þriðjudagur, 13. ágúst 2013

„Drive in“ túristar


Valur gerir stundum góðlátlegt grín að því að við séum svona „drive in“ túristar. Þá er hann að vísa í þá staðreynd að sökum þróttleysis undirritaðrar, þá er aldrei hægt að fara neitt annað en þangað sem við komumst á bíl. Við förum sem sagt aldrei í fjallgöngur, eða lengri gönguferðir til að sjá athyglisverða staði. Allt miðast við að hægt sé að keyra frúna nánast alla leið á staðinn. Það er ekki ólíklegt að við förum á mis við marga fallega staði, en á móti kemur að við förum líka (akandi) á marga staði utan alfaraleiðar - s.s. á Melrakkasléttu, Langanes, Strandirnar o.s.frv. Oft er líka alveg nóg að bara vera úti í náttúrunni, anda að sér fersku súrefni og finna lyktina af sjónum, jafnvel í norðangarra. Það þarf ekki alltaf að leita langt yfir skammt.

Um daginn (í útilegunni á Kópaskeri) fórum við á Langanes. Á einhverjum tímapunkti sá ég fallega fjöru og í henni fullt af ryðguðu brotajárni. Þá lögðum við bílnum, ég klöngraðist niður í fjöruna og við stoppuðum heillengi, tókum myndir og nutum þess að vera úti í náttúrunni. Það spillti reyndar ekki fyrir að þennan dag var 24 stiga hiti og alveg dásamlega fallegt veður.

En það sem ég er að reyna að segja - og gengur ekkert sérlega vel - er að maður getur alveg notið margra hluta þó það sé ýmislegt sem maður getur ekki gert. Ég get ekki hlaupið, ég get ekki farið í fjallgöngur, ég get ekki gengið meira en 1-2 km. í einu - en ég get notið útivistar engu að síður.

Sem sagt ... gleðjast yfir því sem maður getur og vera ekkert að væla yfir hinu ;-)


2 ummæli:

HH sagði...

Ansi góð mynd, HH

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Þrátt fyrir filtersleysi ... hehe ;) Já hún er bara alveg ágæt þessi, takk Halur minn kær :)