föstudagur, 6. maí 2005

Veit ekki alveg

hvað þetta er með mig og lausa hunda. Er alltaf að rekast á þá þegar ég er úti að ganga - síðast núna áðan. Fór með Unni vinkonu minni sem er með brjósklos og var búin að koma sér haganlega fyrir í sófanum þegar ég kom og dró hana með mér í gönguferð í kuldanum (ca. 1 stigs hiti). Þar sem ég vildi nú ekki alveg ganga frá henni (gerði það nefnilega um daginn þegar við fórum 3-4 km. í Kjarnaskógi) þá gengum við í þetta sinn bara rólega um götur nærliggjandi íbúðahverfis. Eftir smá spotta sá ég hvar Golden Retriver hundur lék lausum hala skammt frá okkur og fannst ég eitthvað kannast við kauða. Kallaði á hann (árangurslaust) en fór svo til hans og kíkti betur á hann. Ójú, var þetta þá ekki Bjartur, hundur vinafólks okkar sem hafði greinilega stolist að heiman.

Ég ákvað að gera eins og skátarnir, eitt góðverk á dag, og fylgdi Bjarti heim. Hann lét nú þokkalega að stjórn en ég hélt í hálsólina á honum og þurfti að ganga öll hokin til að toga ekki alltof fast í ólina. Þegar nær dró heimahögunum fór hann að verða viljugri og loks þegar húsið þeirra var í sjónmáli þá sleppti ég takinu og hann hljóp á harðaspretti heim. Einmitt í þeim svifum kom sonur hjónanna á reiðhjóli og hafði verið að leita að Bjarti og rétt á hæla honum kom svo heimilisfaðirinn sjálfur, líka á hjóli og með hundaól í hendinni. Þarna urðu mikilir fagnaðarfundir og ég var að sjálfsögðu hetja dagsins (eða þannig ;-)

Engin ummæli: