni finnst maður þurfa þess eða ekki. Svo er ganga úti, matartími og síðan vatnsleikfimi (hm, muna að taka með föt til að ganga í úti, og sundföt!). Loks er fræðsla fyrir slökun og dagurinn endar á slökun. Talandi um eitthvað sem ég þarf að taka með mér, þá þarf ég líka að taka með mér nesti því ekki get ég treyst á að fá mat sem ég má borða. Ætli ég taki ekki með mér salat og grænmetishristing. Líklega væri gáfulegt að græja það í kvöld því ég þarf að leggja af stað fram í Kristnes um áttaleytið í fyrramálið.

Annars er þessi annasama helgi víst loks á enda. Ég var jú að vinna í gær og svo vorum við í matarboði í gærkvöldi. Við fórum nú fyrst allra gestanna, eða fljótlega eftir miðnætti, því þá var ég orðin ansi framlág. Í morgun vaknaði ég um sjöleytið en lá sem fastast því ég var ennþá svo þreytt og þar að auki með höfuðverk. Um hálf níu tókst mér að sofna aftur sem betur fer og svaf til rúmlega tíu.

Svo leið dagurinn. Við Valur fórum í smá labbitúr að sækja bílinn en við skildum hann eftir hjá gestgjöfunum í gær. Svo tókum við smá rúnt að leita að myndefni fyrir mynd dagsins hjá mér. Þegar við komum heim fór hann fljótlega að stússast í bílskúrnum en hurðaropnarinn er bilaður. Kiddi kom að aðstoða hann og svo komu þeir inn í kaffi og þá hringdi ég og bauð Sunnu að koma líka. Á meðan þeir höfðu verið að stússast gerði ég hráköku og bauð uppá með kaffinu. Ég gerði reyndar líka súkkulaði. Það verður spurning hversu lengi skammturinn endist í þetta sinn, þar sem ég á mjög erfitt með að hætta eftir einn mola...

En já, núna er Valur að gera kvöldmat og spurning að frúin standi upp af sínum rassi og leggi á borð.

Engin ummæli: