fimmtudagur, 8. ágúst 2013

Fröken náttblind


Þegar ég var krakki og allt fram á fullorðinsár, þá fannst mér alveg dásamlegt að sofa um bjartar sumarnætur. Ég átti ekkert erfitt með að sofna í birtunni og elskaði að vakna í björtu. Þegar ég kynntist Vali þá var annað uppi á teningnum hjá honum. Hann vildi helst vera með dregið fyrir svefnherbergisgluggann á nóttunni og nota myrkvunargluggatjöld. Til að byrja með fannst mér þetta alveg hörmulegt, en vandist þessu svo. Hin síðari ár hef ég svo stundum átt í vandræðum með svefn og nú finnst mér bráðnauðsynlegt að vera með myrkvunargardínur árið um kring. Þá erum við að tala um bæði rúllugardínur og ytri gardínur. Ef ég sef einhvers staðar þar sem þessar græjur eru ekki fyrir hendi, þá brýt ég saman svartan bol t.d. og set yfir augun á mér.

Nú er hins vegar komið upp nýtt vandamál. Ég er nefnilega orðin svo náttblind. Þannig að þegar hausta fer og það dimmir aftur á nóttunni þá sé ég ekki handa minna skil um miðjar nætur. Sem væri ekki vandamál, ef ég gæti nú bara sofið alla nóttina, en það er víst ekki svo. Ég vakna iðulega 1-3x á nóttu til að fara á klóið, og þá staulast ég fram úr rúminu og verð að þreifa mig áfram í herberginu, fram að hurðinni, en þegar ég er komin þangað er mér borgið því það er aldrei jafn dimmt frammi eins og inni í svefnherberginu.

Í nótt vaknaði ég og komst fram á klósett og til baka án teljandi vandræða. Hins vegar þegar ég ætlaði svo að leggjast á koddann misreiknaði ég fjarlægðina í myrkrinu og var mun nær veggnum en ég áætlaði. Með þeim afleiðingum að ég „lagðist“ með höfuðið utan í vegginn svo klingdi í. Sem betur fer meiddi ég mig nú ekki mikið, en þetta var nú samt ekkert sérlega þægilegt...

Það fyrirfinnst afskaplega einföld lausn á náttblindu-vandamálinu. Hún felst í því að skilja eftir örlitla opna rönd neðst á annarri myrkvunar rúllugardínunni, þannig að smá ljósglæta nái að skína inn í herbergið yfir nóttina. Ekki flókið ha? Nei, bara flókið að muna eftir því... hehe..


P.S. Það er nú engin náttblinda í gangi á myndinni sem fylgir þessari færslu. Hún er tekin í fjörunni nálægt bænum Grjótnesi á Melrakkasléttu, en hér sést út á Öxarfjörð. Litli bletturinn þarna við sjóndeildarhring (fyrir miðri mynd) er fiskibátur. Ég veit að þetta er mynd „af engu“ en ég hef lúmskt gaman af því að taka svona myndir. Sólin skín á silfraðan hafflötinn og tíminn stendur í stað eitt andartak.

Engin ummæli: