miðvikudagur, 6. mars 2013

Já vetur konungur er ekki tilbúinn að sleppa takinu


Enda bjóst ég svo sem aldrei við því að það væri komið vor, þó við höfum fengið nokkra hlýja daga núna í febrúar og byrjun mars. En þó það sé ekkert svo slæmt veður hér norðan heiða í dag, miðað við veðrið annars staðar á landinu, þá get ég ekki sagt að það freisti mín mikið að vera úti núna.

Ég fór nú samt í vinnuna í morgun eins og lög gera ráð fyrir. Þar var ósköp rólegt og ég eyddi dágóðum tíma í að telja bolla, undirskálar, diska ofl. í Pronto línunni sem við erum að selja. Það eru margir litir í þessari línu og sumir kaupa bara bolla og sleppa undirskálunum, á meðan aðrir kaupa kannski mismunandi lita bolla og undirskálar. Svo hangir leirtauið á standi og blandast allt saman, svo erfitt er að hafa yfirlit yfir það hvað er til og hvað vantar. En ég náði að minnsta kosti að gera alls herjar vörutalningu í þessari línu í morgun, enda var góður friður til þess.

Talandi um vinnuna þá virðist sú saga hafa komist á kreik að Pottar og prik séu ef til vill að hætta. Ástæðan er líklega sú að tvær aðrar verslanir á torginu eru nýlega hættar og þá kemur uggur í fólk varðandi búðirnar sem eftir eru. En svo það sé alveg á hreinu þá erum við ekki að fara neitt.

Ég hef verið eitthvað verri í skrokknum undanfarið og veit ekki hvað veldur. Eins og t.d. núna þá verkjar mig í hendurnar þegar ég er að skrifa, já og bara í allan skrokkinn. Kannski eru það veðrabreytingarnar sem segja svona til sín. Ég vona a.m.k. að þetta ástand vari ekki lengi.

Njótið dagsins.

Engin ummæli: