miðvikudagur, 13. mars 2013

Sögupersónur halda fyrir mér vöku


Já það er alltaf eitthvað ... Eins og sumir vita þá er ég núna á námskeið í skapandi skrifum. Eitt af því sem við eigum helst að gera (það er ekki skylda) er að skrifa eitthvað, t.d. byrjun á sögu eða sögubrot, og fá svo gagnrýni hinna þátttakendanna á verkið.

Ég hef verið að humma það fram af mér að gera þetta verkefni, enda pínu taugatrekkjandi tilhugsun að láta aðra lesa og „dæma“ sitt eigið hugarfóstur. En það er til lítils að taka þátt í námskeiðinu ef maður stendur ekki við sinn hlut, svo ég er byrjuð að skrifa nokkrar setningar í því sem gæti hugsanlega orðið lengri saga.

Og þá gerist það að þegar ég er lögst upp í rúm á kvöldin og slaka á, þá fer allt á fullt í höfðinu á mér. Sögupersónur stinga upp kollinum og vangaveltur varðandi innihald og framvindu sögunnar láta á sér kræla. Núna áðan tókst mér ekki að bægja þessu frá mér en fór á fætur til að skrifa hjá mér hugmyndir svo ég myndi ekki gleyma þeim. Fór svo aftur í háttinn en nei nei, ekki tókst mér að sofna þá heldur. Áframhaldandi hugarstarfsemi sá til þess. Þannig að ég gafst upp, fór fram og fékk mér aðeins að borða og settist svo aftur við tölvuna.

Er samt ekki í stuði til að skrifa sjálfa söguna, finnst að ég þurfi „kynnast“ sögupersónunum aðeins betur fyrst. Svo verður spennandi að sjá hvort mér tekst yfir höfuð að leyfa sögunni að flæða út úr kollinum á mér, án þess að drepa hana í fæðingu með fullkomnunaráráttunni ... Það verður áskorun svo ekki sé meira sagt.

Varðandi aðgerðaráætlunina sem ég hef í huga að gera í tengslum við vefjagigtina, þá er ég enn að melta það hvað hún á að innihalda. En ég hef fullan hug á því að búa mér til eitthvað prógramm varðandi hreyfingu, mataræði, hvíld og andlega næringu - og blása til sóknar í baráttunni við þær frænkur síþreytu og vefjagigt. Svo er bara að standa við stóru orðin ... ;-)

Engin ummæli: