mánudagur, 25. mars 2013

Friðsæl stund á Svalbarðseyri


Í gær og í dag hefur verið alveg dásamlegt veður hér norðan heiða. En í gær gekk ég á þreytuvegginn, eyddi deginum að mestu leyti í sófanum og fór sama og ekkert út. Í morgun leið mér betur og ákvað að drífa mig út í góða veðrið áður en ég færi í vinnuna. Ók út á Svalbarðseyri, þar sem ég lagði bílnum og rölti um í rólegheitum. Kyrrðin var algjör (fyrir utan nokkra Husky hunda sem tóku smá brjálæðiskast inni í lokaðri girðingu) og ég sat lengi á steini og bara andaði að mér súrefni og leyfði sólinni að skína aðeins framan í mig. Blái liturinn á sjónum var ólýsanlega fallegur og himinn og haf runnu saman í eitt út við sjóndeildarhring. Nokkrar endur syntu á sjónum og einstaka hrafn flaug framhjá. Tveir tjaldar tylltu sér á stein. Já, þetta var sannkölluð unaðsstund.

Engin ummæli: