Annars er þessi annasama helgi víst loks á enda. Ég var jú að vinna í gær og svo vorum við í matarboði í gærkvöldi. Við fórum nú fyrst allra gestanna, eða fljótlega eftir miðnætti, því þá var ég orðin ansi framlág. Í morgun vaknaði ég um sjöleytið en lá sem fastast því ég var ennþá svo þreytt og þar að auki með höfuðverk. Um hálf níu tókst mér að sofna aftur sem betur fer og svaf til rúmlega tíu.
Svo leið dagurinn. Við Valur fórum í smá labbitúr að sækja bílinn en við skildum hann eftir hjá gestgjöfunum í gær. Svo tókum við smá rúnt að leita að myndefni fyrir mynd dagsins hjá mér. Þegar við komum heim fór hann fljótlega að stússast í bílskúrnum en hurðaropnarinn er bilaður. Kiddi kom að aðstoða hann og svo komu þeir inn í kaffi og þá hringdi ég og bauð Sunnu að koma líka. Á meðan þeir höfðu verið að stússast gerði ég hráköku og bauð uppá með kaffinu. Ég gerði reyndar líka súkkulaði. Það verður spurning hversu lengi skammturinn endist í þetta sinn, þar sem ég á mjög erfitt með að hætta eftir einn mola...
En já, núna er Valur að gera kvöldmat og spurning að frúin standi upp af sínum rassi og leggi á borð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli