mánudagur, 15. september 2008

Ég þoli ekki skápalykt af fötum

Er sem sagt búin að taka megnið af sumarfötunum úr umferð og var að setja vetrarpeysurnar í réttar hillur en þá var svo hræðileg skápalykt af sumum þeirra að ég þarf að þvo þær fyrst. Þannig að núna snýst tromlan í þvottavélinni og ég er bara að leika mér á meðan. Þyrfti samt að finna stóran plastpoka undir föt sem fjölskyldan er hætt að nota svo hægt sé að gefa þau í Rauða krossinn.

Svo þyrfti ég líka að leggjast í smá pappírsvinnu og ganga frá reikningum í möppur en því nenni ég ómögulega núna. Það styttist líka í næsta virðisaukauppgjör svo ég þyrfti eiginlega að fara að byrja á bókhaldinu fyrir júlí og ágúst - en ég nenni því ekki heldur. Fussum svei, þvílík leti í konunni! Annars held ég að ég sé ekkert sérlega löt að eðlisfari. Var það þegar ég var unglingur (nennti ekki að hjálpa til heima o.s.frv.) en núna er það aðallega heilsufarið sem verður til þess að ég geri ekki hluti sem ég þyrfti að gera. Tja, að vísu þá á ég það til að fresta því í lengstu lög að byrja á vissum verkefnum, en það er ekki beint leti sem er orsakavaldurinn (frekar angi af verkkvíða, þ.e. það er eitthvað sem vex mér í augum). En svo þegar ég er byrjuð þá er þetta auðvitað ekkert mál.

Af starfsmannamálum í Pottum og prikum er það að frétta að við erum komnar með tvo nýja starfsmenn í hlutastarfi og ætti þá að létta aðeins á okkur Sunnu sem höfum verið að vinna svolítið mikið síðan Nanna flutti til Danmerkur. Þannig að bráðum verðum við komnar með þetta fína vaktaskipulag og þá ætti að komast meiri regla á vinnutímann hjá okkur - sem er bara hið besta mál.

Engin ummæli: