sunnudagur, 30. desember 2012

Hvert skal halda?


Um áramót staldrar fólk stundum við og veltir fyrir sér fortíð og framtíð. Hvaða leið á að velja á nýju ári o.s.frv. Ég hef nú ekki verið ein af þeim sem hef gert mikið úr áramótum og oftar en ekki bara göslast áfram án þess að velta áramótum mikið fyrir mér. Nú ber hins vegar svo við að ég er að spá og spekúlera í ýmis mál, án þess þó að ég vænti þess að fá nokkra ákveðna niðurstöðu á næstunni.

Vissar breytingar eru þó framundan hjá okkur, en þær felast einkum í því að Valur er búinn að segja upp vinnunni á FSA. Hann var orðinn ofboðslega þreyttur á að vinna vaktavinnu og kominn tími til að gera breytingar. Hugsanlega mun hann þó vinna þar eitthvað áfram en með öðru sniði en hingað til.

Hvað sjálfa mig snertir verð ég að viðurkenna að í kjölfar nýafstaðinnar jólatarnar í vinnunni, velti ég því æ oftar fyrir mér, hvernig ég geti náð að samræma betur vinnu og vefjagigt. Það hugsanaferli fór reyndar af stað þegar ég var á Kristnesi s.l. vor og sér ekki fyrir endann á því, enda engin einföld lausn í sjónmáli. En já já, koma tímar og koma ráð ;-)

Það væri alveg eftir mér að blogga aftur á morgun, en ef ekki þá óska ég bara lesendum þessarar síðu gleðilegs nýs árs og vona að nýja árið verði ykkur gæfuríkt.

miðvikudagur, 26. desember 2012

Annar í jólum - afslöppun er þema dagsins...

... og þema gærdagsins. Samviskubit lætur á sér kræla - ég verð jú að GERA eitthvað. En nei ég verð ekki að gera neitt. Nú má ég bara hvíla mig. Hvíld er góð. Ég hef sofið tíu tíma núna tvær nætur í röð + tekið lúr í sófanum að degi til. Þvegið þvott og lesið bækur.

Í gær las ég Undantekninguna eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Reyndi að treina mér hana. Les yfirleitt bækur í einum rykk en tókst að skipta henni niður í nokkra áfanga. Kláraði samt í gærkvöldi og varð hissa þegar bókin var búin. Hafði ekki áttað mig á því að það nálgaðist bókarlok og svo endaði hún í raun ekki. Það pirrar mig þegar bækur og kvikmyndir enda ekki. Það er að segja, allt í einu hættir frásagan bara og engin ákveðin lokaniðurstaða verður í tengslum við þau mál sem hvíla á sögupersónunni. En um leið er jú bók sem ekki endar, á vissan hátt meira í takt við lífið sjálft. O jæja.

Í gær og í dag gluggaði ég líka í bók um ljósmyndun, sem Hrefna gaf okkur Val í jólagjöf. Eins skoðaði ég bók sem Valur gaf mér í jólagjöf. Það er bók með myndum eftir barnapíuna og áhugaljósmyndarann Vivian Meier sem tók ógrynni af götu- og mannlífsljósmyndum meðan hún lifði, en sýndi engum myndirnar sínar. Það var ekki fyrr en eftir dauða hennar að maður að nafni John Maloof keypti kassa með filmum og myndum hennar á uppboði, og uppgötvaði hversu frábær ljósmyndari hún hafði verið.

Enn ein bókin sem ég hef aðeins kíkt í er Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson en hún var gjöf frá mér til Vals. Sem sagt, engin ástæða til að láta sér leiðast þrátt fyrir eilífðarafslöppun dagsins í dag og gærdagsins. Í gær drattaðist ég nú reyndar út að ganga einn lítinn hring í hverfinu en því var ekki að heilsa í dag. En svo er víst vinnudagur á morgun. Úff! Get ekki sagt að ég sé tilbúin til að fara að vinna aftur eftir þessa miklu törn en svo er samt ábyggilega líka gott að fara aðeins út úr húsi.

Annars áttum við hið besta aðfangadagskvöld. Valur eldaði tvíréttað (hamborgarahrygg og hangikjöt) og allir voru mjög afslappaðir en jafnframt hressir og kátir. Hér koma nokkrar myndir, bara svona til að sýna fjarstöddum ættingjum hvernig við lítum út ;-) Valur tók allar myndirnar (nema þær sem sýna hann sjálfan...) bara svo það sé nú alveg á hreinu.


Það eru nokkrir pottar sem þarf að nota þegar eldað er tvíréttað.


Hrefna lagði á borð og skreytti svona fallega. Mig langar að mála endavegginn í hlýjum gráum lit, en hef ekki ennþá komið því í verk að velja litinn.


Hrefna og Andri að bíða eftir því að borðhaldið hefjist. Ísak hljóp fram að sækja eitthvað.


Gamla sjálf, með blómkáls- og kasjúhnetu"mús" í skál. Hin fengu hefðbundna heimatilbúna kartöflustöppu, nammi namm, sem ég má víst ekki borða.


Ísak kominn að borðinu og allir tilbúnir að byrja að borða - nema ljósmyndarinn sem þurfti að smella af fleiri myndum ...


 ... og vera sjálfur með á mynd líka. Ennþá með sparisvuntuna á sér, sem Anna systir saumaði og gaf honum í jólagjöf fyrir löngu síðan.



Hér erum við búin að borða, og líklega búin að opna pakkana líka, en Ísak sótti Birtu til að hún fengi að vera aðeins með í partýinu. Og fær þar af leiðandi líka að vera með í þessari myndasyrpu.

P.S. Ég passaði mig sérstaklega að birta bara myndir af mér sem teknar voru fyrripart kvölds, á meðan ég hélt ennþá haus, hehe ;) Var orðin heldur sjoppuleg og þreytt þegar leið á kvöldið.

laugardagur, 22. desember 2012

Stund milli stríða


Mér tókst ekki að halda út ... hér kemur "Mikil vinna - mikil þreyta - mikið samviskubit yfir að gera ekkert heima" bloggfærsla. Skal samt reyna að vera ekki alltof leiðinleg...

En sem sagt, desember hefur flogið áfram og ýmissa hluta vegna þá hefur hann verið ennþá strembnari en venjulega. Ég hef að sjálfsögðu verið að vinna mikið, og þrátt fyrir að hafa reynt að skipuleggja frídaga inn í vinnuáætlunina, þá hefur gengið fremur illa að framfylgja þeirri áætlun.

Sjúkraþjálfarinn minn frá Kristnesi  kom í búðina á fimmtudagskvöldið þegar ég var að vinna, og ég sá það á henni að henni leist nú ekkert alltof vel á fyrrverandi sjúkling sinn. Eftir að hafa yfirheyrt mig um það hversu mikið ég væri að vinna, spurði hún "Og ætlar þú þá að vera fram á sumar að jafna þig?" Ég reyndi að klóra í bakkann og sagði" Tja vonandi ekki alveg svo lengi" en líklega hefur svar mitt ekki verið ýkja sannfærandi, svona miðað við þá staðreynd að ég var jú einmitt fram á sumar að ná mér eftir síðustu jólatörn. Enda sá ég það alveg á svipnum á henni. En sem verslunareigandi þá er ekki hægt að halda sig á hliðarlínunni í jólatörninni, það er bara ekki í boði.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Hrefna og Andri eru bæði komin heim í jólafrí og það er ósköp notalegt að hafa þau heima. Ísak er einnig kominn í jólafrí, Birta gamla heldur áfram að gleðja okkur með nærveru sinni, og Valur undirbýr jólin. Það er ekki ofsögum sagt, því ég geri bókstaflega ekkert hér á heimlinu sem telst til jólaundirbúnings.

Ég hef ekkert komist út að taka myndir undanfarið en tók myndina sem fylgir einn morguninn í síðustu viku. Þá komu nokkrir dagar í röð með svo ótrúlega fallegri morgun- og dagsbirtu, sem ég náði því miður ekki að fanga "á filmu". Stökk samt út á stétt einn morguninn og smellti þessari af fjólublárri dögun.

föstudagur, 14. desember 2012

Ertu bara alveg hætt að mæta í sund

eftir að þú misstir gluggann og Krúsa?
- Ha?
- Ertu bara alveg hætt að mæta í sund eftir að þú misstir gluggann og Krúsa?
- Ha? ....... U ....... Hvað áttu við?
- Hm, er ég að taka feil? Varst þú ekki alltaf í sundi einu sinni?
- U.. jú ... en hvaða glugga ertu að tala um?
- Já, voruð þið ekki alltaf að hanga í glugganum og tala við Krúsa?
........................ ( ég að hugsa ............... ) ..................
- Ó, þú meinar .. já nú skil ég hvað þú átt við, hehe ;-) Jú jú, alveg rétt hjá þér, við vorum stundum í glugganum. .......... En annars er ég ekkert hætt að fara í sund, var síðast í sundi í morgun.
- Já OK, ég fer alltaf á kvöldin, þess vegna hélt ég að þú værir hætt að mæta.
- Nei, nei, hef aldrei hætt því, tja nema meðan ég bjó í Noregi. Breytti bara um tímasetningu, finnst frábært að byrja daginn á því að fara í sund :-)
------------------------------------------------------------------------------------------

Ég átti nánast þessar orðréttu samræður við mann sem kom í Potta og prik fyrir ekki svo löngu síðan. Vá hvað ég var ekki fyrst að fatta hvað hann átti við með gluggann og Krúsa ...

En svo ég útskýri málið, þá var það þannig, að þegar ég var unglingur þá var ég sem sagt alltaf í sundi. Á tímabili æfði ég sund en það var nú ekki lengi, í mesta lagi tvo vetur held ég. Þegar ég hætti að æfa hélt ég áfram að mæta í laugina að kvöldi til. Á þeim tíma var sundlaugin hálfgerð félagsmiðstöð og þá voru jú engar tölvur og bara ríkissjónvarpið, svo afþreying var af skornum skammti, miðað við nú á dögum. Í sundið mætti ákveðinn kjarni unglinga sem héngu í heita pottinum, spjölluðu, hlustuðu á Lög unga fólksins, döðruðu pínu pons, já og bara nutu þess að hittast á hlutlausum stað og njóta samvista hvert við annað.

Þegar ég var svona ca. 13 ára þá var það þannig að eldri krakkarnir, þessi sem voru svona 15-17 ára, voru stundum að "hanga" inni hjá sundlaugarvörðunum. Aðstaðan sem þeir höfðu á þeim tíma var frekar bágborin, og eftirlitið fór fram í litlu herbergi með stórum glugga, þar sem útsýni yfir laugina var gott, og einnig var utangengt. Það þótti talsvert sport að fá að "hanga" í þessu litla herbergi og spjalla við sundlaugarverðina. Mér fannst dálítið eftirsóknarvert að komast þarna inn, því þannig sæu allir að ég væri "maður með mönnum".  Þegar ég varð eldri fór ég því að "laumast" inn í herbergi sundlaugarvarðanna, því þar var jú "aðal fólkið". Þar var jafnvel hægt að fá að sitja í gluggakistunni ef ég man rétt og horfa út í laugina og heita pottinn, og þá sáu náttúrulega allir sem í lauginni voru (og horfðu yfirhöfuð í rétta átt) að þessi stelpa var nógu mikið í náðinni til að fá að vera í glugganum.

Já ég veit, frekar fyndið svona í endurminningunni, en á þessum tíma var þetta fúlasta alvara. Sundlaugin var sá staður þar sem ég var á heimavelli, öfugt við t.d. skólann og Dynheima (þar sem böllin voru), en þar leið mér eins og belju á svelli.

OK þetta er sem sagt skýringin á glugganum og Krúsi var jú einn sundlaugarvarðanna á þessum tíma, en er löngu hættur að vinna í sundlauginni. Við hittumst nú reyndar enn þann dag í dag stundum í lauginni. Ég að synda og hann að fylgja drengjum í sund, en hann vinnur núna sem húsvörður í skóla og er greinilega stundum fenginn til að fylgja strákum sem þurfa liðveislu.

En já mér fannst ótrúlega fyndið að maðurinn sem kom í búðina til mín skyldi hafa munað eftir mér í glugganum, því í minningunni þá var það nú ekki svo oft sem ég sat þar. En eins og allir vita getur minnið svikið besta fólk :O)

----------------------------------------------------------------------------------------------
Eftirfarandi mynd fann ég inni á facebook síðu sem heitir "Brekkan fyrr og nú" en fólk hefur sett alls kyns myndir þar inn. Þessi hér virðist hafa verið skönnuð úr bók sem heitir "Akureyri: Blómlegur bær í norðri". Bókin er eftir Tómas Inga Olrich og myndirnar tók Max Schmidt. Myndin sýnir sundlaugina nákvæmlega eins og hún var þegar ég var krakki. Í dag er búið að bæta við hana og breyta heilmiklu. En glugginn "frægi" er sem sagt þessi stóri þarna á neðri hæðinni, lengst til vinstri.



þriðjudagur, 11. desember 2012

Nýtt bloggmet?


Hehe, eða þannig ... þetta er víst dæmigert fyrir mig. Annað hvort heyrist ekkert frá mér í langan tíma, eða ég er með ritræpu.

Eftir að hafa bloggað í morgun vann ég aðeins í pappírum, en sá svo að ef ég ætlaði að ná því að skreppa smá myndarúnt fyrir vinnu, yrði ég heldur betur að spýta í lófana. Sem ég og gerði. Skellti mér í gallann (hlífðarbuxur, lopapeysu, dúnúlpu, húfu,vettlinga og kuldaskó) og ók smá spotta fram í fjörð. Þar lagði ég bílnum á góðum stað og gekk niður að Eyjafjarðará, sem var reyndar að mestu leyti hulin ís. En morgunbirtan lýsti upp himininn þó ekki næði sólin upp fyrir fjöllin og það var svo notalegt að standa þarna í smá stund og smella af nokkrum myndum.

Fröken eirðarlaus

Það er eitt stórfurðulegt sem gerist þegar ég er á ákveðnu stigi í þreytukasti. Ég verð svo óskaplega eirðarlaus og hálf pirruð. Eins og t.d. núna. Þarf ekki að fara að vinna fyrr en kl. 14 (tja eða byrja á því að fara rúnt og sækja vörur fyrst) og ætti helst að slaka bara aðeins á, en nei nei, þá er mér það lífsins ómögulegt. Þannig að ... ætli ég drífi mig ekki bara út með myndavélina. Geri minnst af mér þannig ;-)

Annars vorum við að tala um það í leikfiminni í gær (vefjagigtarleikfimi hjá Eydísi Valgarðs sjúkraþjálfara) hvað við ættum það til að halda endalaust áfram, þar til við hrynjum, og skella skollaeyrum við öllum þeim einkennum sem segja okkur að stoppa. Og makarnir þurfa að horfa uppá okkur gera sömu mistökin aftur og aftur, enda margir farnir að skipta sér af og láta í sér heyra. "Ertu viss um að þetta sér góð hugmynd?" "Viltu nú ekki bara láta þetta eiga sig?" Heldurðu að þú ættir nokkuð að gera þetta núna?" Hehe, ég segi nú ekki einu sinni hvaða setningar Valur á það til að nota, hann getur verið býsna ákveðinn, svo ekki sé meira sagt.

Annars eru það jólagjafainnkaup sem eru næst á dagskrá. Á morgun er síðasti dagur til að senda til Norðurlandanna, og síðasti séns að græja þetta í dag. Úff, og ég ekki byrjuð...

mánudagur, 10. desember 2012

Aðeins að leika mér


Það er hægt að gera svo margt með þessum nýju ljósmyndaforritum. Hér tók ég eina mynd sem mér fannst ekki alveg vera að gera sig eins og hún kom "af skepnunni" og setti smá "effekta" á hana (afsakið slettuna, ég man ómögulega íslenska orðið yfir þetta). Ég er ekki vön að vinna myndirnar mínar mikið, eins og þeir vita sem fylgjast með blogginu, en það er allt í lagi að leika sér stundum ;o) Mér finnst þetta bara koma nokkuð skemmtilega út.

sunnudagur, 9. desember 2012

Góð ferð á Svalbarðseyri


Ég var að vinna í dag, en fyrst náði ég því að fara með Val yfir á Svalbarðsströnd í ca. klukkutíma eða ríflega það. Mér finnst alveg ótrúlega gott að fá súrefni og vera við sjóinn, það hefur svo góð áhrif á mig. Tók einhverjar myndir líka en það var nú eiginlega aukaatriði í þessu samhengi. Og þó, gott að geta sameinað útiveru og áhugamál. Eins og sést á þessari mynd þá var ekkert alltof bjart, en það var að birta yfir þegar við þurftum að fara. Vitinn stendur samt alltaf fyrir sínu sem ljósmyndaefni.

laugardagur, 8. desember 2012

Gömul og rispuð plata

Ég var að renna yfir gamlar bloggfærslur sem ég hef skrifað undanfarin ár, í desembermánuði. Þar kom fátt á óvart. Endalaus verkefni í vinnunni, yfirgengileg þreyta, samviskubit yfir því að taka ekki þátt í jólaundirbúningi á heimilinu ... Úff, ég er náttúrulega bara eins og biluð plata. Spurning að láta sér detta eitthvað annað í hug til að blogga um?

16 dagar til jóla



Ég er nú ekki að telja niður af því ég er svo mikið jólabarn... Eiginlega vildi ég óska þess að sumu leyti að það væru fleiri dagar til jóla og að í sólarhringnum væru aðeins fleiri tímar, en því er víst ekki til að dreifa.

Í dag átti ég frí að mestu leyti, nema hvað það sem átti að verða 10 mín. skrepp niður í vinnu varð að einum og hálfum tíma. Það var líka allt í lagi. En svo gerði ég heldur ekki meira í dag. Sem sagt - hefðbundinn laugardagur a la Guðný. Mig langaði að fara út að mynda en skyggnið var svo slæmt að ég fór ekki neitt. Svo í staðinn fyrir glænýja mynd, þá birti ég mynd sem ég tók síðast þegar ég fór út með myndavélina, eða þann 25. nóvember.

miðvikudagur, 5. desember 2012

Það var hörð barátta sem átti sér stað í morgunsárið


Baráttan sú fór fram í hjónarúminu að Stekkjargerði 7. Ekki þó á milli mín og eiginmannsins því hann var farinn í vinnuna. Nei, þetta var innri barátta hjá sjálfri mér og snérist hún um það hvort ég ætti að fara í sund eða ekki. Kominn miðvikudagur og ég ekkert búin að synda síðan ... tja... líklega síðasta föstudag. Á mánudaginn sleppti ég sundi af því ég fór í leikfimi en í gær var ég ógurlega þreytt og fór ekki í sund fyrir vinnu, svona eins og skipulagið mitt segir nú eiginlega til um að ég geri. Þannig að í dag var það að duga eða drepast. En úff, hvað ég var samt ekki að nenna á fætur og í sundið. Það helgaðist nú líka af því að ég svaf afspyrnu illa í nótt og var ennþá svo þreytt þegar ég vaknaði.

Sundið hafði betur, eftir hálftíma innri rökræður, og var ég komin í laugina ca. korter yfir átta. Það voru nú ekki margir að synda en ég hitti samt nokkrar skvísur sem ég þekki. Þó samræðurnar séu hvorki miklar né innihaldsríkar, þá finnst mér svo notalegt að byrja daginn á "kunnuglegu stefi" og fór ánægð heim. Það skyggði samt aðeins á gleðina við sundferðina að ein starfsmanneskjan var býsna höstug og leiðinleg við litlar skólastelpur sem henni fundust ekki klæða sig nógu hratt. Mér finnst alltaf svo óþægilegt að hlusta á fólk rífast og skammast.

Annars er bara mikið fjör í vinnunni þessa dagana og þó maður striki yfir einhver verkefni á "þarf að gera" listanum þá bætast alltaf ný við. Þannig að maður líkist einna helst hamstri í hlaupahjóli ;-) En þetta er líka skemmtilegt og ég er voða þakklát öllu því fólki sem velur að kaupa jólagjafirnar í Pottum og prikum. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur að jólavertíðin komi vel út, eins og alla verslunareigendur.

Svo eru Litlu jól hjá ÁLFkonum í kvöld. Það verður án efa skemmtilegt. Ég á að koma með salat en við komum allar með eitthvað á hlaðborðið. Svo á ég víst eftir að kaupa smá gjöf, oh, hefði þurft að gera það þegar ég var í vinnunni í dag. Og talandi um vinnuna þá var ég í gærdag á leiðinni niður á Flytjanda að sækja vörur, þegar ég sá að birtan (sólsetrið) var svo fallegt í suðri. Aldrei þessu vant var ég með myndavél í töskunni, svo ég stökk út úr bílnum og smellti af einni mynd (tja þær voru reyndar fjórar en þessi var skást ;)

þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Ljósmyndir í óreiðu


Í síðustu viku hafði samband við mig kona og spurði hvort ég ætti einhverjar vetrarmyndir frá Íslandi. Þessi kona hannar ofboðslega fallegar vörur, sem hún lætur framleiða fyrir sig í Finnlandi. Nú er hún á leiðinni til Finnlands þar sem hún mun halda sýningu á vörunum sínum hjá framleiðandanum.  Sá vildi endilega fá íslenskar vetrarmyndir til að nota við kynningu á vörunum, og þá datt henni í hug að athuga hvort ég ætti einhverjar myndir sem hægt væri að nota.

Ég varð dálítið upp með mér af því að vera spurð, og lagðist í það verkefni að skoða myndir síðustu 2-3ja ára. Það reyndist töluvert meira verk en ég hafði gert mér grein fyrir. Aðallega vegna þess að í myndasafninu mínu eru um 18 þúsund myndir og þær eru ekki nógu vel flokkaðar hjá mér. Það er að segja, myndaforritið gerir kleift að merkja hverja mynd með lykilorðum, s.s. landslag, vetur, sól, frost, Akureyri, o.s.frv. en ég hef bara alls ekki verið nógu dugleg að nýta mér þennan möguleika.

Síðustu tvö árin eru reyndar svona þokkalega vel merkt með lykilorðum, en ekki eldri myndir sem ég tók áður en ég fékk þetta forrit. Svo er eiginlega málið að maður þarf að vera svakalega duglegur að láta sér detta í hug nógu mörg lykilorð til að merkja með, til að auka líkurnar á því að finna myndir sem annars gleymast bara í öllu farginu.

Eins þarf ég að vera duglegri að setja myndir sem ég er búin að vinna, í möppur þar sem ég get gengið að þeim, í staðinn fyrir að hafa allar myndir, bæði unnar og óunnar í einni kös. Ég sé að ég þarf að vanda mig betur í þessu með skipulagningu, merkingu og flokkun ljósmynda. Sem er bara hið besta mál. Eftir dálitla yfirlegu fann ég einhverjar vetrarmyndir og lét hana hafa, svo er allt annað mál hvort þær henta og verða yfirhöfuð notaðar.

Þetta var svona nokkurn veginn það sem helgin fór í hjá mér. Ekki að ég hafi eytt allri helginni í þetta samt, heldur var Fröken Þreyta í heimsókn ásamt Herra Leiða og voru þau býsna þaulsetin. Það er erfitt að gera nokkuð með svo uppáþrengjandi gesti í heimsókn. Ég fór þó út á Leirur í ca. hálftíma á sunnudeginum og tók nokkrar myndir, auk þess sem ég hljóp inn í Rúmfatalagerinn þar sem ég keypti hvítt skrautband. Bandið notaði ég til að vefja utan um "heimagerða" jólaskrautið sem fer í stofugluggana.

Fyrir jólin í fyrra kom í ljós að fallegu jólakransarnir sem við keyptum á sínum tíma í Ikea, voru ónýtir (ljósin dauð). Ég klippti þá ljósadótið utan af vírakransinum sjálfum, keypti ljósaseríur sem ég fann á afslætti og vafði þeim utan um. Var samt ekki nógu ánægð með þetta af því kransarnir voru svo "berir" eitthvað. En um daginn sá ég hvítt skrautband í Rúmfó sem mér datt í hug að vefja utan um kransana til að gera þá hlýlegri. Svo fann ég hvítar slaufur í Pier sem ég set efst innan í hvern krans, og er þá bara nokkuð sátt. Á reyndar ennþá eftir að græja síðasta kransinn ... svo framtakssemin er nú ekki meiri en það  ;-)

En í allri þessari myndaleit um daginn fann ég eina gamla sem mér fannst svo falleg. Ég leita alltaf uppi sólina á þessum myrkasta tíma ársins og þessi mynd er tekin við sólarupprás kl. 12.06 þann 22. nóvember 2010.

sunnudagur, 25. nóvember 2012

Mynd dagsins


OK ég ætlaði eiginlega að sleppa því að blogga þessa helgina, sem helgast af því að mér dettur ekki neitt í hug nema væl ... En í dag fór ég sem sagt út í smá stund, leitaði og fann örlítinn sólarglampa á Leirunum. Himinn og haf renna nánast saman í þessari óræðu birtu, eins og sjá má.

laugardagur, 24. nóvember 2012

Sigurður systursonur minn á afmæli í dag


og af því tilefni hefur mér verið töluvert hugsað til hans í dag. Sigurður býr í Noregi svo við hittumst því miður ekki oft, en þegar hann var yngri kom hann árlega til Íslands. Fyrst með mömmu sinni en síðar (í nokkur sumur) einn. Það var voða gaman að fá hann og þeir Ísak voru alltaf svo góðir félagar.

Í einhverju nostalgíukasti fór ég að skoða gamlar myndir í dag og leitaði að myndum þar sem Sigurður kæmi við sögu. Fann meðal annars þessa hér, sem sýnir þá frændur að leika sér úti í garði. Líklega árið 2005 eða 2006. Valur tók myndina af þeim, enda mun duglegri en ég að taka myndir af atburðum í daglega lífinu. Sigurður til vinstri og Ísak til hægri.

Svo hringdi ég til Noregs og spjallaði við afmælisbarnið í kvöld. Hann er ótrúlega seigur að tala íslenskuna, þrátt fyrir að hafa alist upp í norskumælandi umhverfi og aðeins verið hér á landi í eina til tvær vikur á ári.

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

Tannlæknaraunir


Þegar ég var krakki tók ég uppá því að vera hrædd við tannlækna. Ég var hjá þýskum tannlækni sem var orðinn frekar fullorðinn og talaði náttúrulega ekki fullkomna íslensku, en sennilega hefur það nú frekar verið umhverfið sjálft, lyktin og hljóðið í bornum ægilega sem orsakaði þessa hræðslu mína.

Einu sinni faldi ég mig þegar ferð til tannlæknisins var á dagskrá. Það átti nefnilega að draga úr mér tönn og ég ímyndaði mér að það væri varla gert án mikilla þjáninga. Minni mitt er nú reyndar frekar götótt þegar kemur að barnæskunni en ég er nokkuð viss um að hafa sloppið við tanndráttinn.

Hins vegar kárnaði nú gamanið þegar ég komst á unglingsárin, því þá fóru tennurnar að skemmast og ekki var lengur hjá því komist að fara til tannlæknis. Nú var sá gamli þýski hættur, svo nýr tannlæknir var fundinn. Sá hafði þann slæma vana að bora svo stórar holur fyrir fyllingarnar, að oftar en ekki fór hann of nálægt rótinni. Það leiddi síðan til tannrótarbólgu einhverjum vikum/mánuðum síðar, með meðfylgjandi sársauka og ótal tannlæknaheimsóknum þar sem við komandi tönn var rótardrepin og síðan fyllt í rótina. Meðan unnið var að því að drepa rótina þurfti ég að koma 2-3 sinnum, þar sem ég var deyfð og síðan var grófum nálum stungið niður í tannrótargöngin, og þær síðan dregnar fram og tilbaka meðan verið var að skrapa ræturnar burt. Á milli heimsókna var sett bráðabirgðafylling í tönnina og enn þann dag í dag fer um mig hrollur þegar ég hugsa um lyktina og bragðið af bráðabirgðafyllingum.

Á einhverjum tímapunkti þurfti að draga úr mér endajaxl og það gekk nú ekki þrautalaust fyrir sig. Eftir að hafa verið deyft mig sannkallaðri hrossadeyfingu, reyndi tannlæknirinn að draga tönnina úr, en hún var alveg pikkföst. Hann þurfti að beita öllum sínum kröftum og gera hverja tilraunina á fætur annarri áður en tönnin gaf sig. Ég man ekki betur en hún hafi brotnað og þá þurfti hann að draga brotin út.

Ég hafði líka dottið á rólustaur þegar ég var krakki og brotið út úr miðjunni á báðum framtönnunum. Þetta var svo sem ekkert óskaplegt lýti en tannlæknirinn vildi endilega setja postulínstönn í staðinn fyrir þá tönnina sem var verr brotin. Það þýddi ... að rótardrepa þurfti framtönnina og síðan skræla mesta partinn utan af henni, áður en fína postulínstönnin var límd utan um þennan litla staut sem eftir var. Því miður var þessi ágæta tönn alltof þykk og sat því framar en hinar tennurnar - en hvít var hún og fín, það var ekki af henni skafið.

Sem sagt, endalausar tannlæknaheimsóknir á unglingsárum, eða þannig upplifði ég það. Að lokum var ég orðin svo hvekkt á þessu öllu saman að ég hafði þróað með mér heljarinnar tannlæknaskrekk. Í framhaldinu liðu einhver ár þangað til ég fór næst til tannlæknis. Gallinn er bara sá, að þegar búið er að rótardrepa tennur, verða þær stökkar og fyllingarnar brotna frekar úr þeim. Sem er nákvæmlega það sem gerðist hjá mér.

Þegar ég var um tvítugt fann ég nýjan tannlækni. Þegar ég fór til hans í fyrsta sinn hélt ég heljarinnar ræðu yfir honum. Sagði að ég væri haldin tannlæknahræðslu og að hann yrði að útskýra jafnóðum fyrir mér allt sem hann væri að gera. Sem hann og gerði. Hann var líka mjög vandvirkur og gerði allt mjög vel, en því miður hefur verið endalaust vesen með tennurnar á mér í gegnum árin. Það er að segja, tennurnar sjálfar voru ekki að skemmast, heldur var alltaf að brotna út úr gömlum fyllingum, og já stundum fékk ég tannrótarbólgu og það hefur þurft að rótardrepa fleiri tennur.

Síðustu árin hafa tennurnar verið að mestu leyti til friðs og því kom það verulega á óvart þegar ég fór í síðustu ársskoðun, að það fannst skemmd milli tveggja jaxlna innst í efri gómi vinstra megin. Skemmdin sást bara á mynd en það þurfti náttúrulega að gera við hana, svo s.l. miðvikudag var ég eina ferðina enn mætt í tannlæknastólinn.

Tannlæknirinn deyfði mig í bak og fyrir (og já þó ótrúlegt megi virðast eru ennþá einverjar tennur sem ekki er búið að rótardrepa og þarf þess vegna að deyfa) og hófst síðan handa við viðgerðina. Hann hafði þó ekki unnið lengi þegar ég fann að ég var komin með mikinn verk í hægri kjálkann og það var sama hversu mikið ég reyndi að slaka á, ekkert virkaði, það var eins og ég væri með sinadrátt í kjálkavöðvanum. Þannig að þrátt fyrir deyfingu vinstra megin, þá var ég alveg að drepast hægra megin.

Og ég er ekki að grínast þegar ég segi að ég var gjörsamlega búin á því eftir tímann. Bæði andlega og líkamlega. Enda stóð ég hálf skjálfandi á fætur og sagði "Jæja, ég er þó lifandi ennþá" ... Ekki beint auðveldasti sjúklingur í heimi.

Síðan fór ég beinustu leið í Pennann og þar fékk ég mér kaffi og súkkulaði. Sat svo og las tímarit og slappaði af í dágóða stund, svona til að verðlauna sjálfa mig fyrir dugnaðinn ;-)

mánudagur, 19. nóvember 2012

Stundum verður maður að játa sig sigraðan


og stundum er það bara allt í lagi.

Í kvöld sat ég við tölvuna að skoða vöru- og verðlista. Klukkan var rúmlega hálf níu og Valur hafði skroppið í Pennann (eða Bókval eins og hann og fleiri kalla verslunina ennþá þrátt fyrir eigenda- og nafnabreytingar). Mér fannst hann vera nýfarinn en svo var hann skyndilega kominn heim aftur. Hafði hann þá séð auglýsta tónleika með Jónasi Sig og Ómari Guðjóns sem vera áttu á Græna hattinum kl. 21 í kvöld. Valur ákvað að skella sér á tónleikana, og ég var voða ánægð fyrir hans hönd. Byrjaði svo að spá og spekúlera, hm, kannski ég hefði nú gaman af því líka að lyfta mér aðeins upp. Það er orðið frekar langt síðan við höfum farið eitthvert út að kvöldi til. Jú ég fer bara með honum!

Ég skipti um föt í hvelli og við drifum okkur síðan niður eftir. Þeir félagar voru ekki byrjaðir að spila þegar við komum, en komu á sviðið skömmu síðar. Þá kom fljótlega í ljós að það sem ég hafði haldið að væru frekar rólegir tónleikar með kassagítar, voru það hreint ekki. Það er að segja, það var mikið um ákaft trommuspil, gítar og bassi voru tengd við rafmagn, og tónlistin var mjög hátt spiluð. Sem var allt í lagi fyrst í stað en svo fór mitt gamalkunna hávaða-óþol að segja til sín. Og almennir vefjagigtarverkir í skrokknum líka. Þannig að ég átti orðið erfitt með mig og að sjálfsögðu sá Valur það strax, þó ég reyndi að bera mig vel. Hann er farinn að þekkja svo vel inná mig og mín þreytu- og vanlíðunareinkenni.

Þeir félagar tóku sér hlé eftir ca. klukkutíma og það varð úr að þá fór ég bara heim. Valur varð eftir og annað hvort sæki ég eða Ísak hann á eftir. Það er samt alltaf gaman að fara á "live" tónleika. Og mig langar að fara að læra á gítarinn minn!

sunnudagur, 18. nóvember 2012

Búið að vera brjálað að gera


og enginn tími til að blogga... Tja, líklega hefði ég nú haft tíma til þess, svona strangt til tekið, en það var samt ekki efst í forgangsröðinni. 

Þar sem september og október voru svo rólegir í búðinni, höfðum við Sunna reynt að halda að okkur höndum við að panta vörur, enda þarf víst að vera hægt að borga fyrir þær líka. Afleiðingin er sú að núna sjáum við ekki fram úr verkefnum sem tengjast því að panta vörur og taka þær upp.

Við erum að skipta við marga heildsala (eða birgja eins og þeir kallast víst núna) og það er alveg hreint ofboðslega tímafrekt að fara í gegnum vöru- og verðlista og spá og spekúlera hvað eigi að panta, í hve miklu magni o.s.frv. Það verkefni mun halda áfram fram að jólum, því við viljum jú helst bara panta eftir því sem vörurnar seljast, til að sitja ekki uppi með mikið magn af óseldum vörum eftir jólin. 

Til að kóróna ástandið þá eru líka skil á virðisaukaskatti í byrjun desember, svona eins og maður hafi ekki nóg annað að gera ... Þannig að í síðustu viku var ég flest kvöld að færa bókhald, eftir langa daga í vinnuni. 

Enda var ég komin á hálfgerðan yfirsnúning. Ég fann það vel á föstudagskvöldið. Þann dag hafði verið sérlega mikið að gera í vinnunni, það voru margir kassar af vörum sem þurfti að taka upp úr, + afgreiða viðskiptavini + panta vörur + taka til og fara með sendingar á pósthúsið. Eftir vinnu fór ég í kvennaklúbb en náði ekki að slaka á þar og njóta félagsskaparins, þrátt fyrir hin bestu skilyrði. Við hittumst í Café Björk í Lystigarðinum og þar var enginn nema við, svo það var afskaplega notalegt. Um kvöldið horfðum við Valur á einhvern þátt í sjónvarpinu og hefði allt verið með felldu hefði ég verið orðin þreytt og syfjuð um hálf ellefu leytið. En þá var ég hins vegar alveg glaðvakandi og greinilega í einhverju adrenalín-rússi. Mér tókst nú samt að sofna um miðnættið en var glaðvöknuð kl. 7 í gærmorgun. 

Þá fór ég að færa bókhald en svo um hálf ellefu fórum við Sunna niður í búð að setja upp smá jólaskraut. Hún reyndar sá nú mest um það, ég snérist í kringum hana, hjálpaði smá til og kláraði líka að koma einhverjum vörum inn í sölukerfið. Þegar hér var komið sögu fór allur hamagangur vikunnar að segja til sín, og ég fann að ég var að verða stjörf af þreytu. Ég var komin heim aftur um hálf tvö og gerði ekki neitt meira í gær. Það var bara sófinn (þar sem ég sofnaði eftir kaffið) og tölvan og svo sjónvarpið í gærkvöldi. Algjörlega búin á því, sú gamla. 

Góðu fréttirnar eru samt þær að ég steinsvaf í alla nótt og er þar að auki langt komin með að færa bókhaldið, svo þetta er allt á réttri leið :-)

Annars heldur bara áfram að snjóa hér á Akureyrinni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem ég tók í ljósaskiptunum núna í morgun.


sunnudagur, 11. nóvember 2012

Hin ágætasta helgi brátt að baki


Mér finnst ég vera búin að gera eitthvað svo óvenju mikið undanfarið. Þessi aukni dugnaður hlýtur að tengjast þeirri staðreynd að ég er loks laus við pestina sem var að hrjá mig. Það tók mig alveg 3-4 vikur og ég segi nú bara "farið hefur fé betra" ;-)

En já það er loksins allt að fara á fullt í vinnunni, sem er frábært en þó pínu oggolítið erfitt... Það er að segja, ég vil jú helst að það sé brjálað að gera hjá okkur, því þegar maður er búinn að fjárfesta í einu stykki verslun, þá vill maður helst að reksturinn gangi vel. Á hinn bóginn - þá leiðir meiri vinna til meiri þreytu, og sú gamla má ekki alveg við því. Þannig að þetta er svona pínulítið súrt-sætt dæmi. Ég var t.d. að vinna í gær (laugardag) frá 13-17:20 og settist ekki niður nema í 5 mín. en var annars á fullu allan tímann. Í dag hefði ég átt að eiga frí, en það var svo mikið að gera á tímabili að það var of mikið fyrir eina manneskju, svo ég fór niður eftir og var þar í ca. 1,5 tíma. Ástandið hafði nú reyndar lagast mikið þegar ég mætti á svæðið, en það eru einkum innpakkanir sem stífla afgreiðsluna þegar bara ein er að vinna.

Í viðbót við aukna vinnu (við vorum á fullu að panta + taka upp vörur mest alla síðustu viku) þá fór ég á fund í ljósmyndaklúbbnum s.l. miðvikudagskvöld, og eins og alltaf þá var það mjög gaman. Þetta eru svo ótrúlega hressar skvísur og mér finnst ég vera sérlega heppin að vera í þessum félagsskap. Eins og staðan er í dag þá eru ekki fleiri konur teknar inn, því það verður erfitt með fundarstaði ofl. ef við verðum fleiri en 18. Það er ekki alltaf pláss á kaffihúsi fyrir allan þann fjölda, ef allar mæta.

Í síðustu viku hitti ég líka tvær góðar vinkonur mínar, þær Unni og Heiðu. Við höfum þekkst í bráðum 30 ár, kynntumst þegar við vorum allar að vinna sem sjúkraliðar í Selinu, sem var þá hjúkrunardeild fyrir aldraða. Þrátt fyrir að mislangur tími líði milli þess sem við hittumst, þá er það alltaf eins og við höfum hist í gær, og mér þykir óskaplega vænt um þær báðar.

Eftir afskaplega góðan nætursvefn (svaf eins og steinn til kl. 9.30, geri aðrir betur) og morgunmat, fórum við Valur út að taka myndir. Fyrst vorum við niðri í bæ en kíktum síðan aðeins á Leiruveginn. Þar var reyndar skelfilega kalt og mig langaði í heita og góða súpu, svo við enduðum í kaffihúsinu í Lystigarðinum. Því miður var aðeins rjómalögðu sveppasúpa í boði og hana gat ég jú ekki borðað, en við fengum okkur þá bara kaffi og köku í staðinn. Það var voða notalegt að sitja þarna í smástund og slaka á. Fyrst vorum við ein en svo bættist við ein fjölskylda og það fyndna var að þau búa hér í sömu götu og við.

Í dag spjallaði ég líka við Önnu systur á Skype, því snilldarforriti. Þar að auki er ég nýlega búin að heyra í mömmu, Hrefnu og Andra, og það verður að segjast eins og er, að mér líður alltaf betur ef allt gengur sinn vanagang hjá fólkinu mínu. Ekki verra að fá að heyra í því endrum og sinnum, hehe...

Myndi dagsins er af Menningarhúsinu Hofi, hinu nýja kennileiti Akureyrar. Sólin hafði troðið sér í gegnum smá skýja-gat og speglaðist akkúrat í stóra glugganum sem snýr í suður. Síðan speglaðist jú Hof líka í sjónum að hluta til, svo það voru alls kyns speglanir í gangi ;o) Ég var með svo flotta linsu í láni hjá Val, 35 mm. Zeiss linsu og myndin þar af leiðandi alveg kýrskýr og tær.

Segjum þetta gott í bili, sjáumst!

sunnudagur, 4. nóvember 2012

Öll él styttir upp um síðir


Svona leit gatan okkar út í morgun. Eftir nokkurra daga hríðarbyl sáum við loks til sólar á ný. Og mikið sem það var ljúft. Ég var orðin hálf pirruð á þessu óveðri. Ein ástæðan var reyndar sú að í vondu veðri fer fólk ekki að versla, og mér leiðist svo óskaplega í vinnunni þegar viðskiptavinina vantar.

Á föstudaginn fór ég í kvennaklúbb. Við vorum þrjár sem skelltum okkur á kaffihúsið í Hofi og það var ósköp notalegt að sitja þar inni í hlýjunni og spjalla meðan norðanstórhríð geisaði fyrir utan. Valur hló nú reyndar að mér það kvöld. Þá hringdi bróðir hans að sunnan og ég sagði honum að það væri ekkert sérstaklega mikill snjór hér á Akureyri. Hefði hann hringt í morgun, hefði ég líklega sagt akkúrat hið gagnstæða. Í gær hafði snjóinn fest utan á alla glugga sem snéru í norður og austur, og svona leit orkidean í eldhúsglugganum út með þennan nýja hvíta bakgrunn.



Í gær var ég í fríi en var lúin og gerði ekkert af viti hér heima við. Valur lagaði til í skrifstofunni sinni, auk þess að moka helling af snjó, elda mat og vera á bakvakt í vinnunni. Enginn leti hjá honum frekar en fyrri daginn. Ég hins vegar lufsaðist bara á milli herbergja og horfði á hluti sem mig langar til að gera - en það er víst ekki nóg að horfa á þá ... Til dæmis lopapeysan mín sem ég er búin með ermar og bol, en hef mig ekki í að halda áfram með. Einmitt núna er jú þörf á því að fá nýja hlýja peysu. En ég á nú líka fínu peysuna sem Anna systir prjónaði einu sinni á mig og gaf mér óvænt. Er búin að vera töluvert í henni undanfarið.



Í morgun fórum við Valur svo smá ljósmyndarúnt en eins og svo oft þegar ég hef ekki tekið myndir í einhvern tíma, þá fundust mér allar myndirnar misheppnaðar. Við fórum í Lystigarðinn og klofuðum snjóinn þar og þrátt fyrir allt, þá var alveg dásamlegt að komast út og fá súrefni og sól beint í æð. Það var líka allt svo kyrrt og hljótt þar, enda kaffihúsið lokað vegna snjóa.



Svo fórum við líka í dag og kíktum á ljósmyndasýningu ÁLKU í Hofi. Ætluðum að fá okkur kaffi í leiðinni en þá var kaffivélin biluð, svo ekkert varð úr þeirri fyrirætlan. En kaffið heima  stóð vel fyrir sínu í staðinn og meira að segja til súkkulaðihrákaka síðan í gær (sem við Valur gerðum í sameiningu). Hehe, þarna fattaði ég að ég gerði alveg tvo hluti í gær, þ.e. ég fór og tók bensín á bílinn og gerði köku ;O)

Læt ég hér með þessu kellingabloggi lokið.

fimmtudagur, 1. nóvember 2012

Hvað er í gangi hjá gömlu?

Í gærkvöldi ætlaði ég aldrei að geta sofnað en hef sennilega verið sofnuð milli hálf eitt og eitt. Nema hvað, hrekk svo upp úr fastasvefni klukkan tvö og var glaðvakandi skömmu síðar. Var illt í maganum, með hraðan og óreglulegan hjartslátt, þreytuverki í fótunum, höfuðverk og verki "innaní" augunum, svo eitthvað sé nefnt. Ég sá fljótt að eina ráðið í stöðunni væri að fara fram og taka verkjatöflur, sem ég og gerði, en það tók samt kroppinn á mér u.þ.b. klukkutíma að róa sig niður.

Þegar hér var komið sögu var ég reyndar orðin glorhungruð, og skrölti fram í eldhús þar sem ég smurði mér brauð og borðaði það, en fór svo fljótlega aftur inn í rúm. Þá var heilinn á mér hins vegar kominn á fullt og engin ró og friður þar á bæ.

Ég tók það til bragðs að hlusta á slökun sem ég er með á ipod (svo leiðinleg og svæfandi karlmannsrödd sem talar að ég taldi að það hlyti að virka) og það bar árangur fyrir rest, en samt ekki fyrr en einhvern tímann um hálf fimm leytið. Vá hvað ég var samt orðin pirruð og leið á því að liggja í rúminu og bylta mér.

Svo vaknaði ég næst um hálf átta. Ísak átti að mæta í skólann kl. 8.30 og ég fór fram til að tékka á því hvort hann væri vaknaður. Sá ljós inni hjá honum og spurði hvort hann væri vaknaður. Jú jú hann var það. Þar sem ég hafði nú ekki sofið nema ca. fjóra tíma í allt í nótt, ákvað ég að leggja mig aftur. Sofnaði en hrökk upp klukkutíma síðar og fannst þá undarlegt að ég hafði ekkert heyrt meira í Ísaki. Hann hafði náttúrulega steinsofnað aftur, svo ég vakti hann og skutlaði honum svo í skólann.

 Næst á dagskrá hefði átt að vera leikfimi kl. 9.30 en mér leið eins og ég hefði orðið undir valtara, svo ég gat ekki hugsað mér að fara. Var samt lengi að ákveða hvað ég ætti að gera, en þar sem hjartsláttartruflanir eru enn að hrjá mig, ákvað ég að vera heima. Í fyrravetur fékk ég einu sinni hálfgert aðsvif í leikfiminni, þegar ég var í svipuðu ástandi og núna, og ég hef engan áhuga á svoleiðis uppákomu aftur. Ekki þar fyrir, það var ekki nein svakaleg uppákoma, ég bara settist mjúklega á gólfið þegar ég fann að ég var að verða eitthvað skrítin.


En já, vá hvað þetta var nú eitthvað leiðinlegur pistill hjá mér. Til að lífga aðeins uppá hann kemur hér litadýrð mikil... Ég fór nefnilega með myndavélina með mér í vinnuna í gær og reyndi að taka myndir af litríkum vörum sem fást hjá okkur. Þær eru reyndar miklu miklu fleiri, en hér er smá sýnishorn.