sunnudagur, 11. september 2005

Ákvað að blogga

þó ég hafi ekkert að segja - er sem sagt ennþá að drepast úr andleysi... Þannig að kylfa mun ráða kasti varðandi það hvað kemur á blaðið (skjáinn) í þetta sinnið. Talandi um skjái þá fékk ég nýja/gamla tölvu í vinnunni í síðustu viku. Var ekkert smá ánægð með að fá flatskjá (þó lítill sé) en á móti kemur að það suðar svo rosalega í turninum (heilabúi tölvunnar) að ég er frekar búin á því í lok dags. Ætla að gefa henni smá séns - hún er nefnilega svo miklu hraðvirkari heldur en gamla daman sem ég var með áður :)

Well, well, well, hvað gerði ég um helgina sem er að líða? EKKERT af viti - en líklega ekkert af óviti heldur, þannig að þetta er nokkuð vel sloppið. Hrefna og Elli komu til okkar í mat á laugardagskvöldið sem Valur eldaði af sinni alkunnu snilld. Kjúklingabitar á teini með pintóbaunasósu + hrísgrjón + brauð. Við vígðum nýtt borðstofuborð í leiðinni og ekki var það nú slæmt heldur. Minn heittelskaði hafði nefnilega kvartað undan því í mörg ár að ekki væri pláss fyrir nokkurn skapaðan hlut á gamla borðinu (sem við keyptum notað og hafði verið smíðað rétt eftir stríð þegar húsin voru lítil og húsgögnin líka). Nýja borðið er 1x2 og nú er loksins hægt að hafa matinn á borðinu, ekki bara borðbúnaðinn ;O)

Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað heilinn í manni er undarlegt fyrirbrigði. Meðan við bjuggum í Noregi varð ég gjörsamlega ómælandi á önnur tungumál en norsku og íslensku, enskan t.d. hvarf bara út í bláinn. Hún hefur nú verið að koma til baka smátt og smátt enda les ég ensku meira og minna á hverjum degi. Í síðustu viku hringdi svo kona í mig í vinnunni og talaði ensku. Ég ræddi við hana nokkra stund og allt gekk eins og í sögu, alveg þar til hún sagði nafnið sitt, sem var dæmigert norrænt nafn. Og það var eins og við manninn mælt, öll mín enskukunnátta hvarf út í buskann, norskan tók völdin í heilanum á mér og mér tókst varla að ljúka símtalinu skammlaust!! Hvað á þetta eiginlega að þýða? Það eru 10 ár síðan ég bjó í Noregi og t.d. les ég norskuna ekki oft (of sjaldan í rauninni) á meðan ég er alltaf að lesa ensku. En mig skortir greinilega talþjálfun, það er nokkuð ljóst. Enda var ég að spá í að taka mastersnám í enskumælandi landi, m.a. til að reyna að troða ensku tali inn í heilann á mér aftur.

Engin ummæli: