fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Ætli það sé merki um að ég sé farin að eldast

þegar ég fer á sífellt fleiri jarðarfarir? Æ, ég veit það ekki, kannski er það bara röð tilviljana, eða þá að með hækkandi aldri vel ég oftar að fara á jarðarfarir fólks sem ég hef átt einhverja samleið með um æfina, þó ekki sé um mjög náin tengsl að ræða. Áðan var ég á jarðarför systur vinkonu minnar og milli jóla og nýárs fór ég á jarðarför skólasystur minnar úr sjúkraliðanáminu. Báðar þessar konur voru í blóma lífsins, báðar voru sjúkraliðar og lærðu til nuddara. Báðar voru þær fullar lífsgleði og miðluðu henni til samferðafólks síns. Báðar höfðu þær áhuga á andlegum málefnum. Báðar höfðu þær hæfileikann til að gleðjast yfir hinu smáa.

Vinkona mín, þessi sem var að missa systur sína, hún hefur einnig þennan dýrmæta hæfileika, að geta horft í kringum sig og glaðst yfir söng fuglanna, fegurð fjallanna, grænu grasinu og sólinni. Okkar samverustundir felast í því að við förum út að ganga, og það er sama hvernig á stendur hjá henni, alltaf skal hún geta bent á eitthvað til að njóta í náttúrunni. Það að geta notið líðandi stundar án þess að hafa áhyggjur af fortíð eða framtíð, er hæfileiki sem ég vildi gjarnan rækta meira.

Engin ummæli: