þriðjudagur, 5. mars 2013

Hin ágætasta höfuðborgarferð að baki

Anna systir kom til landsins s.l. miðvikudag og var að heimsækja mömmu og vinkonur sínar í Reykjavík. Þá var náttúrulega ekki annað hægt fyrir mig en að skella mér suður til að hitta hana.

Ég flaug suður á föstudagskvöldið og Anna náði í mig á flugvöllinn. Þaðan fórum við í vinnuna til Berglindar dóttur Rósu vinkonu, en Rósa var svo yndisleg að leyfa mér að gista. Hún sjálf hafði ekki verið á landinu en kom síðar um kvöldið.

Á laugardeginum fengum við Rósa okkur morgunmat og sátum og spjölluðum, þar til Anna systir kom og sótti mig. Þá fórum við á Kjarvalsstaði og skoðuðum sýningarnar þar. Þaðan fórum við á Gló og fengum okkur síðbúinn hádegisverð. Þangað kom svo Solla vinkona Önnu og saman fórum við þrjár í Kringluna. Það hefði nú verið gaman að fara frekar í miðbæinn en veðrið kom í veg fyrir það. Leiðinda rigning og kalsi. Við kíktum í fatabúðir og Anna keypti sér eitthvað sumarlegt og sætt ... en það eina sem ég keypti var svört vetrarpeysa (sem var með 60% afslætti). Ég er alltaf á útkíkki eftir hlýjum fatnaði sem ég get notað í vinnuna því það er oft svo kalt í búðinni hjá okkur á veturna. Sérstaklega þegar kalt er úti og fáir viðskiptavinir á ferli, því þá hreyfir maður sig svo lítið.

Svo þurfti Solla að fara en við Anna fórum á kaffihús og sátum þar lengi og spjölluðum saman. Litum svo örsnöggt inn í eina fatabúð í viðbót, áður en Kringlan lokaði kl. 18. Anna var svo boðin í mat og átti að mæta þangað kl. 19 en við Rósa höfðum sammælst um að borða saman, þannig að Anna skutlaði mér næst heim til Rósu.

Það tók nú smá tíma að finna veitingastað sem hafði laust borð þetta kvöld, þar sem Food and fun hátíðin var í fullum gangi. Það hafðist þó fyrir rest og við fórum á veitingastað sem heitir Harry's og hefur fengið góð meðmæli ferðamanna á Trip Advisor. Maturinn var líka alveg ágætur og á hagstæðu verði.  Eftir matinn fórum við bara heim aftur því ég var hálf lúin en sátum svo og möluðum fram undir miðnætti. Það er margt að ræða þegar gamlar æskuvinkonur hittast sjaldan.

Á sunnudeginum fórum við Anna saman í sund í Laugardalslaugina. Ég synti nú ekki nema tvær ferðir (heila 100 metra ... ) enda hef ég ekki farið nema einu sinni í sund á þessu ári og sundvöðvarnir ekki í þjálfun. En við fórum líka í gufu og sjóvatns-pott. Sólin lét meira að segja sjá sig þegar við sátum í pottinum svo það var mjög notalegt. Eftir sundið leituðum við að stað til að borða á og komumst að því að allir heilsu-veitingastaðir eru lokaðir á sunnudögum. Fórum þá á stað sem heitir Serranos og er á Höfðatorgi, og þar var hægt að fá þetta fína salat. Við sátum góða stund og borðuðum og spjölluðum en tíminn leið alltof hratt og brátt þurfti ég að fara á flugvöllinn. Anna keyrði mig þangað og sat hjá mér í smá stund. Við áttuðum okkur á því að við höfðum steingleymt að taka myndir og smelltum af „sjálfsmyndum“ á farsímana okkar, sem tókust nú reyndar ekki sérlega vel. Við erum ekki jafn þjálfaðar í þeim bransa eins og unga fólkið.En já flugið mitt fór svo í loftið kl. 15 og þar með lauk þessari ágætu suðurferð. Það var voða gaman að hitta bæði Önnu og Rósu, já og Sollu vinkonu Önnu, en ekki gafst tími til að hitta fleiri í þessari ferð. Það verður bara næst.

Valur sótti mig svo á völlinn og gaf mér kaffi þegar ég kom heim. Eftir kaffið var víst engin spurning hvað ég myndi gera næst ... og ég steinsofnaði á sófanum og svaf í heila tvo klukkutíma. Það hindraði mig nú ekki frá því að fara nokkuð snemma að sofa um kvöldið og steinsofa alla nóttina. Alltaf gott að geta hvílt lúin bein ;-)

Engin ummæli: