þriðjudagur, 7. febrúar 2012

Innihald eða útlit...

Já ég var eitthvað að nefna það við Val að enginn hefði sagt álit sitt á þessu nýja útliti, og þá vildi hann meina að ég væri alltof upptekin af útlitinu þegar það væri innihaldið sem skipti mestu máli. Hm, ég vona að það gildi þá bara um bloggið og ekki aðra hluti einnig. Kannski tengist það eitthvað ljósmynduninni að ég er orðin uppteknari af þessu sjónræna, en eins og ein í ljósmyndaklúbbnum sagði í gær, þá fer maður að horfa á allt "í gegnum linsuna" þegar maður er með ljósmyndadellu.

Gærdagurinn hjá mér var býsna þéttskipaður. Fyrst var ég að vinna til um hálf fjögur og svo fljótlega eftir að ég kom heim þá fór ég í blómabúð og svo í heimsókn til vinkonu minnar sem átti afmæli. Hjá henni var allt á hvolfi, enda eru þau í miðjum klíðum að skipta um eldhúsinnréttingu. Búin að rífa gömlu út en eiga eftir að setja þá nýju inn. Þau rákust líka á lekaskemmdir í vegg þegar gamla innréttingin var farin og það tefur aðeins verkið, því fyrst þarf að fá tjónamann til að líta á skemmdirnar og svo þarf að rífa viðkomandi veggpart og setja upp nýjan. Það var voða notalegt að hitta þessa vinkonu mína, en við hittumst svo alltof sjaldan, eins og tilfellið er almennt með mig og vinkonur mínar.

Eftir kvöldmat dreif ég mig svo niður á bókasafn, en þar var fundur í ljósmyndaklúbbnum. Ein okkar vinnur á bókasafninu og þess vegna hittumst við þar eftir lokun. Það er annars orðið smá vandamál með fundarstaði, því bæði erum við svo margar og erfitt að hittast á kaffihúsi þegar góð mæting er, og eins er oft svo skelfilegur hávaði á þessum kaffihúsum, og ég þoli það svo illa.

Ég var ekki komin heim fyrr en um tíuleytið, og eins og stundum vill verða þegar ég fer út eftir kvöldmat, þá gekk mér frekar illa að sofna. Ég verð svo upprifin. Mér gekk líka illa að sofna í fyrrakvöld, þannig að í morgun fann ég það vel á haus og skrokki að ég var ekki búin að fá næga hvíld. Fór nú samt í leikfimi og svo smá ljósmyndarúnt eftir leikfimina. Þar sem ég tók m.a. þessa mynd.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Varð aðeins að venjast nýja forminu, t.d. að smella á dagssetn. til að sjá allan textann. Eftir að hafa skoðað þetta finnst mér þetta mjög fínt. Þurfti líka aðeins að átta mig á því að þegar er ýtt á - add a comment - þá þarf að rúlla niður síðunni til að sjá glugga, en í eldri gerðinni kom hann sjálfkrafa upp. Takk fyrir bloggið og líka ljósmyndadagbókina þína sem mér finnst alveg frábær. Bestu kveðjur, Þórdís.

Nafnlaus sagði...

Viðbót. Sé núna þegar ég skoða síðuna eftir að ég setti inn comment að þá kemur glugginn upp neðst sem hann gerði ekki áður. Bara fínt. Þórdís.

Nafnlaus sagði...

Svo ég bæti nú öðru við, hvar er hægt að smella á ljósmyndadagbókina á nýja forminu. Það var áður vi.megin á gömlu síðunni? Takk, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Gallinn er sá að allir tenglarnir sem ég var með hægra megin á síðunni, þar á meðal tengillinn á ljósmyndadagbókina, duttu út við þessa breytingu. Eins er ekki hægt að skoða eldri færslur þarna hægra megin heldur. Og mér finnst líka smá galli að það þarf að smella á dagsetninguna (eða bara einhvers staðar í færsluna sjálfa) til að geta séð færsluna í heild. Þannig að þetta form er nú ekki gallalaust. Ég var komin á fremsta hlunn með að breyta þessu til baka í gamla útlitið í gær, og gæti enn farið svo að ég gerði það. Takk samt kærlega fyrir athugasemdirnar :) Og tengillinn á ljósmyndadagbókina er: http://www.blipfoto.com/gudnypalina

Anna Sæm sagði...

Nú er ég að prófa Flipcard og Date og líkar það bara nokkuð vel. Svo finnst mér Sidebar líka allt í lagi. En skil að þér finnist galli að tenglarnir hægra megin duttu út. Þannig að ég er allavega ekki að detta úr úr því að lesa bloggið þitt ;-)