mánudagur, 11. mars 2013

Smá innsæi ...

Það kviknaði allt í einu á perunni hjá mér seint í gærkvöldi AF HVERJU ég er að taka þessa þreytu mína svona mikið nærri mér þessa dagana. Jú það er vegna þess að núna er ca. ár síðan fór ég á Kristnes í endurhæfingu og batt miklar vonir við að það væri byrjunin á betra lífi fyrir mig. Þegar sú endurhæfing var búin hafði ég komist uppá næsta þrep, getulega séð, og fannst ég hafa grætt töluvert á verunni þar, bæði andlega og líkamlega. Undanfarið hef ég verið að hugsa töluvert um veru mína á Kristnesi og líklega eru það vonbrigðin yfir því að vera aftur orðin jafn léleg og ég var fyrir Kristnes, sem eru að valda því að ég er svona miður mín yfir þessu öllu.

Það þýðir samt ekkert að festast í því að vera miður sín ... Ég þarf rjúfa þennan vítahring sem ég er komin í núna, hvernig svo sem ég fer að því.  Helst þarf ég að búa mér til einhverja aðgerðaráætlun og standa svo við hana!! Til dæmis veit ég að ég þarf að minnka kolvetnin í fæðunni hjá mér, og ég þarf að setja reglulega hreyfingu inn í prógrammið, hversu lítil sem hún er. Það er líka alveg spurning hvort það borgi sig fyrir mig að halda áfram í leikfimini hjá Eydísi, meðan ég er svona léleg, því ég er alveg tvo sólarhringa að jafna mig eftir leikfimitíma ef ég fer í tíma þegar ég er illa upplögð. Ég t.d. sleppti því að fara í morgun og held að það hafi verið rétt ákvörðun.

En já ég er sem sagt að komast upp úr þessum andlega forarpytti, sem ég virðist alltaf falla ofan í þegar þreytan er orðin það mikil að hún sýrir alla mína hugsun.

Njótið dagsins.

Engin ummæli: