Við Valur gerðum góða ferð til Reykjavíkur. Við gistum á fínasta íbúðahóteli, nýlega uppgerðu á hinn smekklegasta hátt, og vel staðsettu. Það er við Hverfisgötu og þangað er afskaplega stutt að ganga á Laugaveginn og niður í bæ. Við vorum ekki með neina fyrirfram gefna dagskrá, enda var markmiðið fyrst og fremst að slappa af og njóta þess að vera í fríi. Þannig að dagarnir fóru að mestu í að rölta um miðborgina, versla aðeins, fara á kaffihús og út að borða.
Svo var okkur reyndar boðið í mat til Hjördísar og Sighvats, vinahjóna okkar sem fluttu frá Akureyri fyrir sjö árum síðan og við höfðum aldrei heimsótt þau á þeim tíma. Ég var líka með samviskubit yfir að hafa ekki farið í fimmtugsafmælið hennar Hjördísar í apríl s.l. en þá var ég hreinlega svo léleg til heilsunnar að ég treysti mér ekki. En sem sagt, við fórum í mat til þeirra og skoðuðum húsið sem þau fluttu inn í á síðasta ári. Það er ægilega gaman að koma inn í svona glæný hús, allt svo glansandi fínt. Það var ekki síðra að hitta þau tvö, og eftir matinn fórum við svo og heimsóttum Sólrúnu og Odd, önnur sameiginleg vinahjón sem einnig áttu heima hér á Akureyri, nema hvað það er enn lengra síðan þau fluttu suður. Og þar sem við Valur förum svo sjaldan suður höfum við nánast aldrei heimsótt þau heldur. Það er að segja, líklega einu sinni áður, sem er náttúrulega bara skandall. En ástæðan er líka sú að þegar við erum í Reykjavík þá leggjum við fyrst og fremst áherslu á að hitta ættingjana, foreldra Vals og bræður og mömmu og Ásgrím. Þau þó sjaldnar því yfirleitt stoppum við svo stutt að það gefst ekki nægur tími til að fara í allar þær heimsóknir sem maður vildi fara í.
Hm, þetta var nú aldeilis langloka hjá mér. Sprottin út úr vissri vanlíðan yfir því að í þetta sinn hittum við hvorugan bróður Vals og ekki fórum við nú heldur til Keflavíkur að heimsækja mömmu. Á móti kemur að við vorum nýlega búin að hitta þau, þegar þau komu norður í jarðarför í byrjun mánaðarins.
Við náðum sem sagt að slappa vel af í ferðinni og þrátt fyrir vissa ferðaþreytu kom ég endurnærð til baka. Það er samt gallinn við allar svona ferðir, að maður nær ekki að lifa nógu lengi á þeim. Fljótlega tekur daglega lífið við aftur, með allri sinni þreytu og streitu, og allt fer aftur í sama farveg. En það breytir því ekki að góðar minningar gleymast ekki.
Annars er það helst í fréttum að ég er búin að fá tíma í 2ja vikna prógram á endurhæfingardeildinni á Kristnesi. Ég veit nú ekki ennþá almennilega sjálf hvað þetta gengur út á, en markmiðið er að komast að því hvernig ástandið er á frúnni og hvað er hægt að gera til að bæta það. Dagskráin samanstendur af viðtölum, fræðslu og æfingum. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að vera búin að bíða eftir þessu í nærri heilt ár, þá stressaðist ég þvílíkt upp þegar búið var að ákveða dagsetningu á þetta, eða 13. febrúar.
Á morgun fer ég reyndar í viðtal við lækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfa og iðjuþjálfa (minnir mig) og er það undirbúningur fyrir það sem koma skal. Ætli þau vilji ekki hitta mig og taka púlsinn á mér (ekki kannski í bókstaflegri merkingu samt). Ég fór að hafa áhyggjur af því að ég væri nú alls ekki nógu slæm til að fá að koma þarna inn, en Valur var fljótur að spyrja hvort ég væri búin að gleyma því hvernig ég hefði verið undanfarnar vikur. Þar með stakk hann upp í mig. Ég finn það líka í leikfiminni hjá Eydísi að um leið og hún lætur okkur gera æfingar sem reyna á að hjartað dæli meira en venjulega, þá fer mér að líða illa og í þrígang hef ég þurft að setjast niður því ég fæ svima og hálfgerða ógleði. Þannig að það er alveg ljóst að mér veitir ekkert af ráðleggingum varðandi það hvernig ég get best reynt að koma mér í form aftur. Ef það er þá hægt þegar maður er alltaf svona þreyttur... Hehe, en nei ekkert svartsýnisraus, nú er það bjartsýnin sem gildir!