fimmtudagur, 14. maí 2009

Vá þvílík blíða

Úti er sól, sunnangola og hvorki meira né minna en 20 stiga hiti. Ég fór á smá bæjarrölt áðan og fannst ég bara nokkuð léttklædd, í svörtum buxum og langerma bol, en mér hefði svo sannarlega verið óhætt að vera sumarlegri til fara. Það er allt að verða grænt niðri í bæ og þar í kring en vantar ennþá eitthvað uppá að lóðin okkar verði alveg græn. Við erum reyndar ekki byrjuð á neinum vorverkum í garðinum ennþá, aðallega vegna þess að Valur var veikur og garðurinn hefur víst verið nánast alfarið á hans könnu undanfarin 10 ár eða svo.

Í bænum kíkti ég í nokkrar fatabúðir með lélegum árangri. Mig langar í einhverja nýja sumarlega flík sem ég get notað í vinnunni en það eina sem ég fann var svartur bolur (sem sagt ekki sérlega sumarlegur!). En ég ákvað að gera mér dagamun þar sem ég var nú einu sinni komin út úr húsi og fór á grænmetisstaðinn og fékk mér að borða. Þar er hægt að kaupa hálfan rétt dagsins, sem hentar mér mjög vel þar sem ég er yfirleitt fremur matgrönn. Og - rúsinan í pysluendanum - hægt að setjast út í bakgarð og sitja í sólinni að borða. Ég ætlaði varla að tíma að standa upp aftur þegar ég var búin að borða, það var svo notalegt að sitja þarna. Tja, ef frá eru dregnir garðstólarnir sem setið er í, þeir voru ekki sérlega þægilegir.

Síðan fór ég á bókasafnið og tók hin ýmsu tímarit að láni. Þar sagði Hólmfríður að þetta væri bara eins og í útlöndum, það þyrfti að hafa kveikt á viftu í hitanum. Og ég samsinnti henni og sagðist óska þess að við mættum fá marga svona daga í sumar :-)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

mjog ahugavert, takk