Þegar ég var að fara út úr sundlaugarbyggingunni var kallað í mig og mér var boðin kaka (ég hafði reyndar séð að það var kaka og kaffi en ætlaði að læðast út þar sem ég hélt að þetta væri fyrst og fremst handa eldri fastagestum). Þegar maðurinn kallaði kunni ég ekki við annað en fara og óska honum til hamingju með daginn og fá mér lítinn bita af kökunni. Hafði vart stungið bitanum upp í mig þegar kona sem vinnur í sundlauginni spurði afmælisbarnið hvað það væri gamalt og hvort hefði nokkuð verið sungið fyrir hann. "75 ára" var svarið við fyrri spurningunni og "nei" var svarið við þeirri seinni. Konan beið ekki boðanna og hóf upp raust sína, um leið og hún leit ábúðarfull á okkur hinar tvær sem viðstaddar voru, og þannig í skyn að við skyldum taka undir.
Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að snúa mig út úr þessu en reyndi þó að humma með, svona eins og hægt var með munninn fullan, en þó kárnaði gamanið þegar átti að syngja lokalaglínuna "Hann á afmæli hann X, hann á afmæli í dag" þar sem ég hafði ekki hugmynd um nafnið á blessuðum manninum. Hef hitt hann ca. milljón sinnum í sundi og býð alltaf góðan daginn, og kinka kolli til hans ef ég sé hann á götu, en só sorrý, veit ekki hvað hann heitir. Þannig að ég fékk smá hóstakast þarna alveg í lokin, svona rétt á meðan "hann á afmæli hann X" var sungið, og söng svo hástöfum síðustu hendinguna :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli