miðvikudagur, 28. september 2011

Í gærkvöldi bjó ég til morgunverðar-múslí

Og að sjálfsögðu samkvæmt öllum nýjustu upplýsingum um það hvað ég má og má ekki borða. Það átti nú reyndar að vera haframjöl en því sleppti ég. Þannig að í þetta fór: Kókosflögur, cashew hnetur, valhnetur, möndlur, sólkjarnafræ, graskersfræ og sesamfræ. Kryddað með vanilludufti, múskat og salti. Hrært saman við kókosolíu, hnetusmjör og sætuefni. Allt sett inn í ofn og ristað í 14 mín. Ég hafði það nú aðeins of lengi, fannst eitthvað lítið vera að gerast, kannski af því þetta var í svo þykku lagi á ofnplötunni. Þegar hér var komið sögu spurði Ísak hvað ég væri að baka því honum fannst svo mikil jólalykt í húsinu ;-)

Þegar ég tók herlegheitin út úr ofninum sá ég að vökvinn var alltof mikill miðað við þurrefnin, enda hafði ég jú sleppt 250 gr. af haframjöli. Til að reyna að bjarga þessu aðeins, dreifði ég kókosmjöli og fiberhusk yfir og hrærði í, en það hafði lítið að segja. En þetta bragðaðist ágætlega, sem var vissulega stór plús.

Í morgun ákvað ég samt að fá mér beikon og grænmeti og bíða með múslíið. Ég var nefnilega að fara í klippingu og litun og það vill nú taka langan tíma, og ég vildi ekki verða svöng. En áðan þegar ég kom heim ákvað ég að nú væri kominn tími á að smakka dásemdina og athuga hvernig gumsið færi í maga. Niðurstaðan er sú að þetta bragðast nokkuð vel. Ég held að það sé ekki hætta á því að maður borði yfir sig af þessu, því þetta er svakalega saðsamt. En - mér er illt í maganum :-( Skil ekki þennan maga minn. Mig vantar jú reyndar meira af meltingarensímum, svo kannski það sé vandamálið. Eða að sojamjólkin fer svona illa í mig. Hef aldrei notað sojamjólk áður og í þessi fáu skipti sem ég hef gert það undanfarna daga hef ég orðið uppblásin á eftir. Úff, þetta eru nú meiri pælingarnar. Kannski hef ég bara hreinlega borðað of stóran skammt ...

Til gamans þá datt mér í hug að reikna á vísindalegan hátt út kolvetnamagnið í múslíinu. Skrifaði upp öll innihaldsefnin, magnið sem fór í þetta + magn kolvetna í 100 gr. af viðkomandi efni, og lét excel reikna út heildarkolvetnismagn. Niðurstaðan er sú að ef hver skammtur er ca. 100 gr. (veit reyndar ekki hvort það er passlegt magn eða ekki) þá inniheldur hann 17 gr. af kolvetnum. Sem er frekar mikið, svona ef heildar dagsskamturinn á ekki að vera nema ca. 50-70 gr. En já já ég hef nú svo sem ekki verið að reikna út magn kolvetna yfir daginn hjá mér, heldur látið brjóstvitið ráða ferð.




þriðjudagur, 27. september 2011

Bjartari tímar

Já ég ákvað að detta í bjartsýnisgírinn og hætta öllu væli. Í því tilefni breytti ég um útilit á blogginu og er það nú rammað inn af þeim dásamlega fallegu blómum sem kallast hádegisblóm. Þau eru þeim eiginleika búin að sýna fegurð sína aðeins ef sólin skín, annars eru þau samankreppt og lokuð. Myndina tók ég í Lystigarðinum í september 2009 og er þetta sú mynd sem flestir hafa skoðað á flick'r síðunni minni, eða 1.649 manns.

Eini gallinn við þetta nýja útlit, er að aðrar ljósmyndir taka sig ekki alveg nógu vel út, innan um þetta blómahaf. Þannig að kannski mun ég taka hádegisblómin út seinna meir, en fyrst ætla ég að njóta þeirra um sinn. 

Varðandi mataræðið, þá er ég komin yfir mesta sjokkið sem fylgdi því að finnast ég hreinlega ekki mega borða neitt. Og búin að komast að því að það er alveg hægt að lifa án mjólkurvara, eggja, hveitis og kolvetna. Það krefst aðeins meiri hugmyndaauðgi og skipulagningar, en er alveg hægt. Ég meira að segja prófa að borða ýmislegt sem ég hefði kannski ekki gert ella. Svo er ég búin að liggja á netinu og skoða uppskriftir þó ég sé nú ekki búin að baka eða elda eftir þeim ennþá. 

Svo er það í frásögur færandi, að ég er byrjuð í leikfimi fyrir vefjagigtarkonur, og það er bara algjör snilld. Mjúkar æfingar sem reyna hæfilega á en ná að liðka aðeins stífa og stirða skrokka. 

laugardagur, 24. september 2011

Þriðja tilraun

Það er eiginlega alveg spurning hvort ég er á leiðinni að missa mig í þessu matarstússi hér á blogginu? Og önnur spurning hvort ég ætti kannski bara að búa til annað blogg til að halda sérstaklega utan um allar matarpælingar, mataruppskriftir og annað þessu tengt?

Sem sagt, eftir að hafa verið pínulítið "high" í gær og bara nokkuð ánægð með að hafa fengið þessar upplýsingar um mataróþol, þá var jú laugardagur í dag og laugardagar eru alltaf "þreytu-breakdown" dagar. Sem þýðir jafnframt að þegar ég er svona ofboðslega þreytt eftir vikuna, þá dett ég líka niður í smá þunglyndi og á erfitt með að sjá nokkra framtíð í mínu lífi yfir höfuð. Í dag bættist streita við þreytu- og þunglyndispakkann. Ég hafði verið talsvert á netinu í gærkvöldi að skoða mataræðis-síður og aðal vandamálið er jú að uppskriftir sem gera t.d. ráð fyrir glúteinóþoli, eru oft fullar af annars konar dóti s.s. öðrum mjöltegundum með hátt hlutfall kolvetnis, svo dæmi sé nefnt.

Og eftir að hafa borðað þennan ógeðis-orkuhristing með sojapróteini í morgunmat hallaði enn fremur á ógæfuhliðina hjá mér. En það þýðir víst ekkert að gefast upp. Einhvern tímann fyrir hádegið fengum við Valur okkur kaffi - og hann bjó til sojalatté handa mér sem bragðaðist bara mjög vel. Með kaffinu borðaði ég hrökkbrauð sem ég var nýlega búin að baka en það inniheldur reyndar helling af eggjum, eða 5 egg í heildaruppskriftinni. Ég fékk mér bara litla sneið og mokaði kindakæfu ofaná.

 Það leið þó ekki á löngu þar til átvaglið var aftur orðið svangt og nú voru góð ráð dýr... Ég opnaði ísskápinn og kannaði úrvalið þar. Fann:

- Afgang af grilluðum laxi
- Túnfisk í olíu
- 1 gulrót
- Smá hvítkál
- Slatta af spínati

Þessu skellti ég öllu saman á pönnu og kryddaði með salti og pipar. Verð nú að segja að útkoman kom ánægjulega á óvart. Það að blanda má túnfiski saman við laxinn gerði extra piff í þetta. Það er eitthvað saltbragð af túnfiskinum sem tekur mesta "væmnis" bragðið af soðna laxinum.

Dauðsá eftir að hafa ekki tekið mynd af fíneríinu til að hafa með þessari færslu - sérstaklega þar sem við erum komin með nýja hversdags-matardiska sem eru afskaplega myndvænir :-)

Fyrsta tilraun til að borða eftir nýju reglunum

gekk nú ekkert sérstaklega vel. Ja, eða önnur tilraun reyndar. Í gærkvöldi voru hamborgarar í matinn og ég borðaði "allsberan" hamborgara, með tómötum, beikoni, spínat- og gúrkusalati. Já og sósu sem ég hafði keypt í heilsuhúsinu og er einhvers konar majones án eggja. Þetta reyndar fór alveg sæmilega í mig. Fyrir nóttina var ég samt svöng og fékk mér pínulítið af sardínum í olíu. Sem mér finnast ekki góðar, en eru næringarríkar. Mér varð nú hálf flökurt af þeim.

Áðan reyndi svo á mig fyrir alvöru. Morgunmatur var það heillin og nú er ekki lengur hægt að steikja beikon og egg. Lausnin varð að fá sér orkuhristing sem samanstóð af bringuberjum (lítið kolvetnainnihald), bláberjum (aðeins meira kolvetnainnihald en ég fékk mér bara lítið), hörfræolíu (notaði slatta af henni), sojaprótein (sem ég keypti í gær í staðinn fyrir mitt venjulega mysuprótein) og svo blandaði ég hrísmjólk (hærra kolvetnainnihald) með sojamjólk (sem hefur mjög lágt kolvetnagildi). Það sást nú strax þegar ég byrjaði að blanda þetta að áferðin varð ekki sú sama og venjulega. Þetta var meiri klessa einhvern veginn og blandaðist greinilega ekki jafn vel og mér fannst það eiga að gera. Svo ég setti meiri sojamjólk saman við.

Bragðið var eins og ég hefði blandað sementi saman við ávextina. Gróft en samt þannig að það smitaði einhvern veginn út frá sér af því það væri svo fíngert. Alls ekki gott. En ég hugsaði með mér að öllu mætti venjast þannig að gott þætti, og þrælaði draslinu í mig. Þurfti reyndar ítrekað að hella sojamjólk saman við til bæta bragð og áferð. Ég var samt ekki einu sinni búin með skammtinn þegar ég fann að þetta var ekki að fara vel í magann á mér. Og já já, skömmu síðar var ég byrjuð að ropa, leið illa og fékk hraðan hjartslátt. Uss, meira ruglið!

föstudagur, 23. september 2011

Dómur er fallinn

Ég er hraustasta kona á norðurhveli jarðar... Eða þannig. En já þar sem ég var búin að opinbera fyrir alþjóð að ég fór til Noregs, þar sem voru teknar af mér ítarlegar blóðprufur (og  meira að segja hægðaprufur) þá tel ég mér eiginlega skylt að skýra alþjóð einnig frá niðurstöðum þessara rannsókna.

Í gær kom loks að því að ég heyrði í norska lækninum aftur. Hún hringdi í mig með niðurstöðurnar og að sjálfsögðu fannst fátt að mér. Það er að segja, í þessum hefðbundnu blóðprufum (svona eins og teknar eru þegar maður fer til læknis hér á Íslandi) fannst fátt athugavert. Það helsta var að ég var eitthvað undir lágmarkinu í sinki.  Einnig voru teknar af mér prufur til að kanna hvort ég væri með einhverjar virkar sýkingar en það eina sem kom út úr því var að ég var á gráu svæði með einhverja sýkingu sem á norsku heitir "atypisk lungebetennelse".

Svo var komið að aðal niðurstöðunum. Þær voru í sambandi við mataróþol. Það er nú frekar fyndið, að ég sem hef svoleiðis verið að dæla í mig eggjum undanfarið, er með mjög mikið óþol fyrir eggjum. Skoraði fullt hús stiga þar. Svo er ég með óþol fyrir mjólk og mysu. Ég taldi mig nú reyndar vita að ég væri með óþol fyrir mjólkursykrinum (laktósa) en kom á óvart að ég er líka með óþol fyrir sjálfu mjólkurpróteininu. Sem þýðir að ég má ekki borða neinar mjólkurafurðir. Og ég sem hef á LCHF mataræðinu verið að drekka rjóma beint úr fernunni og blanda rjóma saman við jógúrt og kotasælu + nota alveg helling af íslensku smjöri. Já og osta, ekki má gleyma þeim. Nú er komið blátt bann við þessu öllu. Svo hef ég verið að nota mysuprótein út í orkuhristinga (og mikinn rjóma). Þar að auki er ég  (eins og mig hafði grunað) með óþol fyrir glúteini, og geri þar að auki.

Og já já, af því ég er nú byrjuð að tjá mig um þessar niðurstöður á annað borð, þá kom það út úr hægðaprufunni að ég er með smávegis sveppi í þörmunum, en bara lítið, og aðeins of hátt hlutfall af streptokokkum í þarmaflórunni (veit ekki hvort það skiptir máli). Einnig er ertingur í smáþörmunum, líklega til kominn vegna þess að ég er að borða mat sem ég þoli ekki. Svo er of lítið af meltingarensímum í kerfinu.

Þannig að hér er nú ýmislegt sem hægt er að leiðrétta. Læknirinn mælti reyndar með að ég prófaði að fá B12 sprautur í fimm vikur, til að sjá hvort þær gerðu mér gott, þrátt fyrir að í raun væri í lagi með b12 birgðirnar hjá mér. Hún sagði að þetta vítamín hefði oft góð áhrif á síþreytu-vandamál, svo það væri vert að prófa það. Svo á ég að taka sink, meltingarensím og fjölvítamín, auk þess sem hún ætlaði að láta mig taka eitthvað við sveppunum (en ég man ekki hvað það heitir). Aðalmeðferðin felst samt í breyttu mataræði.

Ég viðurkenni að ég fékk smá sjokk þegar ég áttaði mig á því hve umfangsmiklar breytingar ég þyrfti að gera á mataræðinu. Það hefði auðvitað verið mun auðveldara fyrir mig að ég væri "bara" með einhverja sýkingu sem ég gæti tekið lyf við og allt yrði gott á ný. En málið er víst ekki svo einfalt.

Kosturinn er þó sá, að þetta er eitthvað sem hægt er að vinna með. Ég sá jú töluverða breytingu á líðan minni þegar ég tók út mest öll kolvetni (hef varla borðað neitt með glúteini síðan í byrjun ágúst), svo það ætti að skila mér enn betri árangri að taka út allt hitt "eitrið" líka. Sú norska mælti reyndar með að ég héldi áfram með LCHF mataræðið, úr því það hefði greinilega haft góð áhrif. Það verður bara ansi mikið erfiðara. Ég hef t.d. verið að borða egg og beikon í morgunmat alla daga. Og það skrítna er að mér finnst það hafa virkað vel á mig. Södd lengi og ekki uppþemd. Svo eru egg aðaluppistaðan í öllum LCHF bakstri, já og mikið smjör.

Nú þarf ég bara að leggjast í rannsóknir og finna mér eitthvað til að borða. Það erfiðasta er morgunmaturinn og kannski kaffitíminn. Mér var farið að finnast ansi notalegt að fá mér egg og beikon á hverjum morgni. Ekki get ég borðað hafragraut eða hafradrullu (morgunmaturinn allan síðasta vetur, kannski ekki nema furða að ég hafi verið þreytt). Það er jú bæði glútein í höfrum og eins eru þeir fullir af kolvetnum. Ég get fengið mér orkuhristing ef ég skipti út mysupróteininu fyrir sojaprótein en gallinn er sá að mér verður ískalt af þessum mat, og ekki gott að byrja daginn á að frjósa úr kulda. Í morgun borðaði ég afgang af kjúklingabringum í morgunmat... held samt að ég nenni nú ekki að borða matarafganga á hverjum morgni, auk þess sem ég vil frekar eiga afgangana í hádeginu.

Já þannig að þetta verður fjör.

mánudagur, 12. september 2011

Sólarlag við Blönduós

Já við Valur fórum af stað á föstudegi. Ég var að vinna en hann í sumarfríi, svo við lögðum af stað þegar ég var búin að vinna og við búin að taka okkur til í rólegheitum.

Við ókum sem leið lá á Blönduós, en fórum reyndar Svínavatnsleið síðasta spottann. Við áttum pantaða gistingu á Hótel Blönduósi, og áttum að hringja á undan okkur korteri fyrir áætlaða komu, þar sem gömul kona sér um hótelið en þar ekki fast heldur kemur bara eftir þörfum. Þess var líka óskað að við greiddum í peningum, þar sem sú gamla treystir sér víst ekki til að læra á posa.

Jæja við tékkuðum okkur inn og fengum lykla að herberginu. Það var nú svona allt í lagi herbergi, en ekkert umfram það. Hálf kalt var þar inni líka svo Valur hækkaði ofnana í botn, án þess þó að það bæri árangur. Við gátum ekki hugsað okkur að vera í köldu hótelherbergi, svo ég hringdi í hótelstjórann í Reykjavík, sem fjarstýrði því að maður kom og lét okkur hafa annað herbergi. Þar vorum við heppin því það herbergi var miklu stærra og vistlegra, auk þess sem útsýnið þaðan var svaka flott. Og það sem mest var um vert, ofnarnir voru í lagi.

Við komum okkur fyrir í þessu nýja herbergi og fórum svo í kuldagallann og gengum aðeins um þorpið og fórum svo út að borða. Ég held að veitingastaðurinn heiti Potturinn og pannan og matseðillinn lofaði bara góðu. Því miður var maturinn ekki alveg í takt við væntingarnar. Fyrst fengum við súpu sem var svo pipruð að maður stóð nánast á öndinni og síðan kom í ljós að fiskurinn (parmesanhjúpaður skötuselur - hljómar vel ekki satt?) var alveg jafn pipraður og súpan. Töluvert löngu eftir máltíðina var ég enn að plokka piparkorn út úr munninum... En já já, við lifðum þetta af og gengum í rólegheitum heim á hótel aftur. Akkúrat þá var sólin að setjast og sólarlagið var bara virkilega fallegt þarna á Blönduósi. Svo sofnuðum við snemma.

Framhald síðar...

sunnudagur, 11. september 2011

Vöfflur

Á föstudaginn lögðum við Valur af stað í ljósmyndaferð, gistum um nóttina á Blönduósi og ókum um Skaga í gær. Ég á eftir að skrifa smá um þá ferð - en núna ætla ég að skrifa niður vöfflu-uppskrift, svo ég týni henni ekki.

LCHF vöfflur
30 gr. brætt smjör
1/2 dl. rjómi
3/4 d. vatn
2 egg
1 dl. kókosmjöl
2 tsk. fiberhusk
1/2 tsk. lyftiduft

Þetta er grunn-uppskriftin sem ég fór eftir, en við nánari umhugsun, setti ég í viðbót eina lúku af heslihnetum (fannst þetta of þunnt eitthvað), smá AB mjólk (held að það sé gott að nota eitthvað súrt á móti vínsteinslyftidufti, en það er kannski bara vitleysa í mér) og pínu skvettu af ekta vanilludufti (til að fá pínu meira bragð).

Valur bakarameistari bakaði svo úr deiginu fyrir frúna, eins og hans var von og vísa, og heppnaðist þetta með þvílíkum ágætum. Vöfflurnar eru frekar þunnar og rifna ef ekki er farið varlega með þær, en bragðgóðar og það er nú aðalatriðið :-) Svo leyfði ég mér að setja pínu ponsu sultu og mikinn rjóma. Nammi namm!

miðvikudagur, 7. september 2011

Tíðindalítið á Vesturvígstöðvunum

Remains of summer by Guðný Pálína
Remains of summer, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Já það er fátt að gerast þessa dagana. Helst veðrið sem er umræðuefni og það kemur ekki til af góðu. Hitastigið var 4 gráður þegar ég var á leið í vinnuna í morgun og ég saknaði þess að hafa ekki sett á mig vettlinga.
Talandi um vinnuna þá er september alltaf rólegur mánuður og svo er einnig núna. Það eru töluverð viðbrigði eftir allan hasarinn í sumar, og er bæði gott og slæmt. Það er gott að fá að pústa aðeins en gallinn er sá að það getur verið frekar leiðinlegt að vera í vinnunni þegar það er rólegt. Ég kann alltaf miklu betur við mig þegar það er nóg að gera, þó svo ég verði reyndar kannski þreyttari þannig...

Andri var að klára síðustu bóklegu prófin í einkaflugmannsnáminu og á nú bara eftir að safna fleiri flugtímum.

Ísak bíður spenntur eftir því að Menntaskólinn byrji og hið sama gerir mamma hans, sem er orðin ansi þreytt á iðjuleysi sonarins.

Hrefna er byrjuð aftur í skólanum eftir langt og gott sumarfrí og er í augnablikinu á taugadeild á Næstved sjúkrahúsi (held að það heiti það). Gallinn er sá að það er langt að fara fyrir hana.

En já nú er ég hætt þessu bulli. Ætli ég bloggi ekki aftur á morgun, það er vaninn að ég fer á fullt þegar ég byrja aftur eftir blogghlé ;)