fimmtudagur, 25. september 2008

Kettirnir eru lagstir í hýði

eða það lítur a.m.k. helst út fyrir það. Þau sofa meira og minna allan daginn og Birta er nánast hætt að fara út þrátt fyrir þetta fína veður sem við höfum haft undanfarið. Það er ekki alveg kominn hýðistími hjá mér en yfirleitt fer einhver vetrardrungi að gera vart við sig í október. Þegar daginn fer að stytta og ekki lengur er bjart á morgnana þá finn ég mikinn mun á því hvað ég á erfiðara með að vakna.

Annars var ég að spjalla við eldri konu í sundi í morgun og við vorum að tala um hvað það væri gott að sofa við opinn glugga. Þá sagði hún að maðurinn sinn, sem var lögreglumaður, hefði nú ekki alltaf verið jafn hrifinn þegar hann kom heim af næturvöktum í ískalt rúmið. En það vandamál leysti hún með því að sofa þá bara í hans holu (eins og hún orðaði það) og þá kom hann heim í heita sæng á morgnana og hún gat ennþá sofið við opinn glugga. Flott hjá henni.

Og nú held ég að ég fari að huga að því hvað ég ætla að hafa með mér til Reykjavíkur á morgun.

Engin ummæli: