laugardagur, 20. september 2008

"Ég held að ég hafi bara aldrei borðað svona góðan humar"

Þessi setning hraut af vörum mannsins míns í kvöldmatnum. Þannig var að Valur gerði smá viðvik fyrir vinkonu mína og færði hún okkur humar í þakklætisskyni. Þetta var risastór humar og Valur grillaði hann í kvöld og heppnaðist matreiðslan svona líka ljómandi vel. Ég borðaði heilhveitipasta og salat með humarnum og strákarnir borðuðu hefðbundið hvítt pasta (Rustichella) og snittubrauð. Ég er sem sagt enn í hollustunni og hef enn sem komið er bara átt verulega erfitt með mig einn einasta dag. Það var á fimmtudaginn en þá var ég í fríi frá vinnunni og hreinlega hálf leiddist eitthvað. Svo fékk ég þessa fínu uppskrift að hollustuköku í dag í vinnunni hjá henni Fanneyju Dóru sem er annar tveggja nýrra starfskrafta hjá okkur. Ég hlakka virkilega til að prófa uppskriftina. Svo er meiningin að vera dugleg að finna hollustu-uppskriftir og prófa eitthvað nýtt. Ég verð nú bara að segja að ég finn strax smá mun á mér. Finnst ég ekki vera jafn sljó eitthvað og þokukennd í hugsun (tja svona í heildina séð, á nú alveg mín "utanviðmig" moment ennþá). Verkirnir í skrokknum eru kannski svona hakinu minni - og mega gjarnan minnka ennþá meira - en ég var líka að spá í það að ef maður hefur í langan tíma verið að borða eitthvað sem er ekki gott fyrir mann þá hlýtur líka að taka langan tíma fyrir líkamann að ná að "hreinsa sig" af þessu öllu saman. Ég er alla vega ákveðin í því að halda þessu til streitu og sjá hvort ég næ ekki að verða eitthvað betri til heilsunnar með hollara mataræði. Reyndar er ekki eins og ég hafi verið að borða eitthvað brjálað óhollan mat, alls ekki. Ég t.d. drakk sjaldan gos og ekki lá ég í snakkinu, en súkkulaði og sætindi eru minn veikleiki. Valur eldar yfirleitt hollan mat svo málið sýst í raun um að hætta að troða í sig súkkulaði og sætabrauði milli mála og borða meira af ávöxtum og grænmeti. Ætti ekki að vera flókið en ég er sem sagt algjör kolvetnafíkill. Langar alltaf til að troða í mig kexi, súkkulaði og sætindum þegar ég er þreytt, stressuð, leið eða vantar orku. Brandarinn er bara sá að þegar ég borða sætindi þá líður mér voða vel í smá stund en svo ennþá verr á eftir þegar blóðsykurinn fellur hratt aftur. En þegar ég sleppi sætindunum þá er orkan miklu jafnari yfir daginn og mér líður í heildina mun betur. Svo er það bara að halda sömu stefnu áfram - getur reynst erfitt þegar daginn fer að stytta - en ég geri mitt besta til að falla ekki í freistni ;-)

Þetta var enn ein sjálfhverfa bloggfærslan í boði Guðnýjar.

Engin ummæli: