þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Í garðinum við Kristnes

Shadows in the sun by Guðný Pálína
Shadows in the sun, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Annar dagurinn á enda og ekki sama dramatíkin hjá dömunni og í gær. Þetta var nú líka rólegri dagur og bar þar hæst skoðun hjá sjúkraþjálfara og svo vatnsleikfimina. Það vantar alveg vöðva í fæturnar á mér, það er alveg ljóst, svona miðað við hvað ég verð ofboðslega þreytt í fótunum af vatnsleikfiminni. Í gærkvöldi gat ég ekki sofnað fyrir verkjum í vinstra (vitlausa) fætinum eftir leikfimina en í dag er mér aðallega illt í hægri fætinum. En já ég er að venjast því að vera þarna og finnst ég ekki lengur svona týnd eins og í gær. Það er nú líka þannig að ég þekki annan hvern starfsmann þarna og þó það sé skrítið að vera komin í hlutverk "sjúklings" þá er það svo sem ósköp notalegt að hafa kunnugleg andlit. Það eru að minnsta kosti tvær konur sem ég vann með í heimahjúkrun veturinn '88-'89 og ein sem ég vann með í Selinu. Enn ein sem ég vann með þegar ég var sjúkraliðanemi og svo er sjúkraþjálfari sem ég var með í kórnum í fyrra. Einn iðjuþjálfinn er vinkona Sunnu svo ég þekki hana aðeins. Síðan kannast ég við læknana, læknaritarann, móttökuritarann og eflaust einhverja fleiri sem ég hef ekki hitt ennþá.

Ég sé það samt að þessar tvær vikur munu verða afskaplega fljótar að líða, og líklega frekar takmarkað sem maður nær að vinna upp á þeim tíma. En allt er betra en ekkert þegar maður er jafn lélegur og ég er.

Í dag var líka fyrirlestur um tímastjórnun og markmiðasetningu. Alltaf þarft að velta slíkum hlutum fyrir sér, enda kemur maður meiru í verk með góðu skipulagi. Ég er hins vegar ekki góð í því að setja mér markmið. Sérstaklega ekki lengri tíma markmið. Ég er meira með svona "hlaupandi" markmið, þ.e. skrifa allt niður á lista sem ég vil og þarf að gera á næstunni og fer svo í hlutina á listanum eftir því sem tími og aðstæður leyfa. En það væri ábyggilega hollt að horfa aðeins í eigin barm og velta því fyrir sér hvar maður vill vera staddur eftir t.d. 1 ár, 5 ár, 10 ár. Bæði í bókstaflegri merkingu (vil ég búa í sama húsinu, á sama staðnum) og eins varðandi það hvað maður vill vera að vinna, hvaða áhugamálum maður er að sinna, hvernig maður er að hugsa um heilsuna o.s.frv. Ég er snillingur í að koma mér hjá því að hugsa um svona hluti og læt líf mitt meira ráðast af tilviljunum. Nú er ég ekki að segja að það sé hægt að skipuleggja allt út í ystu æsar, og tel það heldur ekki eftirsóknarvert, en líklega sakar ekki að vera örlítið meðvitaðri um þá staðreynd að maður ræður satt best að segja ansi miklu um hlutina. En þá þarf maður líka að vita hvað maður vill - og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þá þarf að koma til ítarleg naflaskoðun og spurning hvort ég er tilbúin til þess. Hm, jæja ég er búin að bulla nóg í bili. En ég neyðist samt til að setja einhver markmið á blað fyrir næstu viku, svo það er eins gott að leggja heilann í bleyti.

3 ummæli:

Beta sagði...

Vona að allt gangi vel hjá þér á Kristnesi, þeim öndvegis stað. Svo held að ég að svona "markmiðssetning" sé ofmetin og komi rakleitt úr einhverri markaðs-sálfræði, en það er kannski bara af því að ég er sjálf tiltölulega metnaðarlaus;)

Anna Sæm sagði...

Gangi þér bara vel í þessu stelpa!! Kannski heyrumst við um helgina, kannski ekki. Baðið er alveg að klárast :-))))

Guðný Pálína sagði...

Takk kærlega báðar tvær :)

Hlakka til að fá að sjá Skype myndir af baðinu Anna :)