laugardagur, 14. maí 2005

Sumir dagar

nýtast eitthvað svo illa - ekki gott að segja af hverju, manni verður bara lítið úr verki. Eins og lesendur hlýtur að renna í grun þá var einmitt þannig dagur í dag hjá mér. Hann byrjaði reyndar ágætlega, ég fór í sund um níuleytið í morgun ásamt tveimur fylgdarsveinum þeim Val og Ísak - Andri unglingur var að lana hjá félaga sínum og vaknaði ekki fyrr en rúmlega tvö. Ég var hálf stirð eitthvað og synti ekki nema ca. 14 ferðir en þurfti að hafa mikið fyrir því þar sem 1 gamalmenni + 2 konur voru líka í brautinni og annað slagið reyndist nauðsynlegt að fara fram úr þeim gamla en það var erfitt að hitta á réttan tíma (þegar hvorug kvennanna var að koma á móti).

Eftir morgunkaffi (te + brauð og bakkelsi úr Bakaríinu við brúna) fór ég síðan út í skóla og prentaði út lokaverkefni annars nemendanna sem ég er að leiðbeina en meiningin var að eyða eftirmiðdeginum í að lesa þetta yfir. Það gekk nú svona og svona. Fyrst fékk ég heimsókn (sem var í besta lagi ef þú lest þetta Sunna mín ;-) og svo var það kaffi með bóndanum og svo var ég bara svo ægilega þreytt að ég þurfti aðeins að leggja mig - og svo þurfti ég að versla og fór í brjálæðið í Bónus (búðin full af fólki og engar kerrur lausar) og Nettó (til að kaupa það sem fékkst ekki í Bónus). Ég náði reyndar smá spretti í lokaverkefninu á meðan bóndinn var að elda dásamlegan kvöldverð (heimalagað pasta með sjávarréttum - hörpudiski, rækjum, chili, hvítlauk, hvítvíni og ólífuolíu) en eftir matinn nennti ég ekki neinu, nema blogga...

Nú er Valur búinn að taka "The Garden State" á leigunni og ljóst að ég nýti ekki kvöldið til lesturs - þá er bara eitt að gera - vakna snemma í fyrramálið og "carpe diem"!

Engin ummæli: