sunnudagur, 4. ágúst 2013

Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar (eða með Guðnýju, allt eftir því hver á í hlut ...)

Þannig er mál með vexti að mamma og Ásgrímur eru að fara að flytja úr íbúðinni sinni í Innri Njarðvík (sem þau munu leigja út) og flytja sig inn á Nesvelli sem ég held að teljist til Keflavíkur, en á Nesvöllum eru íbúðir og þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Þar er m.a. lyfta og stutt í matvörubúð, ólíkt því sem er í íbúðinni þeirra núna.

Anna systir ætlar að koma frá Noregi eftir ca. viku og aðstoða í flutningunum, og mér fannst alveg ótækt að reyna ekki að hjálpa mömmu eitthvað aðeins við að pakka niður. Ég hafði hugsað mér að fara kannski á mánudag (morgun) eða þriðjudag og vera fram undir næstu helgi. Fannst það samt ekki alveg nógu góður kostur því þá yrði ég kannski of þreytt þegar ég byrjaði aftur að vinna eftir sumarfrí. Svo heyrði ég í mömmu á fimmtudagsmorgninum síðasta, og hún var bara byrjuð að pakka á fullu. Þá datt Vali það í hug, að snjallast væri fyrir mig að drífa mig bara strax sama dag suður. Ef ég gerði það næði ég að hjálpa til en samt fá tíma til að hvíla mig áður en vinnan byrjaði.

Þetta var bara býsna góð hugmynd og ég dreif mig í tölvuna að athuga með flug. Það er nú reyndar pínu púsl að láta flugáætlun passa saman við rútuna í Reykjanesbæ, en ég pantaði flug sem var kl. 14, eða þremur tímum síðar. Fór svo á fullt að pakka niður. Ég þurfti líka að skreppa örstutt í vinnuna og græja launagreiðslurnar með Sunnu og svo skrapp ég í Eymundsson og keypti smá afmælisgjöf handa Vali, en hann átti afmæli daginn eftir (2. ágúst).

Valur skutlaði mér svo á flugvöllinn og ég lenti í Reykjavík í blíðskaparveðri. Ákvað að ganga frá flugvellinum og yfir á BSÍ þar sem veðrið var svona gott. Var búin með ca. 2/3 af leiðinni þegar ég var nú eiginlega farin að sjá eftir því, þar sem skrokkurinn var eitthvað farinn að kvarta, en ákvað að láta þær kvartanir sem vind um eyru þjóta. Enda hafði ég fullt í fangi með að þræða framhjá gæsaskít sem lá eins og hráviði um alla gangstéttina. Þegar ég nálgaðist BSÍ var maginn á mér líka farinn að kvarta og þar sem ég hafði nægan tíma til umráða, ákvað ég að hlusta á þá kvörtun, og labbaði inn á Subway sem var þarna rétt hjá. Þar keypti ég mér kjúklingasalat sem bragðaðist alveg ágætlega. Svo var nú klukkan farin að nálgast fjögur og þá dreif ég mig yfir á umferðamiðstöðina.

Ég fékk að fara úr rútunni við hringtorgið rétt hjá Kaffitári og labbaði þaðan heim til mömmu og Ásgríms, en það var nú ekki langt labb. Mamma hafði skroppið í Bónus og var ekki heima þegar ég kom en Ásgrímur var sem betur fer heima og gat tekið á móti mér. Þegar mamma kom heim hafði hún þá sögu að segja að þegar hún ætlaði að greiða fyrir vörurnar í Bónus, var hún með minni peninga á sér en hún hafði haldið. Nokkuð sem getur komið fyrir alla og er nú ekki mjög skemmtilegt. Hún bað afgreiðslustúlkuna um að taka vörur til baka, þar til hún ætti nóg, en þá gerist það að karlmaður kom aðvífandi og sagðist skyldi borga mismuninn. Það er gott til þess að vita að gjafmilt og hjálpsamt fólk fyrirfinnst enn. En ég var nú fegin að vera komin og geta borið innkaupapokana upp stigann fyrir mömmu, því þeir voru níðþungir.

Þetta var sem sagt á fimmtudagskvöldi, og á föstudag og laugardag reyndi ég að gera eitthvað gagn, en það gekk nú misvel. Mamma hefur ábyggilega viljað passa að ég ofreyndi mig ekki, svo hún var ekki tilbúin að leyfa mér að gera neitt afskaplega mikið. Ég gat þó aðstoðað við að setja allar bækur í kassa og það var nú töluvert. Það þarf líka að passa að setja bækur í nógu litla kassa, svo hægt sé að bera þá, en auðvelt að falla í þá gryfju að hafa kassana alltof þunga. Maður gerir sér ekki alltaf grein fyrir því hvað bækur eru þungar.

Ég fór líka í sund í hádeginu báða dagana, enda veðrið afskaplega fallegt. Í leiðinni kom ég við í Bónus og sótti kassa því það er víst aldrei of mikið til af kössum þegar flutt er. Annars kom það mér á óvart hvað það var fátt fólk í sundi þessa dagana. Á samskonar sólardögum hér á Akureyri þá flykkist fólk í sundlaugina, en þarna voru örfáar hræður í sundi. Mér tókst nú að gera einni konu greiða. Hún hafði týnt gúmmíinu utan af öðru glerinu á sundgleraugunum sínum, og ég fann sá það marandi í kafi, rétt upp við bakkann. Konan var þvílíkt ánægð, enda voru bæði hún og maðurinn hennar búin að leita árangurslaust að þessu.

Seinni partinn í gær fór ég í smá útsýnisferð um plássið. Veðrið var svo yndislegt og mamma vildi endilega að ég tæki mér pásu frá vinnunni, og stakk uppá því að ég færi út á bílnum. Sem ég og gerði. Byrjaði á því að fara niður að sjónum, rétt hjá Bónus/Hagkaup/Húsasmiðjunni, en þar er svaka flott útivistarsvæði. Þar komst ég í ljósmyndastuð því skýjafarið var svo fallegt, en var jú ekki með myndavélina meðferðis þannig að síminn þurfti að nægja í þetta sinn. Síðan ók ég eins nálægt sjónum og ég komst, áfram í átt að Innri-Njarðvík, og fann þar á smá kafla alveg ekta „úti á landi-smábæjar-sjávarpláss-stemmingu“ sem hlýtur að vera arfleifð gamals tíma, og var gaman að finna nánast í þéttbýlinu. Ég tók slatta af myndum á farsímann og þær fylgja sumar hér með þessari færslu. Reyndar var ég búin að birta þær á facebook en myndagæðin eru svo ömurleg þar, þannig að ég ákvað að skella þeim bara hingað líka. Brandarinn er náttúrulega sá að ég fattaði ekki að taka myndir af mömmu og Ásgrími, er svo gjörsamlega orðin föst í landslagsmyndunum að ég man aldrei eftir að taka persónulegar myndir.

Allt tekur enda, og þó ég hefði svo gjarnan viljað stoppa lengur og ná að gera meira, þá var víst komið að heimferð í dag. Mamma ók mér á rútubílastöðina í Keflavík og við lögðum af stað þangað um hálf tólf. Rútan fór klukkan tólf af stað til Reykjavíkur en stoppaði oft á leiðinni, auk þess sem hún fór niður í miðbæ áður en hún endaði á umferðamiðstöðinni, svo ég var ekki komin þangað fyrr en að nálgast hálf tvö. Þá tók ég bara leigubíl yfir á flugvöllinn og vélin mín fór norður klukkan tvö.

Heima beið svo Valur og var búinn að baka þessar flottu glúteinlausu „lummur“ og ég fékk þetta fína kaffi-latté með. Hann klykkti svo út með því að grilla lamba-innralæri í kvöldmatinn svo nú er ég aldeilis södd og sæl.
Flott staðsetning - hefði ekkert á móti því að eiga hús við sjóinn.


Girðing við Njarðvíkurkirkju.


Njarðvíkurkirkja.


Þessi síðasta mynd er tekin af tröppunum hjá mömmu og Ásgrími. Mér fannst himininn svo flottur að ég stóðst ekki mátið að smella af.

2 ummæli:

Kristín Björk sagði...

Flottar myndir hjá þér og fallegt skýjafarið. Ég er líka föst í landslagsmyndunum, ég nýt þess betur að mynda náttúru og landslag heldur en fólk. Bestu kveðjur frá Hrísey. Kristín Björk.

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já skýjafarið var sérlega fallegt þennan dag. Takk kærlega fyrir kveðjuna Kristín Björk.