miðvikudagur, 27. mars 2013

Enn einn dýrðardagurinn

hvað veðrið snertir. Það var reyndar skýjað og snjómugga í morgun en birti til fyrir hádegið og þegar þessi mynd var tekin um hádegisbilið var sólin farin að skína. Ég fór í stuttan göngutúr í hverfið hér fyrir ofan. Þar er hægt að ganga út á klappirnar fyrir norðan Háagerði og þaðan er útsýni yfir hluta bæjarins og Kaldbak. Sem þessi mynd sýnir reyndar ekki ... en blái himininn sést að minnsta kosti að hluta til ;)


Annars var enn ein tannlæknaheimsóknin í morgun og vá hvað ég er að verða þreytt á þessu. Hann var að vinna í því að rótarfylla tönnina (3ja skipti sem verið er að vinna í þessari sömu tönn) og svo náði hann ekki að klára, þrátt fyrir að ég væri í heilan klukkutíma í stólnum. Ég er núna búin að læra að það er ekki gáfulegt fyrir mig að byrja frídaginn minn á því að fara til tannlæknis. Það tekur mig marga klukkutíma að jafna mig og dagurinn þar með nánast ónýtur. En já, svo lengi lærir sem lifir ...

Ég er að vinna á morgun og síðan er ég komin í fjögurra daga frí, svo fremi sem ekkert óvænt kemur uppá. Það er undarleg tilfinning því mér finnst að þá „ætti ég“ að fara á fullt og nota þennan frítíma í eitthvað skemmtilegt. En á sama tíma má ég jú helst ekki ofkeyra mig svo ég upplifi mig eiginlega svolítið í hálfgerðri klemmu með þetta allt saman.

þriðjudagur, 26. mars 2013

Páskagestir á leið norður



Andri og Freyja vinkona hans eru að koma norður og verða hjá okkur um páskana. Það verður gaman að fá þau í heimsókn. Við Valur erum bæði í fríi yfir sjálfa páskahelgina en það er ekki neitt sérstakt á áætlun hjá okkur. Enda fer það víst alfarið eftir ástandinu á frúnni hvað er hægt að gera. Hrefna og Egil fara til Tyrklands um páskana og það er spurning hvort maður verði ekki að vara þau sérstaklega við því að kaupa ekki eitthvað á götumarkaði sem gæti hugsanlega verið fornmunur, svo þau lendi ekki í sama veseninu og þetta blessað fólk þarna um daginn.

Annars er víst fátt í fréttum. Ég ók með Ísak um bæinn áðan og hann sótti um vinnu hér og þar. Það er alltaf þetta sama mál með að fá sumarvinnu og undanfarin ár hefur hann einungis fengið vinnu hluta úr sumri hjá Akureyrarbæ. Það er bara alls ekki nóg fyrir 18 ára gamlan strák, sem hangir þá alltof mikið í tölvu ef hann hefur ekki vinnu. Svo vonandi fær hann nú eitthvað að gera.

Hér er svo önnur mynd frá Svalbarðseyri. Eins og alltaf þegar ég hef ekki tekið myndir lengi þá finnst mér fáar myndir heppnast vel, en ég er þokkalega sátt við þessa. Ég var reyndar með svo skemmtilega linsu í láni hjá Val, 35 mm. linsu sem minnir á linsurnar á myndavélunum í „gamla daga“.

mánudagur, 25. mars 2013

Friðsæl stund á Svalbarðseyri


Í gær og í dag hefur verið alveg dásamlegt veður hér norðan heiða. En í gær gekk ég á þreytuvegginn, eyddi deginum að mestu leyti í sófanum og fór sama og ekkert út. Í morgun leið mér betur og ákvað að drífa mig út í góða veðrið áður en ég færi í vinnuna. Ók út á Svalbarðseyri, þar sem ég lagði bílnum og rölti um í rólegheitum. Kyrrðin var algjör (fyrir utan nokkra Husky hunda sem tóku smá brjálæðiskast inni í lokaðri girðingu) og ég sat lengi á steini og bara andaði að mér súrefni og leyfði sólinni að skína aðeins framan í mig. Blái liturinn á sjónum var ólýsanlega fallegur og himinn og haf runnu saman í eitt út við sjóndeildarhring. Nokkrar endur syntu á sjónum og einstaka hrafn flaug framhjá. Tveir tjaldar tylltu sér á stein. Já, þetta var sannkölluð unaðsstund.

sunnudagur, 24. mars 2013

Áhyggjur óþarfar - námskeiðið gekk vel




Tíminn í dag var mjög skemmtilegur. Það var fjallað um allar sögurnar og sögubrotinu mínu var bara vel tekið. Anna Heiða hvatti mig til þess að klára að skrifa bók og senda í næstu samkeppni um íslensku barnabókaverðlaunin. Ég var voða glöð að svona jákvæðar undirtektir, enda var ég búin að hafa dálítið fyrir þessu og leið vel með textann sem ég lét frá mér. Að minnsta kosti til að byrja með, hehe, eða þar til púkinn á öxlinni fór að lauma að mér efasemdum. Jamm og jæja, nú er námskeiðið hins vegar búið og framhaldið algjörlega undir sjálfri mér komið.

Ég var nú eiginlega alveg búin á því þegar ég kom heim en Valur gaf mér gott kaffi og ég hresstist nógu mikið til að geta farið út að ganga. Ég tók myndavélina með mér en tók að vísu ekki margar myndir. Sól sem myndaði endurkast í skítugum polli var samt pínu skemmtilegt viðfangsefni. Rakst óvænt á vinafólk okkar frá Tromsö og það yljar alltaf um hjartarætur að hitta gamla vini.

Valur eldaði dýrindis lambakjöt á teini (grillaði) í kvöldmatinn og svo horfðum við á Lewis og Hathaway á dönsku stöðinni. Þeir standa alltaf fyrir sínu.

Ég hef líka verið að vinna í því að koma ljósmyndunum mínum út af harða diskinum í tölvunni en það gengur hægt því þetta eru svo stórar skrár. Núna er ég t.d. að exportera tæplega 10 þúsund myndum úr Iphoto en ég notaði Iphoto í rúmt ár og hef greinilega verið nokkuð iðin við kolann í ljósmynduninni á því tímabili.

En já glöggir menn og konur taka ef til vill eftir því að þessi bloggfærsla er skrifuð á þeim tíma sólarhrings sem ég er venjulega steinsofandi. Ætli hugur minn hafi ekki enn verið að melta atburði dagsins, auk þess sem sögupersónur bönkuðu á dyrnar, og það var ekki séns að ég gæti sofnað þegar ég fór inn í rúm áðan. Gengur vonandi betur í næstu tilraun ;)

föstudagur, 22. mars 2013

Svona lítur Ísak út ... fyrir þá sem sjá hann sjaldan


Hann þarf að fara að sækja um vinnu í sumar og er búinn að búa til ferilskrá (eða á a.m.k. að vera búinn að því) en mér fannst vanta nýja mynd af honum til að setja í ferilskrána. Hins vegar var drengurinn orðinn full lubbalegur fyrir smekk móðurinnar, svo ég hef verið að tuða í honum í þónokkurn tíma núna að fara í klippingu, þannig ég geti tekið mynd af honum nýklipptum. Það hafðist loks í dag og hér má sjá árangurinn. Þetta er nú bara svona „snapshot“ og hann kipraði augun fullmikið saman vegna þess hve bjart var úti, en ég er alveg þokkalega sátt við árangurinn. Að minnsta kosti er þetta nógu fín mynd til að fara í ferilskrána ;)

Annars er það helst títt að á morgun er loks aftur námskeiðsdagur í Hofi. Þá á að fjalla um sögurnar sem við skrifuðum síðan síðast. Úff, ég er ótrúlega kvíðin eitthvað fyrir þessu, eins fáránlegt og það er. Ef manni finnst svona óþægilegt að láta ræða lítið sögubrot í lokuðum hópi, hversu óþægilegt ætli sé þá að birta/gefa út heilt verk eftir sjálfan sig?

Nú þarf ég bara að lesa í gegnum verk hinna, til að vera með á nótunum á morgun og geta ef til vill lagt eitthvað til málanna. Ég er búin að lesa lauslega í gegnum flestar sögurnar en þarf að gera það betur.

fimmtudagur, 21. mars 2013

Gömlurnar ...


Já við Birta gamla þurftum nauðsynlega að leggja okkur aðeins áðan ;-) Þó ég væri þreytt þá var ég samt á hálfgerðum yfirsnúningi og náði ekki að slaka sérlega vel á. Þannig að ég fór að hamast í símanum mínum og tók þá m.a. þessa mynd af okkur gömlunum. Svo fannst mér myndin bara nokkuð skemmtileg og setti hana á facebook, já og ákvað að nota hana líka hér.

Það var eins og mig grunaði að ég yrði hálf lúin eftir gærdaginn. Samt var stress í mér út af ákveðnu máli og ég var vöknuð fyrir átta í morgun þó ég hefði í sjálfu sér getað sofið lengur. Þannig að eftir að hafa fengið mér sítrónuvatn fór ég út að ganga, einhvern tímann um hálfníu. Það er eins og mig sárvanti súrefni þessa dagana og ég drekk það gjörsamlega í mig þegar ég er úti að ganga. En samt er skrokkurinn og allt "kerfið" eitthvað skrítið, sem sést m.a. á því að eftir smá stund verð ég alveg ógurlega máttlaus og þreytt eitthvað. 

Í dag var ég með Garmin úrið á mér og hér má sjá hvað gerist eftir að ég er búin að ganga í smá stund. Hjartslátturinn snarlækkar og mér reiknast til að það sé ca. á þessum sama tímapunkti að ég verð svona máttlaus. Svo eftir ca. 10-15 mín. göngu kem ég heim og fer að undirbúa morgunmat. Meðan ég svo sit og borða  er púlsinn í kringum 70-80 en síðan eftir matinn þá er greinilegt að líkaminn þarf að erfiða við meltinguna því púlsinn hækkar töluvert og helst þannig á meðan ég þvæ mér um hárið, snyrti mig og klæði. Sem er greinilega mikið álag, hehe ;) Þegar ég skoðaði samskonar línurit frá því á sunnudagsmorguninn, þá hafði það sama gerst með hjartsláttinn, þ.e. hann snarféll þarna í byrjun gönguferðarinnar. Mig grunar að þetta sé ástæðan fyrir því að ég fæ svima og yfirliðs-tilfinningu í morguntímunum í leikfiminni. En já það er ótrúlegt hvað eitt stykki vefjagigt getur ruglað mikið í kerfinu hjá fólki.


Njótið dagsins :)

miðvikudagur, 20. mars 2013

Velkomin aftur :-)


Svona var mér heilsað fallega í sundlauginni í morgun, þegar ég hafði mig loks í sund eftir þriggja mánaða letikast. Það er meira hvað vaninn er sterkur og þegar maður hættir að synda á morgnana þá býr maður til nýjar morgun-venjur og það er ótrúlega erfitt að koma sér af stað aftur í sundið. Vonandi er þetta byrjunin á betri sund-tíð, hehe ;-)

Ég synti nú samt bara 6 ferðir, svona til að drepa mig ekki alveg á þessu, en fjöldi ferðanna er náttúrulega aukaatriði í stóra samhenginu.

Fyrir utan sund í morgun er ég búin að vinna 4 tíma, leggja mig í tæpan klukkutíma, fara á pósthúsið, sitja á hárgreiðslustofu í 2 tíma, fara út að ganga, hita upp kvöldmat handa okkur Ísaki og fara á fund í ljósmyndaklúbbnum. Þetta er nokkuð ströng dagskrá, svona miðað við mig, og ég er pínu spennt að sjá hvernig formið verður á morgun.

Ég þarf samt eiginlega að halda haus fram á laugardag því þá er „hittingur“ á námskeiðinu í skapandi skrifum. Og það fer lunginn úr deginum í hann. Hlakka til og kvíði fyrir.


mánudagur, 18. mars 2013

Kapp er best með forsjá



Já það er gott og blessað að setja sér markmið í sambandi við hreyfingu. Muna bara að það þarf að venja líkamann hægt og rólega við nýjar venjur :-)

En mikið sem mér finnst samt gott að fá mér súrefni.

sunnudagur, 17. mars 2013

Í fréttum er þetta helst ...


  • Mér tókst að klára að skrifa 1. kaflann í hugsanlegri sögu fyrir námskeiðið. Ég var komin með fyrstu málsgreinina fyrir dálitlu síðan en svo reyndist það þrautin þyngri að halda áfram. En já ég ákvað að vinna með hugmyndina sem sat eftir í mér að loknu námskeiðinu hjá Þorvaldi Þorsteinssyni hér um árið. Mér fannst hann eiginlega eiga það inni hjá mér - ef svo má að orði komast. Stóra spurningin er svo hvort ég geri meira með þetta efni. Ég er í raun með hugmyndir sem gætu ábyggilega dugað í heila bók, ef ég spila rétt úr þeim, en þá er það spurning um að gefa sér tíma og hvort maður hefur það úthald sem þarf til að skrifa heila bók. En það væri þó ábyggilega ágætis æfing, þó ekki væri annað. 
  • Ég legg núna höfuðáherslu á að fara út að ganga, a.m.k. einu sinni á dag, helst tvisvar. Er búin að taka aftur fram Garmin hlaupaúrið og mæli vegalengdina sem ég geng, meðalhraða og púls. Mér finnst það gagnast mér vel að halda utan um hreyfinguna á þennan hátt, að minnsta kosti í bili.
  • Ljósmyndasýningu okkar ÁLFkvenna í Safnaðarheimilinu lýkur í dag. Það gæti verið að þessi sama sýning verði sett upp hjá Læknastofum Akureyrar í haust eða næsta vetur en það kemur allt í ljós. 
  • Við Valur létum prenta nokkrar myndir á stóran striga þegar það var á tilboði hjá einhverju fyrirtæki í Reykjavík fyrir jólin. Svo þegar myndirnar voru komnar í hús þá lenti ég í hálfgerðum vandræðum með það hvað ég ætti að gera við mínar tvær myndir. Önnur þeirra er nú komin uppá vegg hér í vinnuherberginu mínu en hin uppá vegg bakvið afgreiðsluborðið í Pottum og prikum. Þar er stór appelsínugulur veggur og myndin, sem er svarthvít, passar ágætlega þar. 
  • Það er eiginlega markmið hjá mér núna að vera minna í tölvu og nota tímann heldur í hluti eins og útiveru og prjónaskap svo dæmi séu nefnd. Ég hef hangið nokkuð mikið í tölvunni þegar ég er svo þreytt að ég hef ekki orku í að gera neitt gáfulegt. Hins vegar er tölvan mín sprungin (full af ljósmyndum) og ég þarf að eyða einhverjum tíma í að færa allar ljósmyndirnar á útstöð (disk station) sem Egil hennar Hrefnu hjálpaði okkur að setja upp um jólin. Nú og ef ég ætla mér að skrifa meira þá reyndar geri ég það í tölvu líka ... En já já það er alltaf gott að hafa fögur fyrirheit. 
  • Ég er að horfa á dagatal hér á skrifborðinu mínu sem Anna systir sendi okkur um jólin. Það er svo ótrúlega flott. Allar myndirnar eru málaðar af fólki sem málar með munninum, svona eins og Edda Heiðrún Backman gerir. Mér finnst það með ólíkindum hvað er hægt að ná mikilli tækni á þennan hátt, svo ekki sé meira sagt. 
  • Hvað síþreytuna mína snertir þá hresstist ég aðeins um miðja síðustu viku og miðvikudagur og fimmtudagur voru allir í áttina. Síðan reyndar vaknaði ég mjög þreytt á föstudegi, en helgin hefur samt ekki verið algjörlega ónýt hjá mér eins og sú síðasta var. Sem sést best á því að ég fór tvisvar út að ganga í gær og skrifaði þennan bókarkafla.
  • Jæja ætli þetta sé ekki orðið ágætt. Mig langar að enda þessa bloggfærslu á að benda á mjög skemmtilegt viðtal við hjónin í Kristnesi, þau Helga Þórsson og Beate Stormo. Þetta viðtal birtist í Kastljósi en ég sá það ekki þar, en það var einhver sem benti á það á facebook. Mér finnst svo frábært að sjá fólk sem er gera allt aðra hluti en margir aðrir og er ekki að eltast við að eiga nýjasta bílinn eða flottasta húsið. Hér er tengillinn á viðtalið.
Njótið dagsins :-)

fimmtudagur, 14. mars 2013

Jamm og jæja ... það er stuð

Ég sit og rembist eins og rjúpan við staurinn (hvaðan skyldi þetta orðtak vera komið?) við að skrifa nokkrar línur í sögunni minni. Fyrirfram hafði ég ákveðið að skrifa bara hráan texta og leyfa þessu að flæða ... en festist alltaf í því að lesa yfir það sem ég hef verið að skrifa og reyna að endurbæta einstakar setningar. Þarf að sleppa takinu ... þetta á bara að vera hrátt fyrst og síðan er hægt að lesa yfir síða og fínpússa. - Sleppa takinu já ... getur verið erfitt fyrir manneskju sem vill helst hafa stjórn á kringumstæðum.

Annars er búið að fresta námskeiðinu sem átti að vera á laugardaginn, um eina viku, þannig að þá hef ég aðeins rýmri frest til að vinna í textanum mínum. Sem er ágætt því ég hef ekki mikið úthald í tölvuvinnu þessa dagana.

Lífið gengur að öðru leyti sinn vanagang. Ég átti frídag í gær og svaf bara út hafði það náðugt. Fór í sund um tvöleytið, sem var frekar fyndið því þá er allt annað fólk í sundi heldur en á morgnana. Það var stór hópur af mæðrum með ungabörn að koma úr ungbarnasundi og sum grétu, önnur hjöluðu og eitt var að fá að drekka hjá mömmu sinni. Því miður sat sú móðir akkúrat fyrir framan skápinn minn þegar ég kom í búningsklefann og ég þurfti að biðja hana að færa sig. Við það sleppti barnið brjóstinu og missti allan áhuga á frekari næringu. Það var miklu skemmtilegra að horfa í kringum sig, enda nóg að gerast.

Það rifjaðist upp fyrir mér að nú eru rúm 18 ár síðan ég var síðast með barn í ungbarnasundi, og ég nefndi það við konurnar. Þá var ein eldri kona sem sagði frá því að fyrir ca. þrjátíu árum síðan hefði hún farið í sund með 2ja mánaða gamla dóttur sína, og í kjölfarið hefði þótt ástæða til að ræða málið á sérstökum kvenfélagsfundi í sveitinni. Hún þótti víst frekar skrítin skrúfa en á þessum tíma bjó hún í Hornafirði og ungbarnasund var ekki komið í tísku. Já tímarnir breytast og mennirnir með!

Aðalfrétt dagsins er nú samt sú að Ísak minn á afmæli í dag, er orðinn 18 ára. Hugsa sér.


Þarna eru þeir feðgar að fara út að labba einhvern tímann um jólaleytið.

miðvikudagur, 13. mars 2013

Sögupersónur halda fyrir mér vöku


Já það er alltaf eitthvað ... Eins og sumir vita þá er ég núna á námskeið í skapandi skrifum. Eitt af því sem við eigum helst að gera (það er ekki skylda) er að skrifa eitthvað, t.d. byrjun á sögu eða sögubrot, og fá svo gagnrýni hinna þátttakendanna á verkið.

Ég hef verið að humma það fram af mér að gera þetta verkefni, enda pínu taugatrekkjandi tilhugsun að láta aðra lesa og „dæma“ sitt eigið hugarfóstur. En það er til lítils að taka þátt í námskeiðinu ef maður stendur ekki við sinn hlut, svo ég er byrjuð að skrifa nokkrar setningar í því sem gæti hugsanlega orðið lengri saga.

Og þá gerist það að þegar ég er lögst upp í rúm á kvöldin og slaka á, þá fer allt á fullt í höfðinu á mér. Sögupersónur stinga upp kollinum og vangaveltur varðandi innihald og framvindu sögunnar láta á sér kræla. Núna áðan tókst mér ekki að bægja þessu frá mér en fór á fætur til að skrifa hjá mér hugmyndir svo ég myndi ekki gleyma þeim. Fór svo aftur í háttinn en nei nei, ekki tókst mér að sofna þá heldur. Áframhaldandi hugarstarfsemi sá til þess. Þannig að ég gafst upp, fór fram og fékk mér aðeins að borða og settist svo aftur við tölvuna.

Er samt ekki í stuði til að skrifa sjálfa söguna, finnst að ég þurfi „kynnast“ sögupersónunum aðeins betur fyrst. Svo verður spennandi að sjá hvort mér tekst yfir höfuð að leyfa sögunni að flæða út úr kollinum á mér, án þess að drepa hana í fæðingu með fullkomnunaráráttunni ... Það verður áskorun svo ekki sé meira sagt.

Varðandi aðgerðaráætlunina sem ég hef í huga að gera í tengslum við vefjagigtina, þá er ég enn að melta það hvað hún á að innihalda. En ég hef fullan hug á því að búa mér til eitthvað prógramm varðandi hreyfingu, mataræði, hvíld og andlega næringu - og blása til sóknar í baráttunni við þær frænkur síþreytu og vefjagigt. Svo er bara að standa við stóru orðin ... ;-)

mánudagur, 11. mars 2013

Smá innsæi ...

Það kviknaði allt í einu á perunni hjá mér seint í gærkvöldi AF HVERJU ég er að taka þessa þreytu mína svona mikið nærri mér þessa dagana. Jú það er vegna þess að núna er ca. ár síðan fór ég á Kristnes í endurhæfingu og batt miklar vonir við að það væri byrjunin á betra lífi fyrir mig. Þegar sú endurhæfing var búin hafði ég komist uppá næsta þrep, getulega séð, og fannst ég hafa grætt töluvert á verunni þar, bæði andlega og líkamlega. Undanfarið hef ég verið að hugsa töluvert um veru mína á Kristnesi og líklega eru það vonbrigðin yfir því að vera aftur orðin jafn léleg og ég var fyrir Kristnes, sem eru að valda því að ég er svona miður mín yfir þessu öllu.

Það þýðir samt ekkert að festast í því að vera miður sín ... Ég þarf rjúfa þennan vítahring sem ég er komin í núna, hvernig svo sem ég fer að því.  Helst þarf ég að búa mér til einhverja aðgerðaráætlun og standa svo við hana!! Til dæmis veit ég að ég þarf að minnka kolvetnin í fæðunni hjá mér, og ég þarf að setja reglulega hreyfingu inn í prógrammið, hversu lítil sem hún er. Það er líka alveg spurning hvort það borgi sig fyrir mig að halda áfram í leikfimini hjá Eydísi, meðan ég er svona léleg, því ég er alveg tvo sólarhringa að jafna mig eftir leikfimitíma ef ég fer í tíma þegar ég er illa upplögð. Ég t.d. sleppti því að fara í morgun og held að það hafi verið rétt ákvörðun.

En já ég er sem sagt að komast upp úr þessum andlega forarpytti, sem ég virðist alltaf falla ofan í þegar þreytan er orðin það mikil að hún sýrir alla mína hugsun.

Njótið dagsins.

sunnudagur, 10. mars 2013

Varúð - vælupistill !!

Gamli sorrí Gráni
er gagnslaus og smáður
gisinn og snjáður
meðferð illri af. 

Hann er feyskinn og fúinn
og farinn og lúinn
og brotinn og búinn að vera.
Hann er þreyttur og þvældur og

þunglyndur og spældur 
og beizkur og bældur í huga.
(Megas)  
Á föstudaginn var ég svo gjörsamlega búin á því eftir vinnuvikuna að ég treysti mér ekki að fara með Val á Rub23 þar sem LA var með aðalfund og svo var matur með mökum á eftir. 

Í gærmorgun vaknaði ég úrvinda af þreytu um hálf níu leytið og eftir að hafa borðað morgunmat þá varð ég ennþá þreyttari. Það var því ekki annað í stöðunni en leggja sig og ég lá á sófanum frá ca. 10-13:30. Ég var of þreytt til að geta lesið og bara lá fyrst í stað með lokuð augun en sofnaði síðan fyrir rest og svaf í eina tvo tíma. Það var ekki fyrr en um fjögurleytið að ég hafði safnað mér nægilega saman til að treysta mér út úr húsi. Þá skrapp ég örsnöggt í sund en synti ekki nema fjórar ferðir.

Mér finnst þetta ástand svo fáránlegt og það er engin leið að lýsa því hvernig tilfinning það er að liggja nánast meðvitundarlaus heima í sófa þegar sólin skín úti og veður gerist ekki betra til útiveru.


Svo skil ég bara ekki hvernig er hægt að vera svona endalaust þreyttur. Já og með verki í skrokknum, hjartsláttartruflanir, svima, eyrnasuð og almennan slappleika í ofanálag.

Auðvitað er þetta ástand ekkert nýtt. Það er bara misjafnt hversu slæm ég er og hvað ég tek þetta nærri mér. Fyrstu árin hugsar maður að þetta sé nú ábyggilega tímabundið, og ef maður harki bara nóg af sér þá lagist þetta. Og ég harkaði endalaust af mér, fór í vinnuna og jafnvel í ljósmyndaferðir með Val og bara beit saman tönnum og fór þetta á hörkunni. Smám saman hefur flest annað en vinnan orðið undan að láta. Ég reyni að mæta í vinnuna sama hversu þreytt eða veik ég er en það þýðir líka að ég á mér nánast ekki líf utan vinnunnar.

Ég mæti sjaldan á fundi í ljósmyndaklúbbnum og fer ekki í ljósmyndaferðir með þeim, býð aldrei neinum heim, fer sjaldan eða aldrei í heimsóknir. Leikhús, tónleikar og bíó er varla til í orðabókinni lengur. Ég er meira að segja varla að þola leikfimina lengur, sem er ekki gott, því þetta er jú leikfimi fyrir fólk eins og mig. Og akkúrat núna þá er ég ekki að meika þetta ástand lengur!!

Ég las einhvers staðar að vefjagigtarsjúklingar ættu helst aldrei að nota meira en 60% af þeirri orku sem þeir hefðu, til þess að tæma ekki tankinn. Tankurinn minn er löngu tómur og ég er í raun alltaf að keyra á varatankinum og næ aldrei að hlaða hann fullan. Þess vegna er ég svona þreytt. (Þetta er skýring sem Ingvar Þóroddsson endurhæfingarlæknir á Kristnesi kom með).

En einn dagur um helgi dugar mér ekki til að safna mér saman fyrir næstu vinnuviku. Þannig að þó ég hafi hvílt mig í allan gærdag þá var ég enn þreytt þegar ég vaknaði í morgun (og er enn þreytt...). Það var ekki fyrr en um tvöleytið að ég fór í sturtu og svo fórum við Valur aðeins út. Röltum á myndlistarsýningar og á kaffihús og það var voða notalegt. Gott líka að dreifa huganum aðeins eftir að hafa stundað endalausa niðurrifsstarfsemi í allan gærdag. 

Hrefna mín hringdi reyndar líka í mig í morgun á Skype og það var gaman að heyra í henni. Fóturinn allur að koma til, röntgenmyndirnar litu vel út og hún má byrja að stíga örlítið í fótinn. Svo losnar hún við göngugifsið áður en þau fara til Tyrklands um páskana.

Já þetta var vælupistill dagsins. Sem ég var búin að skrifa en ætlaði fyrst ekki að birta. En ákvað svo að láta samt slag standa. Ég lofa bót og betrun í næsta pistli.

Svo verð ég líka að koma mér upp einhverri nýrri aðferðafræði í baráttunni við vefjagigtina. Það er nokkuð ljóst að þær aðferðir sem ég er að nota núna eru ekki að virka nógu vel... 

miðvikudagur, 6. mars 2013

Já vetur konungur er ekki tilbúinn að sleppa takinu


Enda bjóst ég svo sem aldrei við því að það væri komið vor, þó við höfum fengið nokkra hlýja daga núna í febrúar og byrjun mars. En þó það sé ekkert svo slæmt veður hér norðan heiða í dag, miðað við veðrið annars staðar á landinu, þá get ég ekki sagt að það freisti mín mikið að vera úti núna.

Ég fór nú samt í vinnuna í morgun eins og lög gera ráð fyrir. Þar var ósköp rólegt og ég eyddi dágóðum tíma í að telja bolla, undirskálar, diska ofl. í Pronto línunni sem við erum að selja. Það eru margir litir í þessari línu og sumir kaupa bara bolla og sleppa undirskálunum, á meðan aðrir kaupa kannski mismunandi lita bolla og undirskálar. Svo hangir leirtauið á standi og blandast allt saman, svo erfitt er að hafa yfirlit yfir það hvað er til og hvað vantar. En ég náði að minnsta kosti að gera alls herjar vörutalningu í þessari línu í morgun, enda var góður friður til þess.

Talandi um vinnuna þá virðist sú saga hafa komist á kreik að Pottar og prik séu ef til vill að hætta. Ástæðan er líklega sú að tvær aðrar verslanir á torginu eru nýlega hættar og þá kemur uggur í fólk varðandi búðirnar sem eftir eru. En svo það sé alveg á hreinu þá erum við ekki að fara neitt.

Ég hef verið eitthvað verri í skrokknum undanfarið og veit ekki hvað veldur. Eins og t.d. núna þá verkjar mig í hendurnar þegar ég er að skrifa, já og bara í allan skrokkinn. Kannski eru það veðrabreytingarnar sem segja svona til sín. Ég vona a.m.k. að þetta ástand vari ekki lengi.

Njótið dagsins.

þriðjudagur, 5. mars 2013

Hin ágætasta höfuðborgarferð að baki

Anna systir kom til landsins s.l. miðvikudag og var að heimsækja mömmu og vinkonur sínar í Reykjavík. Þá var náttúrulega ekki annað hægt fyrir mig en að skella mér suður til að hitta hana.

Ég flaug suður á föstudagskvöldið og Anna náði í mig á flugvöllinn. Þaðan fórum við í vinnuna til Berglindar dóttur Rósu vinkonu, en Rósa var svo yndisleg að leyfa mér að gista. Hún sjálf hafði ekki verið á landinu en kom síðar um kvöldið.

Á laugardeginum fengum við Rósa okkur morgunmat og sátum og spjölluðum, þar til Anna systir kom og sótti mig. Þá fórum við á Kjarvalsstaði og skoðuðum sýningarnar þar. Þaðan fórum við á Gló og fengum okkur síðbúinn hádegisverð. Þangað kom svo Solla vinkona Önnu og saman fórum við þrjár í Kringluna. Það hefði nú verið gaman að fara frekar í miðbæinn en veðrið kom í veg fyrir það. Leiðinda rigning og kalsi. Við kíktum í fatabúðir og Anna keypti sér eitthvað sumarlegt og sætt ... en það eina sem ég keypti var svört vetrarpeysa (sem var með 60% afslætti). Ég er alltaf á útkíkki eftir hlýjum fatnaði sem ég get notað í vinnuna því það er oft svo kalt í búðinni hjá okkur á veturna. Sérstaklega þegar kalt er úti og fáir viðskiptavinir á ferli, því þá hreyfir maður sig svo lítið.

Svo þurfti Solla að fara en við Anna fórum á kaffihús og sátum þar lengi og spjölluðum saman. Litum svo örsnöggt inn í eina fatabúð í viðbót, áður en Kringlan lokaði kl. 18. Anna var svo boðin í mat og átti að mæta þangað kl. 19 en við Rósa höfðum sammælst um að borða saman, þannig að Anna skutlaði mér næst heim til Rósu.

Það tók nú smá tíma að finna veitingastað sem hafði laust borð þetta kvöld, þar sem Food and fun hátíðin var í fullum gangi. Það hafðist þó fyrir rest og við fórum á veitingastað sem heitir Harry's og hefur fengið góð meðmæli ferðamanna á Trip Advisor. Maturinn var líka alveg ágætur og á hagstæðu verði.  Eftir matinn fórum við bara heim aftur því ég var hálf lúin en sátum svo og möluðum fram undir miðnætti. Það er margt að ræða þegar gamlar æskuvinkonur hittast sjaldan.

Á sunnudeginum fórum við Anna saman í sund í Laugardalslaugina. Ég synti nú ekki nema tvær ferðir (heila 100 metra ... ) enda hef ég ekki farið nema einu sinni í sund á þessu ári og sundvöðvarnir ekki í þjálfun. En við fórum líka í gufu og sjóvatns-pott. Sólin lét meira að segja sjá sig þegar við sátum í pottinum svo það var mjög notalegt. Eftir sundið leituðum við að stað til að borða á og komumst að því að allir heilsu-veitingastaðir eru lokaðir á sunnudögum. Fórum þá á stað sem heitir Serranos og er á Höfðatorgi, og þar var hægt að fá þetta fína salat. Við sátum góða stund og borðuðum og spjölluðum en tíminn leið alltof hratt og brátt þurfti ég að fara á flugvöllinn. Anna keyrði mig þangað og sat hjá mér í smá stund. Við áttuðum okkur á því að við höfðum steingleymt að taka myndir og smelltum af „sjálfsmyndum“ á farsímana okkar, sem tókust nú reyndar ekki sérlega vel. Við erum ekki jafn þjálfaðar í þeim bransa eins og unga fólkið.



En já flugið mitt fór svo í loftið kl. 15 og þar með lauk þessari ágætu suðurferð. Það var voða gaman að hitta bæði Önnu og Rósu, já og Sollu vinkonu Önnu, en ekki gafst tími til að hitta fleiri í þessari ferð. Það verður bara næst.

Valur sótti mig svo á völlinn og gaf mér kaffi þegar ég kom heim. Eftir kaffið var víst engin spurning hvað ég myndi gera næst ... og ég steinsofnaði á sófanum og svaf í heila tvo klukkutíma. Það hindraði mig nú ekki frá því að fara nokkuð snemma að sofa um kvöldið og steinsofa alla nóttina. Alltaf gott að geta hvílt lúin bein ;-)