þriðjudagur, 2. september 2008

Húsmóðurheiðrinum bjargað

Já gardínurnar eru komnar upp, ótrúlegt en satt. Þetta telst nú enginn afreks-saumaskapur en afrek samt af minni hálfu, amk á þessum síðustu og verstu tímum. Að vísu fannst mér liturinn á gömlu gardínunum tóna betur við gula litinn sem Ísak er með á veggjunum en ég á reyndar eftir að sjá þetta í dagsbirtu. Svo eru veggirnir dálítið tómlegir eftir að hann tók niður allar myndirnar sem þar voru. En það má skoða þetta allt saman.
Áðan heyrði ég einhver ámátleg væl utan úr garði og fann Mána í pattstöðu með öðrum ketti þar úti. Þeir hreyfðu sig aðeins til þegar ég kom og Máni notaði tækifærið til að sýna mér hvað hann væri nú orðinn flinkur að verja lóðina okkar - en sem betur fer urðu engin meiriháttar slagsmál. Meira hvað hannn þykist nú allt í einu vera orðin mikil hetja. Og í þessum töluðu orðum kemur kappinn og stekkur uppá skrifborð til mín. Ætli hann planti sér ekki beint fyrir framan skjáinn næst, hann er vanur því. Við fengum okkur nú öll smá blund saman í dag, ég, Birta og Máni. Vinnunni var nefnilega þannig háttað hjá mér í dag að fyrst var ég að vinna frá 10-13.30 og svo frá 16-18. Í pásunni þarna á milli kom ég heim og var svo slöpp eitthvað að ég lagði mig. Nokkuð sem gladdi kettina mikið og hressti mig við ;-) Svo labbaði ég í vinnuna og kom þangað úthvíld og rjóð í kinnum eftir gönguna.
Heimferðin reyndist mér öllu erfiðari og þessi blessaði "lati" fótur minn var farinn að þvælast dálítið mikið fyrir mér í restina. Hann er svo kraftlaus eitthvað og mig fer að verkja í hann + að ég hálfpartinn dreg hann á eftir mér þegar ég er þreytt. Það eru núna fjórir og hálfur mánuður frá því að ég fór í brjósklosaðgerðina svo eiginlega finnst mér að fóturinn ætti að vera búinn að jafna sig betur - en ætli sé ekki bara best að panta sér tíma hjá sjúkraþjálfara og athuga hvort hann getur kennt mér einhverjar æfingar til að styrkja fótinn.

Engin ummæli: