föstudagur, 23. ágúst 2013

Allt og (aðallega) ekkert


Jebb, mín er að fara að blogga núna og hefur ekkert að segja ... Tja, að minnsta kosti ekkert fyrirfram ákveðið. Stundum bara VERÐ ég að tjá mig á einhvern hátt, þó ég hafi gjörsamlega ekkert vitrænt fram að færa. Kreisí? Já ég veit.

Ætli ég byrji þá ekki bara á hversdagslegu snakki ... Andri er farinn aftur suður á bóginn eftir sumardvöl hér norðan heiða. Það er alltaf svo tómlegt fyrstu dagana eftir að „ungarnir“ hverfa á brott en svo venst það víst. Hann var svo heppinn að fá vinnu strax við komuna til Keflavíkur, en vinur hans mælti með honum í vinnu á bílaleigu (sem ég man ekki hvað heitir...). Áðan hringdi hann frá Vík í Mýrdal og hafði þá skotist þangað að skipta um bíl sem hafði víst bilað eitthvað (en hefur greinilega verið vel ökufær, þar sem Andri átti að keyra hann til baka til Keflavíkur). Það er óhætt að segja að hann gerir víðreist drengurinn, ýmist fljúgandi eða akandi. Annars er ég víst ekkert búin að fljúga með honum í sumar, annað en pabbi hans, sem hefur farið tvisvar með honum í flug. Einhver leti að hrjá þá gömlu.

Annað í fréttum er það helst að við Valur erum bæði í sumarfríi í næstu viku. Höfðum haft miklar fyrirætlanir um að fara eitthvert suður á bóginn með hjólhýsið, en ekki er nú beint hægt að segja að veðurspáin sé okkur hliðholl. Að minnsta kosti ekki á þeim landshluta sem við vorum að spá í. Við eigum t.d. alltaf eftir að skoða Landmannalaugar, en þar er bara leiðindaspá á næstunni. Þannig að ég veit ekki hvernig þetta fer allt saman. Og ég er svo punkteruð eftir að hafa verið í vinnunni í heilar tvær vikur - að ég er ekki að leggja af stað í ferðalag á morgun - það er alveg á hreinu.

Svo eru ÁLFkonur að fara að halda ljósmyndasýningu á Akureyrarvöku en ég ætla ekki að vera með að þessu sinni. Það er önnur sýningin í röð sem ég tek ekki þátt í. Fyrir því eru nokkrar ástæður: Í fyrsta lagi þá er ég að reyna að draga úr öllu því sem veldur mér streitu, og eins gaman og það er að vera með stelpunum í sýningarhaldi, þá er það streituvaldandi fyrir mig. Ég er nú ekki meiri bógur en þetta ... Í öðru lagi þarf að eiga mynd(ir) við hæfi og í þetta sinn var þemað mannlíf og ég tek nánast eingöngu landslags- eða blómamyndir, svo það var nú eiginlega sjálfhætt fyrir mig. Í þriðja lagi þá er alls ekki víst að ég verði heima (ef við Valur förum burt úr bænum eins og við stefnum jú að) og þá gæti ég ekki tekið þátt í stússinu í kringum að setja upp sýninguna. Já já, you get the picture... ég held að ég sé ekkert að tjá mig meira um þetta mál. Finnst samt pínu skrítið að vera ekki með, það verður að segjast eins og er.

Æjá annars styttist víst í haustið og veturinn. Úff, ég er aldrei tilbúin til þess, vil helst hafa endalaust sumar - a.m.k. ef veðrið væri alltaf eins og það er búið að vera þetta sumar. Elska sól og mátulegan hita :-)


Engin ummæli: