... og þema gærdagsins. Samviskubit lætur á sér kræla - ég verð jú að GERA eitthvað. En nei ég verð ekki að gera neitt. Nú má ég bara hvíla mig. Hvíld er góð. Ég hef sofið tíu tíma núna tvær nætur í röð + tekið lúr í sófanum að degi til. Þvegið þvott og lesið bækur.
Í gær las ég Undantekninguna eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Reyndi að treina mér hana. Les yfirleitt bækur í einum rykk en tókst að skipta henni niður í nokkra áfanga. Kláraði samt í gærkvöldi og varð hissa þegar bókin var búin. Hafði ekki áttað mig á því að það nálgaðist bókarlok og svo endaði hún í raun ekki. Það pirrar mig þegar bækur og kvikmyndir enda ekki. Það er að segja, allt í einu hættir frásagan bara og engin ákveðin lokaniðurstaða verður í tengslum við þau mál sem hvíla á sögupersónunni. En um leið er jú bók sem ekki endar, á vissan hátt meira í takt við lífið sjálft. O jæja.
Í gær og í dag gluggaði ég líka í bók um ljósmyndun, sem Hrefna gaf okkur Val í jólagjöf. Eins skoðaði ég
bók sem Valur gaf mér í jólagjöf. Það er bók með myndum eftir barnapíuna og áhugaljósmyndarann
Vivian Meier sem tók ógrynni af götu- og mannlífsljósmyndum meðan hún lifði, en sýndi engum myndirnar sínar. Það var ekki fyrr en eftir dauða hennar að maður að nafni John Maloof keypti kassa með filmum og myndum hennar á uppboði, og uppgötvaði hversu frábær ljósmyndari hún hafði verið.
Enn ein bókin sem ég hef aðeins kíkt í er Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson en hún var gjöf frá mér til Vals. Sem sagt, engin ástæða til að láta sér leiðast þrátt fyrir eilífðarafslöppun dagsins í dag og gærdagsins. Í gær drattaðist ég nú reyndar út að ganga einn lítinn hring í hverfinu en því var ekki að heilsa í dag. En svo er víst vinnudagur á morgun. Úff! Get ekki sagt að ég sé tilbúin til að fara að vinna aftur eftir þessa miklu törn en svo er samt ábyggilega líka gott að fara aðeins út úr húsi.
Annars áttum við hið besta aðfangadagskvöld. Valur eldaði tvíréttað (hamborgarahrygg og hangikjöt) og allir voru mjög afslappaðir en jafnframt hressir og kátir. Hér koma nokkrar myndir, bara svona til að sýna fjarstöddum ættingjum hvernig við lítum út ;-) Valur tók allar myndirnar (nema þær sem sýna hann sjálfan...) bara svo það sé nú alveg á hreinu.
Það eru nokkrir pottar sem þarf að nota þegar eldað er tvíréttað.
Hrefna lagði á borð og skreytti svona fallega. Mig langar að mála endavegginn í hlýjum gráum lit, en hef ekki ennþá komið því í verk að velja litinn.
Hrefna og Andri að bíða eftir því að borðhaldið hefjist. Ísak hljóp fram að sækja eitthvað.
Gamla sjálf, með blómkáls- og kasjúhnetu"mús" í skál. Hin fengu hefðbundna heimatilbúna kartöflustöppu, nammi namm, sem ég má víst ekki borða.
Ísak kominn að borðinu og allir tilbúnir að byrja að borða - nema ljósmyndarinn sem þurfti að smella af fleiri myndum ...
... og vera sjálfur með á mynd líka. Ennþá með sparisvuntuna á sér, sem Anna systir saumaði og gaf honum í jólagjöf fyrir löngu síðan.
Hér erum við búin að borða, og líklega búin að opna pakkana líka, en Ísak sótti Birtu til að hún fengi að vera aðeins með í partýinu. Og fær þar af leiðandi líka að vera með í þessari myndasyrpu.
P.S. Ég passaði mig sérstaklega að birta bara myndir af mér sem teknar voru fyrripart kvölds, á meðan ég hélt ennþá haus, hehe ;) Var orðin heldur sjoppuleg og þreytt þegar leið á kvöldið.