Þegar ég var krakki tók ég uppá því að vera hrædd við tannlækna. Ég var hjá þýskum tannlækni sem var orðinn frekar fullorðinn og talaði náttúrulega ekki fullkomna íslensku, en sennilega hefur það nú frekar verið umhverfið sjálft, lyktin og hljóðið í bornum ægilega sem orsakaði þessa hræðslu mína.
Einu sinni faldi ég mig þegar ferð til tannlæknisins var á dagskrá. Það átti nefnilega að draga úr mér tönn og ég ímyndaði mér að það væri varla gert án mikilla þjáninga. Minni mitt er nú reyndar frekar götótt þegar kemur að barnæskunni en ég er nokkuð viss um að hafa sloppið við tanndráttinn.
Hins vegar kárnaði nú gamanið þegar ég komst á unglingsárin, því þá fóru tennurnar að skemmast og ekki var lengur hjá því komist að fara til tannlæknis. Nú var sá gamli þýski hættur, svo nýr tannlæknir var fundinn. Sá hafði þann slæma vana að bora svo stórar holur fyrir fyllingarnar, að oftar en ekki fór hann of nálægt rótinni. Það leiddi síðan til tannrótarbólgu einhverjum vikum/mánuðum síðar, með meðfylgjandi sársauka og ótal tannlæknaheimsóknum þar sem við komandi tönn var rótardrepin og síðan fyllt í rótina. Meðan unnið var að því að drepa rótina þurfti ég að koma 2-3 sinnum, þar sem ég var deyfð og síðan var grófum nálum stungið niður í tannrótargöngin, og þær síðan dregnar fram og tilbaka meðan verið var að skrapa ræturnar burt. Á milli heimsókna var sett bráðabirgðafylling í tönnina og enn þann dag í dag fer um mig hrollur þegar ég hugsa um lyktina og bragðið af bráðabirgðafyllingum.
Á einhverjum tímapunkti þurfti að draga úr mér endajaxl og það gekk nú ekki þrautalaust fyrir sig. Eftir að hafa verið deyft mig sannkallaðri hrossadeyfingu, reyndi tannlæknirinn að draga tönnina úr, en hún var alveg pikkföst. Hann þurfti að beita öllum sínum kröftum og gera hverja tilraunina á fætur annarri áður en tönnin gaf sig. Ég man ekki betur en hún hafi brotnað og þá þurfti hann að draga brotin út.
Ég hafði líka dottið á rólustaur þegar ég var krakki og brotið út úr miðjunni á báðum framtönnunum. Þetta var svo sem ekkert óskaplegt lýti en tannlæknirinn vildi endilega setja postulínstönn í staðinn fyrir þá tönnina sem var verr brotin. Það þýddi ... að rótardrepa þurfti framtönnina og síðan skræla mesta partinn utan af henni, áður en fína postulínstönnin var límd utan um þennan litla staut sem eftir var. Því miður var þessi ágæta tönn alltof þykk og sat því framar en hinar tennurnar - en hvít var hún og fín, það var ekki af henni skafið.
Sem sagt, endalausar tannlæknaheimsóknir á unglingsárum, eða þannig upplifði ég það. Að lokum var ég orðin svo hvekkt á þessu öllu saman að ég hafði þróað með mér heljarinnar tannlæknaskrekk. Í framhaldinu liðu einhver ár þangað til ég fór næst til tannlæknis. Gallinn er bara sá, að þegar búið er að rótardrepa tennur, verða þær stökkar og fyllingarnar brotna frekar úr þeim. Sem er nákvæmlega það sem gerðist hjá mér.
Þegar ég var um tvítugt fann ég nýjan tannlækni. Þegar ég fór til hans í fyrsta sinn hélt ég heljarinnar ræðu yfir honum. Sagði að ég væri haldin tannlæknahræðslu og að hann yrði að útskýra jafnóðum fyrir mér allt sem hann væri að gera. Sem hann og gerði. Hann var líka mjög vandvirkur og gerði allt mjög vel, en því miður hefur verið endalaust vesen með tennurnar á mér í gegnum árin. Það er að segja, tennurnar sjálfar voru ekki að skemmast, heldur var alltaf að brotna út úr gömlum fyllingum, og já stundum fékk ég tannrótarbólgu og það hefur þurft að rótardrepa fleiri tennur.
Síðustu árin hafa tennurnar verið að mestu leyti til friðs og því kom það verulega á óvart þegar ég fór í síðustu ársskoðun, að það fannst skemmd milli tveggja jaxlna innst í efri gómi vinstra megin. Skemmdin sást bara á mynd en það þurfti náttúrulega að gera við hana, svo s.l. miðvikudag var ég eina ferðina enn mætt í tannlæknastólinn.
Tannlæknirinn deyfði mig í bak og fyrir (og já þó ótrúlegt megi virðast eru ennþá einverjar tennur sem ekki er búið að rótardrepa og þarf þess vegna að deyfa) og hófst síðan handa við viðgerðina. Hann hafði þó ekki unnið lengi þegar ég fann að ég var komin með mikinn verk í hægri kjálkann og það var sama hversu mikið ég reyndi að slaka á, ekkert virkaði, það var eins og ég væri með sinadrátt í kjálkavöðvanum. Þannig að þrátt fyrir deyfingu vinstra megin, þá var ég alveg að drepast hægra megin.
Og ég er ekki að grínast þegar ég segi að ég var gjörsamlega búin á því eftir tímann. Bæði andlega og líkamlega. Enda stóð ég hálf skjálfandi á fætur og sagði "Jæja, ég er þó lifandi ennþá" ... Ekki beint auðveldasti sjúklingur í heimi.
Síðan fór ég beinustu leið í Pennann og þar fékk ég mér kaffi og súkkulaði. Sat svo og las tímarit og slappaði af í dágóða stund, svona til að verðlauna sjálfa mig fyrir dugnaðinn ;-)