miðvikudagur, 7. september 2005

Andleysi er undarlegt fyrirbrigði

Ég er sem sagt eitthvað svo óskaplega andlaus þessa dagana, nenni ekki að blogga, finnst ég ekki hafa frá neinu að segja. En til að sýna að ég er ennþá á lífi þá set ég hér fáeinar línur á blaðið.

Um daginn hringdi í mig kona og bauð mér að koma í nudd. Ástæðan var sú að fyrir 2-3 árum síðan var ég í nuddi hjá henni, Shiatsu nuddi sem mér fannst henta mér mjög vel (maður þarf ekki að fara úr fötunum og það er ekkert olíusull). Jæja, ég hafði keypt fimm tíma afsláttarkort hjá henni og var búin með þrjá tíma þegar hún flutti skyndilega úr bænum. Nú er hún hins vegar komin aftur og mundi þá eftir mér - fannst vera kominn tími til að greiða skuld sína við mig. Þannig að ég fékk óvænt tvo "fría" nuddtíma ;O)

Ég bauð mig fram sem bekkjarfulltrúa í Andra bekk á foreldrafundi í bekknum hans í dag. Það er algjör kvöl og pína þegar kemur að þessum lið á fundinum, allir þegja og enginn vill bjóða sig fram. Mér leiðist þetta svo mikið þannig að ég stakk höfðinu upp úr sandinum og bauð mig fram. Þegar ég var búin að brjóta ísinn bauð önnur mamma sig líka fram þannig að þetta slapp allt saman fyrir horn. En það verður sennilega yfirdrifið nóg að gera í þessu embætti því í vor útskrifast krakkarnir úr grunnskóla og komin er hefð fyrir skólaferðalagi í vetrarlok en það þýðir líka fjáröflun o.s.frv.

Læt þessum andlausa pistli hér með lokið.

Engin ummæli: